19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

14. mál, stjórnarskráin

Sveinn Björnsson:

Hjer hefir verið mikið talað um umbúðir í dag, en jeg sje ekki, að þær hafi minkað við umræðurnar, og hafa háttv. tillögumenn þar ekki látið á sjer standa. Allar ræður þeirra hafa verið umbúðapappír að meira eða minna leyti, og sjálf er tillagan ekki annað en umbúðapappir utan um vantraust til hæstv. ráðherra. Jeg vildi nú reyna að taka eitthvað af þessum pappír utan af henni, og þótt jeg eigi bágt með að reyna svo mikið á þolinmæði manna, að tala jafn lengi og margir aðrir, þá þykist jeg ekki geta komist hjá því, að lýsa skoðun minni á málinu með nokkrum orðum.

Jeg ætla þá fyrst að víkja að háttv. þm. Dal. (B. J.). Hann sagði, að þegar orðin »í ríkisráði« voru feld burt úr stjórnarskrárfrumvarpinu, þá hafi sá verið tilgangurinn, að gjöra það að umboðsmáli, sem áður var löggjafarmál. Þetta er alveg rjett, og þá fær ráðherra þau svör 1911, að konungur geti ekki fallist á þetta, fyrr en nýr samningur sje gjörður um samband landanna.

Þegar svo sá millivegur var reyndur, sem háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) var upp hafsmaður að, að setja þau orð, sem nú eru í stjórnarskránni í staðinn fyrir ríkisráðsákvæðið, þá strandaði það á sama skerinu. Þáverandi konungur segir við þáverandi ráðherra, að hann geti ekki fallist á þá breytingu, nema jafnframt verði gefinn út úrskurður um, að málin skuli eftirleiðis vera borin upp í ríkisráðinu, og að þeim úrskurði verði ekki breytt, fyrr en ný sambandslög verði samþykt, bæði af ríkiþinginu og Alþingi Íslendinga. Í báðum tilfellum strandaði málið á sama skerinu. Á þessu tvennu vildi jeg vekja athygli.

Þegar á þetta er litið, hlýtur hverjum manni að vera ljóst, gegn hverju fyrirvarinn var stílaður. Hann var einmitt stílaður gegn þeim yfirlýsta vilja konungs á ríkisráðsfundinum 20. október 1913, að fyrirkomulaginu um uppburð sjermálanna yrði ekki breytt, fyrr en ný sambandslög yrðu sett, og samþykt bæði af ríkisþinginu og Alþingi Íslendinga. Fyrirvarinn var stílaður gegn þessu konungsorði, sem átti að birta Dönum. Jeg held, að flestir, sem tóku þátt í umræðunum um þetta mál, innan sjálfstæðisflokksins, hafi vitað, að það var þar efst á baugi, að girða fyrir, að þessi konungsvilji yrði. Með það fyrir augum var fyrirvarinn samþyktur, og með það fyrir augum fjekk bann það orðalag, sem hann fjekk. Þessum aðdraganda má því ekki sleppa, þegar fyrirvarann á að skýra.

