20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

14. mál, stjórnarskráin

Ráðherra:

Mjer hefir heyrst það á ræðum háttv. flutnm. (S. E.), að hann búist við, að þessi þingsályktunartillaga, sem af sumum góðum mönnum hefir verið kölluð »viðrini«, yrði molduð hjer í deildinni. Það var því ekki nema eðlilegt, að hann hjeldi 2 hjartnæmar líkræður, sem báðar hafa endað með stuttri bæn.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) hefir tekið af mjer ómakið og svarað flestu af því, er svara þarf flutningsmönnunum. Jeg get því verið stuttorðari en ella.

Jeg skal þá byrja á háttv. þm. Dal. (B. J.). Muni jeg rjett, þá brá hann sjer til Haag í gær — hann er vanur utanförum — til þess að tala þar máli Dana. Þeir hafa hjer fengið öflugan málssvara, og er ástæða til þess að óska þeim til hamingju með hann. Annars var það ekki svo óttalegt, sem þessi háttv. þm. ætlaði að leggja Dönum í munn. Þeir áttu að segja það eitt, að meðferð málsins sýndi það, að það af Dana hendi hefði verið skoðað sem danskt mál. En hvað kemur okkur það við, er Danir segja í þessu efni. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir skýri málið frá sínu sjónarmiði, eins og við frá okkar. Og sje það rjett, sem ekki hefir verið hrakið, og verður ekki hrakið, að tilætlunin hafi aldrei verið sú, að krefjast nú beinnar viðurkenningar þess, að uppburður sjermálanna væri sjermál, þá varðar oss það engu, hvað Danir segja í þessu efni, þar sem vjer höfum engum rjetti slept.

Jeg legg ekki mikið upp úr því, þótt danska blaðið »Politiken« frá 30. f. m. haldi því fram, að »status quo« haldist í þessu efni. Í fyrsta lagi eru þetta ekki orð Hans hátignar konungsins, og í öðru lagi ber þess að gæta, að »Politiken« er stjórnarblað, og því eðlilegt, að það haldi þessari skoðun fram, til þess að gefa ekki andstæðingum stjórnarinnar höggstað á stjórninni fyrir það, að forsætisráðherrann hefði sýnt tilslökun í málinu. Háttv. þm. Dal. (B. J.) gaf það í skyn, að þingið 1914 hefði ætlað að vinna mikinn sigur. En í hverju var sá sigur fólginn? Ekki í því, að fá viðurkenningu Dana á því, að uppburður sjermálanna væri sjermál. Ekki var beinnar viðurkenningar konungs á þessu atriði heldur krafist. Það eina, sem þingið fór fram á, var það, að stjórnarskráin næði fram að ganga, án þess að staðfestingin færi í bága við fyrirvara Alþingis, án þess að nokkrum rjettindum væri slept. Og við háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) höfum sýnt fram á, að ekkert slíkt skeði 19. júní síðastliðinn. Nú langar mig til þess að spyrja háttv. þm. Dal. (B. J.), á hvern hátt hann og flokksbræður hans hugsuðu sjer að sigra. Jú, þeir ætluðu að láta stjórnarskrármálið liggja í strandinu, sem það komst í 30. nóv. síðastliðinn, fyrir frammistöðu háttv. flutnm. (S. E.), og dúsa í því hreiðri. Svo var það víst meining þeirra að gefa fyrv. ráðherra traustsyfirlýsingu á þinginu, og beygja sig að öðru leyti fyrir konungsvaldinu. Sigur þeirra var því í því fólginn, að svínbeygja sig. Síðar meir hugðust þeir að taka málið upp að nýju og setja þá ríkisráðsákvæðið aftur inn stjórnarskrárfrumv. Fyrst að beygja sig, og síðan bæta gráu ofan á svart, með því að láta ákvæðið standa óbreytt í stjórnarskránni. Þetta er það, sem þessir herrar kalla »að fá viðurkenningu Dana fyrir því, að uppburður sjermálanna sje sjermál«.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) kom enn með þá gömlu firru, að Alþingi hefði að eins þolað, að málin væru borin upp í ríkisráði. Alþingi gjörði meira en að þola það, og svo vel vill til, að jeg get sannað mitt mál með orðum manns, sem hv. þm. Dal. (B. J.) mun virða, sem sje sjálfs flutningsmanns (S. E.). Á þingi 1913 er einn þingmaður í Ed., Guðjón Guðlaugsson, að skýra ákvæðið »þar sem konungur ákveður«; hann telur, að skýra megi það á tvo vegu, og sje annar sá, að uppburður málanna verði ekki í ríkisráðinu. Þessu svarar háttv. framsögum. (S. E.) svo, að »frá ríkisráðinu hopum vjer ekki«. Þetta stendur í Alþingistíðindunum 1913, 1086. dálki. Í þessum umræðum minnist þáverandi ráðherra, Hannes Hafstein, á það, að oss sje það að mörgu leyti hentugra, að uppburður sjermála vorra fari fram í ríkisráðinu en annarstaðar. Næst honum stendur hv. framsögum. (S. E.) upp, og mótmælir alls ekki, nje gjörir athugasemdir við þessa kenningu þáverandi ráðherra, þrátt fyrir það, að hann hafði rökstutt hana.

