02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Jón Magnússon:

Jeg get ekki tekið undir það með meðflutningsmanni mínum, háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að jeg sje á móti þessu frumv. Hitt verð jeg að játa, að jeg bjóst aldrei við, að það mundi ganga fram óbreytt. Jeg fyrir mitt leyti legg ekki áherslu á það, hvort lagður verði á verðtollur eða vörutollur. Jeg get ímyndað mjer, að vörutollsfyrirkomulagið væri betra í framkvæmd, en mætti þó koma svo fyrir, að ekki yrði tilfinnanlegra eða óþægilegra fyrir framleiðendur. Vjer flutnm. frumv. höfðum þann aðaltilgang með frumv. þessu, að koma málinu inn á þingið, í því skyni, að fá einhvern tekjuauka fyrir landssjóð af hinni óvenjulegu verðhækkun á afurðum landsins. Og við vonuðum, að þótt deilt kynni að verða um aðferðina, þá mundi þó málinu sjálfu tekið þinglega og með stillingu. Það hefir, því miður, ekki orðið. Menn hafa látið sjer sæma að blanda illindum og ofsa inn í málið.

Jeg fæ ekki skilið það hjá háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), að hann virðist halda, að þessi skattur geti orðið til frambúðar. Allar nálægar þjóðir í hlutlausum löndum hafa gjört líkar ráðstafanir þessu, að reyna að tolla þann sjerstaka gróða, er leitt hefir af ófriðnum. Það eru ekki smásummur, sem inn fást með þessu móti. Jeg skal t. d. geta þess, að mjer er sagt, að eitt fjelag í Danmörku hafi greitt í því skyni 700,000 kr.

Jeg skal ekkert um frumvarpið sjálft segja frekar að sinni. Jeg vona að eins, að háttv. deild taki þessari málaleitan sæmilega og felli ekki frumv. frá frekari meðferð, heldur láti athuga það í nefnd. Það væri undarlegt, ef það væri ekki gjört. Jeg man, að talað var um það af miklum móði hjer í háttv. deild í sumar, að óhæfa væri að stemma stigu fyrir nauðsynlegum viðskiftum, með því að kyrsetja vörur í landinu, og betra væri að taka heldur eitthvað af gróðanum til almennra þarfa. Nú er ekki farið fram á annað en að athuga, hvort ekki sje hægt að taka einhvern toll af gróða framleiðenda. Leiðina, sem fara skal, má deila um, eins og jeg áður hefi tekið fram. Meiningarnar virðast vera eins margar og mennirnir í háttv. deild. Það virðast þó flestir þeirrar skoðunar, að landssjóður þurfi tekjuauka, sjerstaklega vegna uppáfallandi kostnaðar, vegna ófriðarástandsins, og má ske tekjumissis hans vegna, en menn eru í vandræðum með að hengja bjölluna á köttinn. Og að fara að taka lán nú, álít jeg mjög svo athugaverða ráðstöfun fyrir landssjóð. En jeg hygg rjett undir öllum kringumstæðum, að reyna til þess, að ná einhvern veginn í gjöld í landssjóð, til þess að hjálpa þeim, sem bágstaddastir eru. Það hefði náttúrlega getað komið til orða að setja allar matvælaverslanir landsins undir stjórn þess opinbera, en það vantar peninga til þess líka. Eina ráðið verður því að ná í peninga, og jeg hygg, að það verði ekki gjört, nema með einhvers konar útflutningstolli.

Jeg enda svo þessa ræðu mína á því, að taka það enn fram, að jeg vænti þess um fram alt, að háttv. deild taki þessu máli sæmilega og þinglega.