Þegar litið er á sjálft orðalag fyrirvarans, er það einkum tvent, sem er aðalatriðið, eins og líka háttv. flutnm. (S. E.) og háttv. þingm. Dal. (B. J.) hafa tekið fram. Það er þetta tvent, að Alþingi lýsir yfir því, að það haldi fast við þá skoðun sína, að uppburður sjermála vorra í ríkisráði Dana sje sjermál, og að konungsúrskurðurinn, sem boðaður var 20. okt. 1913 verði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður, enda geti konungur breytt honum á ábyrgð íslandsráðherra eins, án nokkurrar íhlutunar af hálfu dansks löggjafarvalds eða danskra stjórnvalda. Ef þetta er borið saman við gjörðir ríkisráðsfundarins 19. júní s. l., verður útkoman þessi: Fyrsta atriðinu, yfirlýsingu þingsins um, að uppburður sjermálanna sje sjermál vort, hefir háttv. ráðherra komið á framfæri, með því, að láta taka það upp í sjálfa tillöguna um að staðfesta stjórnarskrána. Jeg held, að ekki sje hægt, að hugsa sjer aðra heppilegri aðferð, enda hefi jeg ekki heyrt, að nokkur hafi neitt að athuga við hana, Þá er eftir að athuga, hvort hæstv. ráðherra hefir leyst af hendi það, sem eftir er af því, sem Alþingi áskildi. Fyrst áskilur þingið, að þessi margnefndi konungsúrskurður verði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður. Þegar litið er á konungsúrskurðinn, liggur fyrst fyrir að rannsaka, hvernig það skjal skjal er, stjórnarfarslega sjeð. Er þessi úrskurður með sömu ummerkjum og hver annar íslenskur konungsúrskurðnr? Jeg hygg, að erfitt sje að segja, að hann sje á annan veg. Á þann hátt er hann undirskrifaður af konungi og Íslandsráðherra einum. (Sigurður Eggerz: Svo var einnig um úrskurðinn frá 20. okt. 1913). Það hefir ekki verið upplýst, hvorki af háttv. þm. V.-Skaft. (S. E.) nje öðrum. Að umræðurnar, sem fóru fram um þetta mál í ríkisráðinu voru birtar almenningi, breytir engu hjer um, enda hefir það verið gjört þrisvar áður en þetta skeði, án þess, að nokkur hefði neitt við það að athuga; þar á meðal var það gjört með umræðurnar 30. nóv. 1914. Að öðru formi til er úrskurðurinn eins og hver annar íslenskur konungsúrskurður. Jeg sje ekki betur en að öll ytri merki hans beri það með sjer, að hann er ekki annað nje meira. Og hver var svo meiningin með því, að hann yrði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður, ef hún var ekki sú, að hann væri að öllu leyti gjörður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður? Að þessu leyti er því fyrirvaranum fullnægt. Þá liggur fyrir að athuga það, hvort úrskurðinum verður breytt, án íhlutunar dansks löggjafarvalds, eða danskra stjórnarvalda. Um danskt löggjafarvald þarf ekki að ræða í þessu sambandi. Það er alveg úr sögunni. Það er hvergi skýrskotað til þess í umræðunum, sem fóru fram í ríkisráðinu 19. júní þ. á. Enda held jeg, að enginn tali nú um það,

(Ráðherra: Jú, þeir, sem segja, að opna brjefið sje enn í gildi). Sú skoðun, að opna brjefið sje í gildi enn þá, hefir farið svo hægt, að jeg hefi haldið, að menn þyrðu ekki að halda henni fram í alvöru. (Sigurður Eggerz og Bjarni Jónsson: Jú, jú). Hver getur vitað, hverju haldið er fram í alvöru og hverju ekki? Jeg held, að öllum hljóti að vera ljóst, að opna brjefið getur ekki verið í gildi. Það veit hver maður, sem kann að lesa, að orð konungs í ríkísráðinu 19. júní s. l. eru ósamrímanleg við opna brjefið.