Hv. þm. Dal. (B. J.) telur oss lífsnauðsyn að ná öllum vorum málum undan Dönum. Ef orð hans eru tekin bókstaflega, fela þau í sjer persónusamband eða skilnað, en þau efni koma ekki þessu máli við.

Þá læt jeg skilið við prókúratorinn frá Haag og sný mjer að vini mínum, hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). Ræða hans var skemtileg; hann er jafnan góður ræðumaður og gaman á hann að hlýða. Það er tekur til efnisins, þá hefir hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) svarað mestu. Jeg skal því að eins til árjettingar hnýta við nokkrum athugasemdum um fáein atriði.

Hann fann að því, að umræðumar á ríkisráðsfundinum 19. júní hefðu verið birtar í Ríkistíðindum Dana, þótt án undirskriftar forsætisráðh. væri. Þessu hefir hann áður haldið fram og talið mig hafa unnið pólitískan höfuðglæp, er jeg reis ekki upp móti birtingunni, þannig lagaðri. En eins og jeg tók fram í gær, þá ber hv. tillögumönnum ekki vel saman; eru þeir auðbraktir úr vígjum sínum, og mun eins fara um þetta vígi.

Einn af málsvörum þeirra utan þings, og vafalaust greindasti lögfræðingurinn í þeirra flokki, hefir lýst yfir því, að birtingin væri algjörlega áhrifalaus. Enda segir þetta sig sjálft. Hvernig getur það haft stjórnskipulega þýðingu, þótt birt sje fundargjörð. Annað mál væri það, ef birtingin hefði farið fram á þann hátt, sem birt eru stjórnskipuieg atriði. En því fer fjarri. Birtingin fór fram í Ríkistíðindum Dana alveg eins og í Lögbirtingablaðinu hjer, undirskriftalaus.

Hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði enn fremur, að viðurkenning Dana á því, að vjer hefðum rjett til þess að ákveða, hvar sjermál vor væru borin upp fyrir konungi, hefði ekki fengist, af því að forsætisráðherra Dana taldi þetta atriði sammál. Hjer til liggur það svar, að enginn, nema ef til vill hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), ætlaðist til þess, að Danir viðurkendu þetta. En enginn mun halda því fram, að spilt hafi verið rjetti vorum, þótt forsætisráðherra láti í ljós skoðun, sem mótmælt er af Íslandsráðherra. Mundi t. d. hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), ef jeg þættist eiga sneið af túninu á Bessastöðum, sem jeg auðvitað á ekki, vilja halda því fram, að jeg ætti hana, þrátt fyrir það, þótt eigandinn hefði mótmælt því? Annars get jeg um þetta atriði vísað til þess, sem jeg sagði í gær, og óþarft er að ítreka, þar sem jeg vísaði til skoðana hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sjálfs, eins og þær komu fram í blaði hans 1913. Hann vill nú raunar fóðra þessi ummæli sín þá með því, að flokksstjórn sjálfstæðisflokksins hafi ekki haft tíma til að hugsa málið og gjört ákvörðun sína í fljótræði. Flokksstjórn sjálfstæðisflokksins skipa þá þessir menn, sem allir eiga enn sæti hjer á þingi: hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), hv. 1. þm. G.- K. (B. K.), hv. þm. N.-Þing. (B. S.) og hv. þm. Dal. (B. J.). En ef þá hefir hent þetta fljótræði þá, að láta sjer glepjast sýn, hvernig getur þá nú undrað, þótt mönnum nú komi til hugar eitthvað líkt og telji þá ekki hafa yfirvegað þessa tillögu sína, sem nú liggur fyrir, til hlítar? Jeg sje ekki betur en að heimilt sje að láta sjer detta slíkt í hug og heimilt að segja það. Flestum mun þykja varlega í það farandi að byggja mikið á orðum þessara manna, eftir að fengin er játning frá forustumanni þeirra um það, að flokksstjórn þeirra hafi gjört tillögur sínar um eitt allra mikilvægasta mál landsins, sem þá var á dagskrá, algjörlega í blindni.

