21.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (2648)

14. mál, stjórnarskráin

Bjarni Jónsson:

Þetta mál er að mínu viti mjög ljóst frá upphafi, einfalt og auðskilið. Vera má, að ekki sjeu mjer allir samdóma um sögu þess, og verði jeg því að víkja að henni nokkrum orðum.

Sambandsmálinu, þ. e. samningunum um samband Danmerkur og Íslands, lauk svo, að Danir virtu oss eigi svars 1909. Þá tók Alþingi aftur upp kröfuleiðina 1911, því að meiri hluti þjóðar og þings taldi þá staðreynt, að eigi væri semjandi við Dani. Þingið gjörði þá ýmsar breytingar á stjórnarskránni, og þar á meðal var sú, að ríkisráðsákvæðið var tekið úr henni. Var það gjört í þeim tilgangi, að sýna og sanna, að þetta ákvæði væri íslenskt löggjafarmál. Gjört til þess, að herða á orðum háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) og fleiri manna úr hans flokki um það efni. Manna, sem höfðu jafnvel látið það um mælt, að þeir skyldu ganga í Landvarnarflokkinn, ef það sýndi sig, að vjer fengjum ekki ráðið þessu máli fyrir Dönum. Þetta átti að vera til þess að undirstrika þessi orð þeirra og sanna það, sem rjett er, að það vald, sem setur lög, og það eitt, hljóti að geta breytt þeim. Varð alt þingið á einu máli um þetta. En konungur sagðist eigi mundu geta fallist á þessa breytingu og stjórnin lagði málið eigi fyrir þingið 1912, og gekk málið ekki fram á því þingi. Næsta ár, 1913, var það enn tekið upp, og enn var ætlun þingsins hin sama, enda hafði það aldrei verið reynt til þrautar 1911, hvort konungsvaldið myndi eigi láta undan, því að stjórnin hætti við að leggja málið fram, og það kom aldrei til úrslita. Nú vildu menn sjá, hvort málið ynnist ekki með festu. En hitt er rjett hjá hæstv. ráðherra, að þá var skift um orðalagið og sett: »Þar sem konungur ákveður». En þetta er nú í rauninni alveg sama. Enginn fullorðinn maður skilur þessi orð öðruvísi en svo, sem nú verður sagt: »Þar sem þingbundinn konungur Íslands ákveður eftir tillögum Íslandsráðh. eins og á hans ábyrgð«. Með þessu er átt við, að málið sje alíslenskt sjermál, enda kom þessi skilningur fram á þinginu 1913 í báðum deildum og var auðvitað ekki mótmælt.

Þá varð það næst til tíðinda, að 20. okt. 1913 hafði ráðherra Íslands þau ummæli í ríkisráðinu, að hann gekk þar inn á alt annan skilning, þar sem samið var um málið á þann hátt, að það hefði eigi orðið á voru valdi, ef þing og þjóð hefðu samþykt gjörðir hans eftir á. Þjóðin aftók það í kosningunum og þingið setti það skilyrði fyrir staðfestingu stjórnarskrárinnar, að úrskurður konungs í þessu máli yrði »skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður«. Það er með öðrum orðum, að ekki yrði dregið úr rjettum skilningi á orðum stjórnarskrárinnar. Því að þingið vissi vel, hvað það hafði ætlað sjer: að flytja þetta ákvæði frá íslensku löggjafarvaldi yfir í hendur hins íslenska úrskurðarvalds, til þess að sanna með þeim flutningi, að ákvæðið um það, hvar íslensk mál sjeu borin upp fyrir konungi, sje að öllu leyti á valdi vor Íslendinga. Þetta getur enginn vjefengt, því að það var öllum vitanlegt, sem þá sátu á þingi, bæði af flokkafunda-umræðum og öðrum viðræðum manna á milli, fyrir utan umræðurnar í sjálfum þingsalnum. Utan um þetta er ekki hægt að komast, og því er það ekki rjett, að fyrirvarinn væri óskilmerkilegur. Hann var skýr.