Þá virðist að eins eitt vera eftir, sem sje það, að konungsúrskurðinum verði ekki breytt, nema með íhlutun danskra stjórnarvalda. Þessi skoðun er bygð, að því er virðist, á svo litlum rökum, — er svo hugmyndafleygur tilbúningur, að mig furðar stórlega á því, að nokkur skuli halda henni fram. En mest furðar mig á því, að henni skuli vera haldið fram af alþingismönnum hjer á Alþingi, þar sem hver maður hefir gjörðir ríkisráðsfundarins 19. júní s. l. fyrir framan sig. Það fer svo fjarri því, að konungur gjöri orð forsætisráðherrans að sínum orðum, og úrskurði þannig dönsku skoðunina á málinu, að hann tekur beinlínis afstöðu frá orðum hans í sinni ræðu. (Einhver: Uss). Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) þýðir ekki að segja uss, þó að það sje vel skiljanlegt frá heilbrigðisfræðilegu sjónarmiði, því að hann hefir nú sagt það svo oft. (Sigurður Eggerz: Jeg sagði ekki uss). Það er greinilegt, að forsætisráðherrann heldur fram dönsku skoðuninni á málinu, en konungurinn hefir ekki þá skoðun. Það er fullkomlega heimilt að skilja orð hans á þessa leið: Það getur verið, að jeg breyti þessari tilhögun með uppburð sjermálanna bráðlega, en jeg læt Alþingi vita, að það má ekki búast við því, meðan jeg lifi. (Bjarni Jónsson: Hann ætlar þá að gjöra það, þegar hann er dauður) Konungurinn er eilífur, þó að Kristján X. deyi. (Bjarni Jónsson: Þá er líka hans tíð eilíf). Því verður ekki með rökum neitað, að það er ósamræmi milli orða konungs og forsætisráðherrans, og það er röng staðhæfing, að konungur hafi lagt sjer orð forsætisráðherrans í munn. Jeg held því fram, að ekki verði sýnt fram á það, að ráðherra Íslands hafi í ríkisráðinu, beinlínis eða óbeinlínis, gefið nokkurt loforð um það, að dönsk stjórnarvöld eða löggjafarvöld hefðu íhlutunarrjett í breytingu á konungsúrskurðinum. Jeg held, að því verði ekki með rökum mótmæli, eins og málið stendur nú, að að forminu til hafi ráðherra Íslands, hvenær sem hann og Alþingi óska þess, fullkomna heimild til að fara fram á, að úrskurðinum verði breytt, þótt það yrði að ári, og halda því til streitu.

Þessum fyrirvara var, að mínu áliti, samkvæmt því, hvernig hann varð til, og samkvæmt orðalagi hans, algjörlega fullnægt á ríkisráðsfundinum 19. júní s. l. En það lítur svo út, sem menn hafi nú hugsað sjer annan fyrirvara. Afstaða þeirra háttv. þingm., sem bera þessa tillögu fram, verður á engan hátt skilin á annan veg en þann, að þeir leggi alt aðra skoðun í orð fyrirvarans en þau gefa heimild til. Þessa skoðun mína styður líka sú geisilega áhersla, sem háttv. flutnm. (S. E.) leggur á yfirlýsingu þá, er hann fjekk frá 24 þingmönnum, eftir að hann kom af konungsfundi. Hann ímyndar sjer auðsjáanlega, að sú yfirlýsing gefi honum heimild til, að leggja nýja og breytta skoðun í fyrirvarann. En því fer fjarri, að það sje rjettmætt. Vegna þess, að háttv. flutningsmaður (S. E.) hefir ekki látið menn heyra orðalag yfirlýsingarinnar, svo sem hefði mátt vænta, þá vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa yfirlýsinguna upp, eins og hún hljóðar, svo hún sjáist í Alþingistíðindunum. Hún er á þessa leið:

»Vjer undirritaðir lýsum yfir því, að vjer teljum, að framkoma ráðherra í ríkisráði 30. nóv. síðastliðinn hafi verið í fullu samræmi við þingviljann. Sjerstaklega skal það tekið fram, að vjer álitum fyrirhugaða auglýsingu konungs til Dana ósamrímanlega við fyrirvara Alþingis«.

Þetta er yfirlýsingin, svo mörg eru hennar orð. Af þessu hljóta menn að sjá, hvað vakti fyrir mönnum, þegar fyrirvarinn var samþyktur í fyrra. Raunar þarf ekki að vitna í yfirlýsinguna; það sást á öllum umræðunum, sem á undan fyrirvara-samþyktinni fóru, að það var auglýsingin til Dana, sem ekki mátti ske. Þegar hæstv. fyrrv. ráðherra (S. E.) fer með málið á ríkisráðsfundinum 30. nóv. 1914, vill konungur ekki sleppa auglýsingunni. Þá leggur ráðherrann niður völdin. Þetta er sú framkoma, sem hann fjekk traustsyfirlýsingu fyrir. Það vill svo til, að í yfirlýsingunni er sjerstaklega bent til auglýsingarinnar til Dana. Það var aðalatriðið. En að háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) megi lesa út úr yfirlýsingunni heimild til að búa til annan fyrirvara, það nær vitanlega ekki nokkurri átt. Jeg staðhæfi, að orðalag hennar getur ekki gefið slíka heimild. Jeg veit um sjálfan mig, að jeg ætlaðist ekki til, að mín undirskrift yrði notuð þannig. Og hið sama munu flestir hinna segja.