Hv. framsögum. (S. E.) sagði annað veifið, að Danir hefðu enga afsökun í þessu máli, af því að þeim hafi verið fyrirvari Alþingis kunnur. Þar er ekki mikið, sem skilur okkur. Eins og hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) og hv. þm. Snæf. (S. G.) hafa tekið fram, að ef jeg hefði farið út fyrir umboð mitt, sem jeg hefi ekki gjört, þá væri enginn skaði orðinn, því að hinn aðilinn þekti umboðið, og mun hv. framsögum. (S. E.) geta skilið þetta. (Sigurður Eggerz: Hæstv. ráðh. skilur ekki sjálfan sig, eins og jeg mun sýna á eftir). Hv. framsögum. (S. E.) lofar ætíð að sýna alt og sanna á eftir, en þau loforð hans vilja reynast nokkuð afturmjó í efndunum.

Þá eru það ýms atriði í ræðu háttv. framsögum. (S. E.) og annarra, sem jeg verð að víkja að, þótt ekki snerti beint þetta mál, en varðar þó aðgjörðir mínar og annarra, sem um málið hafa fjallað. Skal jeg halda tímaröð, eins og þeir.

Hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) talaði um utanstefningar, er hann svo nefndi, þ. e. heimboð konungs til nokkurra manna í vetur. Eftir því, sem mjer skildust orð hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), vildi hann ekki beint vita heimboð konungs, nje það, að boðið var þegið. En það var annað, sem honum þótti athugavert, sem sje hverjir voru valdir. Eins og kunnugt er, urðu fyrir þessu boði þrír menn, 1. þm. Húnv. (G. H.), 1. þm. Rvk. (S. B.) og jeg. Það, sem hv. þm. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) þótti athugavert, var það, að vjer værum of ungir. En þótt satt sje það um oss, að allir sjeum vjer nýir þingmenn og tveir af oss ungir að aldri og óvanir pólitískum stórræðum, þá getur þetta þó ekki átt við um 1. þm. Húnv. (G. H.), sem bæði er roskinn maður og lengi hefir verið viðriðinn stjórnmál. Hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) þótti eðlilegra, að honum og hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hefði verið boðið. Þetta lái jeg honum ekki, því að þeir eru oss óneitanlega eldri og reyndari. Og sama er að segja um hv. þm. Dal. (B. J.). (Bjarni Jónsson: Jeg mundi ekki hafa þegið það). Á hv. þm. Dal. (B. J.) sannast orð refsins, er hann náði ekki til berjanna: »Þau eru súr«. Allir þessir þrír menn hafa prýðilegan feril að baki. Einn þeirra hefir verið sendur í mikilsvarðandi sendiför sem fulltrúi landsins, annar hefir verið viðskiftaráðunautur og sá þriðji hefir farið með eitt hið merkasta fjármálastarf landsins, bankastjórn, og sjálfsagt gjört sjer mikið far um að koma út verðbrjefum bankans og á líklega gott skilið fyrir, þótt árangur hafi orðið sá, að brjef þessi hafa eigi selst, heldur lækkað í verði. Jeg get því skilið orð hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og samsint honum í því, að óheppilegt hafi verið, að þeir voru ekki valdir til farinnar.

Sami háttv. þm. (Sk. Th.) gat þess, að vjer hefðum sagt eftir heimkomu vora, að vjer hefðum engu loforði bundist í því, hvað vjer ætluðum að gjöra. Og er það satt. En hins vegar var jeg þá þegar sannfærður um það, að óverjandi væri, að taka ekki þessu tilboði, og þegar á fyrsta eða öðrum flokksfundi, sem haldinn var um málið, lýsti jeg yfir því, að jeg væri ráðinn í að fylgja málinu fram, og ekki beygja mig, þótt jeg yrði í minni hluta. Þessu sama lýsti jeg yfir á opinberum fundi, og þetta hefi jeg efnt, sem betur fer. Er því alt hreint frá minni hálfu í þessu máli. Tillögumenn geta þess vegna ekki heldur brugðið mjer um það, að jeg hafi farið á bak við þá. En undarlegt er það af þeim, að ætla mjer þann barnaskap, að jeg fari að leita stuðnings þeirra, sem andstæðir voru í málinu, og fordæma alt það, sem jeg hefi gjört og ætla að gjöra.

