02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Framsögum. (Matth. Ólafsson):

Jeg hefi eiginlega engu við það að bæta, sem stendur í nefndarálitinu. Þó verð jeg að geta þess, að það varð lítilsháttar ágreiningur í nefndinni um það, hvort rjett væri að tiltaka upphæðina, sem stjórnin mætti gefa fyrir eignina. Sumir nefndarmennirnir, og þar á meðal jeg, voru á þeirri skoðun, að það væri ekki rjett að gefa upp verðið. Aftur á móti vildi háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) halda því fram, að það sje efasamt, hvort þingsályktunartillaga geti gefið ráðherra leyfi til að verja fje úr landssjóði. Um það skal jeg ekki þræta, því að það er algjörlega lögfræðilegt spursmál.

Nú er hjer komin brtt frá háttv, 1. þm. S.-Múl. (Þ. B.) um það, að í stað orðanna »neðri deild Alþingis« komi Alþingi. Mjer sýnist þessi brtt. koma nokkuð seint fram. Jeg verð að líta svo á, að það sje alveg nóg, að önnur deildin skori á ráðherra. Jeg verð að leggja það til, að þessi brtt. verði ekki samþykt, því að hún getur orðið til þess, að málið komist ekki í gegn um þingið.