Þar sem jeg nú, samkvæmt því, sem jeg hefi lýst hjer yfir, er þeirrar skoðunar, að fyrirvara Alþingis hafi verið fullnægt á ríkisráðsfundinum 19. júní s. l., þá get jeg fyrir mitt leyti greitt atkvæði með þeirri rökstuddu dagskrá, sem hjer liggur fyrir.

Um tillöguna sjálfa vil jeg segja, að það var ekki ófyrirsynju, að háttv. samþingismaður minn (J. M.) hafði það orð um hana, sem háttv. sessunautur minn (G. E.) hneykslaðist svo mjög á, að kalla hana viðrini. Tillagan á, að sögn flytjenda hennar, að girða fyrir það, að gjörðir ríkisráðsfundarins 19. júní s. l. hafi í för með sjer rjettindamissi fyrir Ísland. Það er nú svo. Nú er tillagan orðuð þannig, að hún er öll bygð á fyrirvaranum frá 1914. En eins og allir vita, hefir verið gjörð tilraun til þess hjer í deildinni í dag, að teygja fyrirvarann eins og hrátt skinn, og leggja alt annan skilning í hann en nokkrum hafði dottið í hug, þegar hann var saminn og samþyktur. Það hefir, með öðrum orðum, verið reynt að búa til úr honum nýjan fyrirvara.

Og ef þessi till. verður nú samþykt, þá vaknar sú spurning, hvaða skilningi á fyrirvaranum sje verið að halda hjer fram í tillögunni. Við getum verið vissir um, að þetta yrði nú nýtt deiluefni. Auk þess er jeg þeirrar skoðunar, að fyrirvarinn hafi í rauninni að eins verið umboðsskjal fyrir ráðherrann. Og þar sem það umboðsskjal lá fyrir ríkisráðsfundinum 19. júní síðastl. og hinum málspartinum var fullkunnugt um innihald þess, þá væri það á engan hátt bindandi fyrir landið, þótt ráðherrann hefði farið lengra en umboð hans náði. Þetta vita allir, sem einhverja nasasjón hafa af lögum. Enda man jeg ekki betur en að háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) tæki þetta fram. Tillagan er því tilgangslaus með öllu.

En svo er annað, sem ekki verður í móti mælt, að tillagan felur í sjer aðdróttun til hæstv. ráðh., um að hann hafi ekki fengið fullnægt fyrirvaranum. Annars væri hún líka meiningarlaus með öllu. Og hvað er vantraust á einum ráðherra, ef það er ekki það, að gefa það í skyn, að hann hafi svikist undan að flytja erindi Alþingis? Þá var hreinlegra, að koma hreint til dyranna með beina vantraustsyfirlýsingu. Þeir segjast ekki hafa treyst sjer til að koma henni fram. En þá var þetta ekki hyggileg aðferð, að vefja vantraustið innan í þær umbúðir, sem svo eru illa vafðar, að í gegnum þær skín.