Það er nú af þessu auðsætt, að hverjum manni var það gjörsamlega óheimilt, að ábyrgjast undirskrift konungs undir stjórnarskrána, nema fullnægt væri þessu ákveðna skilyrði. Bæði er það öllum vitað, að þingið er æðsta vald landsins, og að enginn hefir því vald til að breyta þeim skilyrðum, er það setur, og eins hitt, að atkvæði þingmanna með stjórnarskránni voru bundin þessu skilyrði. Þess vegna má enginn breyta því, nema hann gefi þingmönnum kost á að taka aftur atkvæðin, þ. e. nema málið sje tekið upp að nýju frá rótum.

Mönnum er nú í minni það, sem gjörst hefir í vetur í þessu máli, og þá síðast það, er hæstv. núverandi ráðherra undirritaði með konungi staðfestingu stjórnarskrárinnar, með þeim ummælum, er höfð voru þar um á ríkisráðsfundi Dana 19. f. m. (Einar Arnórsson: Mánaðarafmæli síðan í dag). Gott, ef hæstv. ráðherra hefir einhverjar gleðilegar endurminningar í því sambandi, en hins vildi jeg minnast, að menn greinir mjög á um það, hvort skilyrði þingsins hafi verið fullnægt með framkomu hans þar, eða eigi. Hæstv. ráðh. og nokkrir með honum segja svo vera, en vjer erum margir ósammála þeim í því efni. í fyrra sumar kom oss mjög vel ásamt um það, sjerstaklega mjer og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), hvernig staðfestingin ætti fram að fara, til þess að skilyrði Alþingis yrði fullnægt, þ. e. að sannað yrði, að vjer Íslendingar hefðum málið á voru valdi. Á þann hátt, að konungsvaldið skrifaði orðalaust undir, samkvæmt tillögum ráðherrans fyrir Ísland, er þá vitnaði til fyrirvarans í tillögunum og í sjálfum úrskurðinum, en engir aðrir segðu neitt.

Með þessum hætti töldum við mega fá viðurkenningu þess, að málið væri eingöngu á valdi Íslendinga, án þess að afturkallað væri opna brjefið, svo sem fyrirvari háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J) fór fram á. Þetta ætla jeg, að komið hafi fram í ræðu framsm. í Nd., en það var núverandi hæstv. ráðherra. Þetta hlaut því að verða sú aðferð, sem ráðherrann krefðist að væri við höfð. Að minsta kosti var sjálfsagt að vitna til fyrirvarans í sjálfum úrskurðinum, en allra sjálfsagðast þó fyrir núverandi ráðherra, því að í nefndaráliti meiri hl. í Nd. um þetta mál, þar sem hann var skrifari og framsm., stendur þetta:

»Jafnframt telur meiri hlutinn æskilegt til frekari tryggingar, að í væntanlegum konungsúrskurði verði skírskotað til þingsályktunartillögunnar á þingskjali 438, ef hún verður samþykt«.

Þetta gat alt verið Dönum og konungi að meinalausu. Úr því að fyrirvaranum átti að fullnægja á annað borð, var útlátalítið að láta það í ljós á skýran og ótvíræðan hátt. Hitt var að eins til þess að vekja efasemdir hjá þeim, sem ekki eru eins trúaðir í þessu máli og þeir þurftu að vera, til þess að vera ánægðir með þau málalok, sem nú eru fengin.

Það var áreiðanlega vilji þingsins, að yfir lyki milli sín og konungsvaldsins um þetta mál, og að danskir ráðherrar væru vandir af því, að hamla konungi Íslands að stýra landinu eftir þingræðislögum rjettum. Þessum vilja þingsins fylgdi fyrverandi hæstv. ráðherra fram með þeirri festu, er sæmir þingræðisráðherra. Hann gjörði ekki annað en skyldu sína, og þær þakkir, sem hann hefir fengið fyrir það, eru ekki annars eðlis en þær, sem hver maður fær fyrir að gjöra skyldu sína. Og hefði enginn Íslendingur látið bilbug á sjer finna, þá er það mín föst og óbifanleg sannfæring, að konungsvaldið hefði látið undan þinginu og að staðfestingin hefði fengist með þeim hætti, sem jeg og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) töldum öruggari í fyrra.

