17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (2625)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Sigurður Sigurðsson:

Jeg þakka háttv. þingm. V.-Sk. (S. E.) fyrir svarið. Annars var jeg ekki neitt að ámæla honum, þótt jeg segði, að jeg vissi ekki til, að stjórnin hefði gjört neitt í þessu máli. Jeg man ekki betur en að það væri að tilhlutun Fiskifjelagsins, og eftir ósk manna þar eystra, að Jón verkfr. Ísleifsson gjörði mælingarnar á Þorlákshöfn veturinn 1913–1914. Jeg er ekki að skamma neinn ráðherra, hvorki þann fyrrverandi eða núverandi, þó að jeg segi þetta. En sannleikanum mun það vera samkvæmast, að fyrrverandi ráðherra hafi ekki átt upptökin að því, að byrjað var þarna á mælingum þenna fyrrnefnda vetur.

Háttv. 1. þingm. Húnv. (G. H.) hafði ýmislegt að athuga við þetta mál, eins og fyrri daginn, og var það alt á sömu bókina lært. Hann vill slá á frest öllum ráðstöfunum til hafnargjörðar í Þorlákshöfn, og telur að ýmsir aðrir staðir eigi að ganga fyrir, hvað hafnargjörðir snertir. Jeg hefi ekki haldið því fram, að byrja ætti á Þorlákshöfn, á undan öllum öðrum stöðum, þar sem nauðsynlegt er að gjöra höfn. En hinu held jeg fram, að nauðsynlegt sje að festa kaup á jörðinni sem fyrst. Það er og auðsætt, að vegna þess, hvað mikill útvegur er í Þorlákshöfn og nærliggjandi veiðistöðum, þá hlýtur að reka að því mjög bráðlega, að byrjað verði þar á hafnargjörð og undirbúningi til þeirra framkvæmda.

Þá var það, að kostnaðurinn við hafnargjörðina yrði mikill. En jeg vil þá benda háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) á það, að þetta er ekki gjört fyrir Árnessýslu eina. (Pjetur Jónsson: Það hefi jeg ekki heldur sagt). Jeg veit, að hv. þm. S.-Þing. (P. J.) var miklu mildari í orðum en háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.). En sannleikurinn er sá, að í verstöðum þeim, sem hjer ræðir um, stunda menn sjó úr Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu, Árnessýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu og hjeðan úr Reykjavík. Hjer er því um höfn að ræða, er hefði almenna þýðingu fyrir alt Suðurlandsundirlendið að minsta kosti. Auk þess myndi fiskiskipafloti hjeðan úr Reykjavík oft nota sjer höfnina, t. d. er ilt væri veður, er skipin þyrftu að taka vatn og matvæli, leggja af sjer sjúklinga o. fl.

Tillagan ræðir ekki um það, að byrja eigi á hafnargjörð í Þorlákshöfn á undan öðrum stöðum á landinu. Jeg er eins og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) ánægður með það, að komin er fram tillaga um rannsókn á öllum hafnarstæðum, og að hafnargjörðum sje komið í kerfi, eins og t. d. er um síma- og vegamál. En þó að Þorlákshöfn verði ekki fyrsti staðurinn, þar er höfn verði gjörð, þá ætti hún samt að vera ofarlega í tölu þeirra staða, er slíkt gæti komið til greina um.

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) sagði eitthvað á þá leið, að þegar velja ætti stað til að gjöra höfn á, þá ætti ekki að taka tillit til þess, hversu mörg mannslíf væru í hættu, eða hve margir stunduðu þar sjó, heldur hvar arðurinn yrði mestur. Jeg skil það vel um lækni, að hann sje ekki næmur fyrir því, þó að einn maður eða jafnvel nokkrir menn hrökkvi upp af. En þegar um höfn er að ræða, þá verður að taka mest tillit til þess, hversu margir stunda þar sjó, og hversu mikil lífshætta sje því samfara fyrir þá, er það gjöra. Og það er engum vafa bundið, að austanfjalls er meiri hætta á því, að ná eigi til lands, ef ilt er í sjó, en víða annarstaðar. Og þar sem margir stunda þar sjó, verður að líta á þetta.

Auk þessa er það ósannað mál, að það það borgi sig verr að gjöra höfn í Þorlákshöfn en annarstaðar. Hv. 1. þm. Húnv. (G. H.) hefir ekki komið fram með nein rök í því efni. Jeg hefi aldrei lagt neina sjerstaka áherslu á það, hvar byrjað væri, en treysti stjórninni til að sjá um, að það verði gjört þar, sem nauðsynin til þess er mest.

Jeg skal svo ekki þreyta hv. deild með lengra máli; þakka hlýlegar undirtektir þeirra þingmanna, er talað hafa með þessu máli, og reynt að greiða götu þess. Býst jeg svo eindregið við því, að háttv. deild samþykki þessa þingsályktunartillögu mína.