Háttv. tillögumenn hafa haldið því fram, einkum háttv. framsögum. (S. E.) með ekki svo litlum tilfinningamóði, að hjer væri að eins um öryggisráðstöfun að ræða, sem hver maður ætti að geta greitt atkvæði með. Jeg þykist hafa bent á það, að á bak við liggur vantraustsyfirlýsing til hæstv. ráðh. Jeg vildi óska, vegna framsögum sjálfs, að hann hefði talað af minna móði, því að hann og fylgismenn hans áttu kost á að fá slíka öryggistillögu samþykta, ef þeir hefðu viljað brjóta odd af oflæti sínu með því, að láta ekki þessa bersýnilegu vantraustsyfirlýsingu fylgja með. (Bjarni Jónsson: Þetta er ósatt). Jeg hefi nóg vitni. (Sigurður Eggerz: Hver bauð þessi kostaboð? Skúli Thoroddsen: Og hvernig var tillagan orðuð?). Þessi tillaga var aldrei orðuð, (hlátur), enda hefi jeg aldrei sagt, að svo hafi verið. Háttv. framsm. (S. E.) hlær dátt, er jeg segi, að tillagan hafi aldrei verið orðuð. En getur hann fullyrt, með höndina á brjóstinu, að slík tillaga hafi ekki komið til orða? Jeg vildi ekki láta þetta ósagt, því að jeg álít þetta ósæmilegan leik, sem hjer er verið að leika.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir samið allmikið málfærsluskjal, sem hann virðist hugsa sjer, að lagt verði fyrir friðardómstólinn í Haag. Hann ætlar að sýna fram á það, að sá dómstóll muni komast að þeirri niðurstöðu, að Danir hafi fengið einhvern rjett, sem þeir ekki hafi átt áður, á ríkisráðsfundinum 19. júní síðastliðinn, og byggir það á orðum konungs. Jeg skal í þessu sambandi leyfa mjer að lesa upp kafla úr ræðu, er háttv. þm. Dal. (B. J.) hjelt á síðasta þingi 1914. Honum farast svo orð:

»Ef konungur nú, þrátt fyrir mótmæli, staðfestir stjórnarskrána, þá hefir hann þar með tekið aftur sitt opna brjef 20. okt. 1913 og ákvæði ríkisráðsfundarins, því að þegar Hans hátign konunginum hefir verið skýrt frá skoðun Alþingis í þessu máli, þá væri það að draga Íslendinga á tálar, ef hann staðfesti frumv. með öðrum skilningi en Íslendingar hafa lagt í það.

En ef hann staðfestir frumv. með öðrum skilningi en Íslendingar leggja í það, þá væri hans skilningur markleysa. Enginn lögfræðingur getur litið öðruvísi á það og enginn dómstóll dæmt það öðruvísi«.

Svo mörg eru þessi orð. Og má jeg nú spyrja: Er það jeg, sem hefi skift um skoðun í málinu, eða er það háttv. þm. Dal. (B. J.)?

Þá fór sami háttv. þm. mörgum fögrum orðum um þá miklu ábyrgð, sem hvíldi á þeim mönnum, er greiddu atkvæði móti tillögunni. Jeg dreg það ekki í efa, að hver einasti þingm. hefir gjört sjer það ljóst, hver ábyrgð hvílir á honum í þessu efni, þegar hann á að greiða atkvæði sitt. Og jeg efast ekki um, að menn fari þar eftir sannfæringu sinni einni. Jeg er þess fullviss, að landsrjettindum vorum er ekki stefnt í neina hættu. Jeg get því ekki greitt atkvæði með tillögunni. Andstæðingar mínir telja hjer mikinn voða á ferðum. En þeir áttu kost á að því, að fá öryggistillögu sína, sem þeir kalla svo, samþykta, ef þeir að eins vildu hafa hana svo úr garði gjörða, að ekki fælist í henni vantraust til ráðherra. En því vildu þeir ekki ganga að, þótt þeir vissu, að með því móti gætu þeir bjargað landsrjettindunum, er þeir töldu í hættu. Þeir kusu heldur að hafa tillöguna eins og hún er nú borin fram, þótt þeir vissu það fyrir fram, að hún mundi falla. Á hverjum hvílir nú ábyrgðin fremur hjer? Og jeg skal bæta því við, að þessir sömu menn vildu afstýra því í vor, að stjórnarskráin næði fram að ganga. Fylgir því engin ábyrgð? Þessir menn ættu að vera dálítið varfærnari í dómum sínum og hótunum. Jeg álít þeim fullsvarað með þessum orðum: Hví sjer þú flísina í auga bróður þíns, en gætir ekki bjálkans í þínu eigin auga?

Þegar hjer var komið umræðunum, tók forseti málið út af dagskrá, og frestaði umr. til næsta fundar.