En Íslands óhamingju verður alt að vopni. Nú er ekki hægt að vita, hvort konungsvaldið hefði látið undan eða ekki, því að nú er stjórnarskráin staðfest með þeim flækjum, sem kunnar eru orðnar og framdar voru í ríkisráði Dana 19. f. m. Hjer var annari aðferð beitt en skyldi, en við það skal jeg ekki dvelja. Jeg vil vera manna friðsamastur, eins og minn er vandi. En það verð jeg að segja, að umræðurnar í ríkisráðinu voru flóknar, og flóknastar þó, ef niðurstaðan á að vera sú, sem hæstv. ráðherra segir, að gengið hafi verið inn á fyrirvarann. Ef hann gæti sannað bæði mjer og Dönum, að svo hafi verið gjört, þá tæki jeg því með fögnuði. En því fer mjög fjarri, að hann hafi gjört það. Ræður hans um þetta mál hafa verið æði slitróttar, sem ekki er að furða, því að þær hafa aðallega verið stílaðar til þess, að kasta sinni hnútunni í hvern, en þá er eðlilegt að þráðurinn vilji slitna.

Ef svo ótvíræðlega hefði verið gengið frá þessu máli, að það gæti ekki orkað tvímælis, að fyrirvaranum væri fullnægt, þá væri það útkljáð svo, að enginn ágreiningur væri um, að það væri oss í vil. En í stað þess munu nú einmitt rísa af því hinar megnustu deilur, ef Íslendingar leggja ekki allir niður rófurnar.

Nú mun jeg telja fram nokkur af þeim gögnum, sem Danir munu færa fram gegn oss í þeirri deilu, hvort sem það verður fyrir hlutlausum dómstóli, t. d. í Haag, eða annarstaðar. En hugsum oss, að það verði fyrir dómstóli, sem á að meta þeirra gögn og vor og dæma um, hvern veg nú standi þetta ríkisráðsmál. Ef vjer hugsum oss það, þá verður oss ljósara en ella, að vjer þurfum að hafa einhver gögn til þess að vinna málið.

Þeir munu segja það fyrst, að öll meðferð málsins í ríkisráðinu sýni, að konungsvaldið hafi eigi skoðað úrskurð konungs sem hvern annan íslenskan konungsúrskurð. Og þar með sje skilyrði þingsins haft að engu.

Þeir munu halda því fram, að lengra verði umræðurnar í ríkisráðinu danska 19. júní 1915 alls eigi teygðar Íslendingum í vil, en að málið sje í sínu gamla, þokkalega ásigkomulagi (status quo), og sje því efalaust, að rofið sje skilyrði Alþingis, sem vildi hafa viðurkenning, þótt það heimtaði að eins þegjandi viðurkenningu.

Ef einhver vill efast um, að Danir muni halda því fram, að málið sitji í sama farinu, þá vil jeg benda þeim hinum sömu á það, hvað blað dönsku stjórnarinnar segir 30. júní þ. á.:

» — — En þar sem Einar Arnórsson ráðherra, jafnframt því, sem hann leggur þetta frumvarp fram fyrir konung til staðfestingar, leggur einnig til, að út verði gefinn konungsúrskurður, sem ákveður, að íslensk lög og mikilsvarðandi stjórnaráðstafanir framvegis sem hingað til verði bornar upp í ríkisráðinu, og þar sem konungur lýsir yfir því, að hann muni ekki á sínum stjórnarárum gjöra neina breytingu á þessu, nema annað jafn tryggilegt fyrirkomulag sje sett í staðinn, þá er í raun og veru það band varðveitt, sem eftir stjórnarskipunarlögunum 1903 er hið eina, sem knýtir Danmörk, og Ísland saman ríkisrjettartengslum «.

Þetta gæti blaðið ekki sagt, nema því að eins, að danska stjórnin telji skilyrði Alþingis rofið. En úr því að danskt stjórnarblað játar, að þetta sje eina bandið, þá ættum vjer eigi að knýta það, úr því að það er á voru valdi að slíta það.

