19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (2653)

14. mál, stjórnarskráin

Björn Hallsson:

Jeg ætla ekki að fara langt út í þessar deilur, lofa fyrrv. og núverandi ráðherra að leiða saman hesta sína, án þess að blanda mjer í þeirra sakir. En fyrst málið er hjer komið til umræðu, sem jeg tel verr farið, verð jeg að skýra frá minni afstöðu.

Háttv. flutnm. (S. E.) talaði mjög stillilega, sem rjett var. Hann beindi orðum sínum til stuðningsmanna sinna og deildarinnar yfirleitt. Jeg virði auðvitað mikils sannfæringu hans, en sammála honum get jeg ekki orðið. Jeg tel ekki rjett, eins og háttv. flutnm. (S. E.) gjörði, að slá svo mjög á viðkvæmnis- og tilfinningastrengi okkar þingm. Heppilegast held jeg sje, að hver og einn athugi rólega, og án þess að fara eftir tilfinningunum, hvað rjett sje í þessu máli.

Jeg held líka, að enginn vilji breyta á móti sannfæringu sinni, og því óþarft að bregða mönnum um það, að þeir sviki málstað sinn. Fyrrverandi ráðherra skírskotaði til yfirlýsingarinnar 30. mars 1914. Yfirlýsingin tekur það fram, að þeir, sem hana gefa, sjeu þáverandi ráðherra sammála um það, að það hefði ekki verið rjett, að taka á móti staðfestingarskilyrðunum frá 20. okt. 1913. Hins vegar get jeg hreint ekki sjeð, að hægt sje að halda stuðningsmönnum fyrrv. ráðherra endalaust föstum á þessari yfirlýsingu, sem gilti auðvitað kjarna málsins, þann, að taka ekki gömlu staðfestingarskilyrðunum. En nú eru staðfestingarskilyrðin öll önnur og betri. En í seinni tíð hefir Sigurður Eggerz farið lengra en þingið 1914 ætlaðist til. Fyrirvarann skildi jeg svo, að hann ætti að fyrirbyggja, að vjer afsöluðum okkur nokkrum rjetti og að konungsúrskurðurinn yrði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður, annað skildi jeg ekki við fyrirvarann, og jeg held síðasta þing ekki heldur. En í seinni tíð hefir flutningsmaður (S. E.) og hans menn haldið því fram, að fyrirvarinn ætlaðist til beinnar viðurkenningar Dana fyrir því, að uppburður sjermálanna í ríkisráði væri sjermál okkar. Þessarar beinu viðurkenningar krafðist ekki síðasta þing og bjóst ekki við að fá. Jeg lít því svo á, að fyrirvaranum sje fullnægt. Engu sje afsalað og konungsúrskurðurinn sje sem hver annar íslenskur konungsúrskurður. Við þessi málalok má því una, og óþarft að setja þetta lengur á oddinn. Tillöguna, sem fram hefir komið, skil jeg sem frítt orðaða vantraustsyfirlýsingu á ráðherra. Hreinna hefði verið, að koma með beina vantraustsyfirlýsingu. Jeg skil ekki tillöguleiðina, og lít svo á, að málið sje til lykta leitt. Hafi ráðherrann gjört rangt, þá ætti hann að fá vantraustsyfirlýsingu og síðan landsdóm. Jeg álit því, að það sje gagnstætt þessari tillögu, að ráðherra sitji við völd.

Síðan jeg sá staðfestingarskilyrðin, hefi jeg ekki getað sjeð, að ráðherra hafi brotið á móti fyrirvaranum og verðskuldi því vantraustsyfirlýsingu. Hins vegar er jeg flutnm. (S. E.) alveg sammála um það, að aðferðin sje ekki aðalatriði. Með aðferðina er jeg ekki ánægður, enda þótt ráðherra hafi þar ýmsar málsbætur, en jeg lít svo á, að skilmálarnir sjeu fyrir öllu. Jeg get ekki kannast við það, að einstöku þingmenn hafi snúist í þessu máli. Því vísa jeg frá mjer. Skilyrðin eru nú alt önnur en 1914; mesti agnúinn, danska auglýsingin og opna brjefið, er dottið úr sögunni. Konungsúrskurðurinn er íslenskur. Þótt tekið sje fram, að ekki megi vænta breytingar í stjórnartíð þessa konungs, þá er alls ekki sagt, að konungur breyti honum ekki, og því síður, að slík breyting sje að nokkru bundin við dönsk stjórnarvöld.

Jeg hefi nú skýrt frá minni afstöðu í málinu og tel fyrirvaranum fullnægt, og mun jeg því greiða atkvæði með þeirri rökstuddu dagskrá, er fram hefir komið, og ekki tala aftur í málinu; nógir munu samt verða til, að þreyta háttv. deild.