Það heyrir eiginlega til niðurlagi ræðu minnar, en jeg get sagt það strax, að þetta er ekkert band, nema þingið samþykki það með þögninni eða á annan hátt. Ráðherrann getur ekki einn skuldbundið landið á nokkurn hátt, nema þingið á eftir viðurkenni þá skuldbindingu. Ef þingið slær varnaglann, er skuldbinding ráðherrans að engu hafandi, hversu ríkt sem henni er haldið fram.

Enn munu Danir halda því fram eftir orðum ráðherra, að vjer höfum ætíð verið þeim sammála um kjarnann í málinu, að málin skyldi bera upp í ríkisráðinu. Jeg tel þeim vorkunn að þessu leyti, því orð ráðherra falla á þá leið og voru svo skilin og undirstrikuð af konungi og forsætisráðherranum. Mjög einföld sönnun er til fyrir því, að þetta er ekki rjett sagt. Hvað gat þá þinginu gengið til að hreyfa málinu? Enda vita það allir, að þótt þingið vildi vinna það til, að málið gengi fram, að láta sjer lynda, að mál vor væru borin upp í ríkisráði um stundarsakir, þó með því skilyrði, að oss væri heimilt að taka þau þaðan, hvenær sem væri, þá var fyrirætlunin ávalt sú, að taka málin þaðan. Það var til þess, að ná málunum út úr ríkisráðinu, að þessu var hreyft. Það vita allir. Og jeg efast ekki um, að það hefði verið gjört við fyrsta tækifæri, eftir að viðurkenning var fengin fyrir því, að vjer gætum það. Hitt, að vjer vildum þola, að málin væru um stundarsakir borin upp í ríkisráðinu, var að eins til þess, að þoka málinu áleiðis. En ef þingið staðfestir þessi ummæli hæstv. ráðherra, þá sjái hann fyrir vörnum í þessu atriði og hans menn. (Ráðherra: Það skal gjört). Það er hægt að tala digurbarkalega, þegar maður er hvorttveggja í einu, bæði málaflutningsmaður og dómari. Þegar maður er einungis málaflutningsmaður, er alt verra. Það er annað að flytja þetta mál fyrir alþjóðadómstóli hlutlausum en hjer á þinginu, þar sem hæstv. ráðherra veit, að hann hefir meiri hlutann með sjer. Enginn Íslendingur ætti heldur nokkru sinni að fallast á, að þetta mál sje að eins formlegt fræðiatriði eða »formelt theoretiskt«, eins og þeir kalla það. Það er þvert á móti það, sem á útlendu máli er kallað »vitalt«. Það er lífsspursmál fyrir oss, að ná öllum vorum málum út úr ríkisráðinu danska, undan dönsku eftirliti.

Loks munu Danir og, er frá líður, halda því fram, að ríkisráðsmálið hafi 19. júní 1915 verið útkljáð sjer í vil. Munu þeir byggja það á ýmsu.

T. d. munu þeir segja, að eftirlitsrjettur sinn með málum vorum hafi verið viðurkendur í þessum umræðum. Vil jeg geta mjer til, hvernig þeir munu styðja það. Þeir munu segja, að ráðherrann danski hafi fyrir hönd Dana lýst yfir þeirri kröfu þeirra, að þeir hefðu eftirlit með íslenskum málum, og einhvern stað, til þess að framkvæma það eftirlit. Þótt ráðherra Íslands vísaði í þingsályktunartill. í mótmælaskyni, þá munu þeir halda því fram, að þar sje ekki sjerstaklega að ræða um eftirlitið, heldur að eins um það, að koma því fyrir á annan hátt en áður hafði verið. Þeir munu segja, að þessi almennu mótmæli ráðherra Íslands snerti því ekki ræðu danska ráðherrans. Einnig munu Danir lýsa yfir því, að konungur hafi fallist á ræðu danska ráðherrans, eftir að hafa heyrt ræðu ráðherra Íslands.

Þá er þetta »citat« konungs: »eins og jeg hefi áður sagt í ríkisráðinu«. Það kom inn í síðustu ferð ráðherrans, því það var ekki í skjali því, er þrímenningarnir höfðu með sjer úr sinni för. Nú munu Danir skýra þessa tilvitnun svo, að konungur hafi með henni viljað hnýta þenna vilja sinn við ástæður þær, er fram komu fyrir þeim vilja á fyrri ríkisráðsfundinum. Eða hví var þetta sett inn, ef það átti ekkert að þýða? Danir geta sagt, að um eftirlitið hafi konungur og ráðherrann danski verið sammála, og ráðherrann íslenski ekki mótmælt þeim, eða þótt hann hafi gjört það, þá hafi hann tekið mótmæli sín aftur, með því að skrifa undir þetta þegjandi og hljóðalaust.

Þá munu Danir bera það fram, að þessi úrskurður geti ekki talist sem hver annar íslenskur konungsúrskurður, þar sem þau skilyrði eru sett fyrir að breyta honum, sem danski ráðherrann tekur fram í ræðu sinni og konungur endurtekur orðrjett, eftir að hafa heyrt mótmæli ráðherrans íslenska. Og einnig munu þeir segja, að ráðherra Íslands hafi fallið frá mótmælum sínum á síðasta augnabliki með undirskrift sinni, eftir alt það, sem fram hafði farið.

Að síðustu munu Danir koma með loforð konungs, að þessu fyrirkomulagi skuli ekki breytt í stjórnartíð hans. Og þeir munu halda því fram, að þetta loforð hafi verið gefið á ábyrgð beggja ráðherranna, hins íslenska engu síður en hins danska, eftir allri meðferð málsins að dæma. Jeg sje heldur ekki, með hverju móti hægt er að útiloka þann skilning. En um leið og Dönum er gefið þetta loforð, eru þeir dregnir inn sem þriðji málsaðili og samningur gjörður við þá, í þessu sambandi skiftir það engu máli, hvort loforðið nær yfir lengri eða skemri tíma.

Þessu munu Danir halda fram, ef til þess kæmi, að hlutlaus dómstóll ætti að skera úr þrætumálum vorum, og þeir munu halda því til streitu.

Því er gott til þess að vita, að enn stendur í voru valdi að ónýta öll þessi vopn Dana, og þótt þeir kynnu að finna einhver fleiri, en það er með því, að samþykkja þessa tillögu, sem hjer liggur fyrir. Ef ráðherrann hefir ekki umboð frá þinginu, þá hafa loforð hans fyrir landsins hönd ekkert gildi. Þetta umboð hefir hann ekki fengið enn þá. Það er þetta þing, sem á að velja um það tvent, að synja honum um það, með því að samþykkja þessa tillögu, eða veita honum það með þögninni eða á annan hátt. Það væri ekki nema mátulegt á Dani, að við ónýttum vopnin í höndum þeirra, eftir þá aðferð, sem þeir hafa haft í þessu máli. Við værum, satt að segja, ekki gáfaðir, ef við gjörðum það ekki.

Það hefir komið hjer fram í ræðum manna, að við, flutningsmenn tillögunnar, værum að ráðast á frelsi landsins, með því að gjöra rjettindi þess vafasöm, og að við hjálpuðum öfundarmönnum þess, sem síðar kynnu að vitna í ummæli okkar hjer. En erum við ekki að reyna að opna augu þingsins fyrir seinasta leiknum á borðinu? Og sá leikur er viss sigurleikur. Hann nægir til þess, að máta Dani og rjetta hlut vorn. Við sýnum öllum þingheimi voðann, til þess að hann sjái við honum. Við teljum það heilaga skyldu okkar. Nei, það hvílir engin ábyrgð á okkar herðum, eftir að við höfum gjört það, sem við nú höfum gjört. Ábyrgðin hvílir á herðum þeirra, sem ekki vilja leika þenna eina leik, sem ekki kostar neitt og engum er til ógagns.

Málið er gengið fram, stjórnarskráin staðfest, svo að ekki er hægt að bera því við, að með þessu lendi hún í strand. Með þessari yfirlýsingu gætum við slegið niður alla tvíræðni í þessu máli, sem gjörir málstað vor Íslendinga vafasaman. Það er til mikils að vinna, en litlu til kostað.

Jeg læt svo útrætt um málið. Gjöri jeg það meðfram af brjóstgæðum, svo að menn geti fengið hvíld eftir þessar löngu umræður.