Þá skal jeg víkja að leyndinni. Allir hafa játað það, að lofað var að birta ekki bráðabirgðatillögurnar. Sumir þykjast raunar hafa bundið það einhverjum skilyrðum, en það er hin mesta fjarstæða, því að oss mundi aldrei hafa komið til hugar að sýna tillögurnar, ef leyndarloforð þingmanna hefði verið nokkrum skilyrðum bundið; heldur mundum vjer hafa leitað til annarra, eða látið málið niður falla, en eiga það á hættu, að birt væru orð, sem konungur kynni að segja einhverntíma í framtíðinni. En til þess kom ekki, því að allir bundust þessu þagnarheiti, og það var bókað í gjörðabók flokksstjórnarinnar. Eins og jeg hefi áður tekið fram, lýsti jeg því yfir í upphafi skýrt og skorinort, að jeg mundi halda málinu fram, enda er það nú fullljóst, að jeg hefi ekki látið heykjast í því efni. Og til sannindamerkis um þetta, úr því að farið er að draga fram ýmislegt, sem gjörst hefir á flokksfundum, skal jeg geta þess, að einn maður úr flokksstjórninni, sem er þó tamara að læðast en stökkva, hjelt mjög mergjaða ræðu yfir okkur, af því að hann hafði heyrt, að við ætluðum ekki að láta kúgast, heldur að við ætluðum fremur að segjast úr flokknum. Vildi þessi háttv. herra láta reka mig og víst háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) einnig.

Þá sagði háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) frá aðalefni þess, sem gjörst hafði á opinberum fundi hjer, en ekki fullkomlega rjett, og mun það stafa af minnisbresti.

Þegar jeg var kominn til Khafnar, fæ jeg þá frjett þann 6. júní, að »Ingólfur« hafi nú birt tilboðið. Ef það hefir nú verið skoðun heitrofanna, er tillögurnar birtu, að tilboðið hafi verið hættulegt landinu og heill landsins hafi verið teflt í voða, þá hefðu þeir átt að birta tillögurnar fyrr, mánuði eða svo, og væri þá hjer um stórkostlega vanrækslu að ræða frá þeirra hálfu. En birtingin, fyrst þá, var alt of sein, því að hún gat ekki afstýrt því, sem jeg hafði ætlað mjer að gjöra. Og til hvers var birtingin þá? Ef þeir hefðu verið vitandi vits, mundu þeir hafa getað hindrað framgang málsins á þenna eina hátt. Og hvað var þá unnið? Jú, þá var stjórnarskráin dauð og öll sú mikla vinna ónýt, sem lögð hefir verið í það mál. Já, og það var líka unnið, að fitjað var upp á nýjum gauragangi, útvegaður pólitískur matarforði handa vissum mönnum, sem deyja mundu pólitískum hordauða, ef ekki hjeldi áfram rifrildið. Auðvitað gátu þeir einnig unnið það með birtingunni, að jeg kæmi tómhentur heim, og ausið þá yfir mig stóryrðum út af því, og hugsast gat það einnig, að sitja hefði orðið við fyrstu kostina.

Yfirleitt mun þagnarrof þessara manna hvervetna hafa mælst illa fyrir, enda munu þeir og hafa slæma samvisku. Það bendir á, að þeir hafi sjálfir haft slæma samvisku fyrir gjörðir sínar, að þeir hafa reynt og reyna enn að klóra yfir þær. Háttv. framsögum. (S. E.) var utanbæjar, þegar birtingin fór fram, en hann hefir lýst yfir því, að hann hafi hvorki birt nje birta látið neitt af tillögunum. Það skoða jeg svo, sem hann vilji á engan hátt bera ábyrgð á birtingunni, og jeg býst við, að hann fari ekki að mótmæla þessari skoðun minni á afstöðu hans til málsins.

Það er ekki nema eðlilegt, að hann vilji afsaka sig, því að einn af okkur þremenningunum, háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), lánaði honum skjalið, daginn sem við komum. Jeg veit ekki, hvort hann hefir haft það svo lengi, að hann hafi haft nægan tíma til að afrita það, en mjer hefir aldrei dottið í hug, að gruna hann um brot á þagnarheiti sínu.

Svo var líka annar þingmaður, sem jeg lánaði skjalið með sama skilorði, að hann afritaði það ekki, nje ljeti afrita eða birta á annan hátt. Það var háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.). Hann hefir líka gefið yfirlýsingu í Ingólfi, um að hann hafi ekki lagt skjalið til, þótt það hins vegar hafi vitaskuld verið birt með vitorði hans og samþykki. Hann finnur þannig ástæðu til að bera þetta af sjer líka, þótt böndin hafi að honum borist fyrir líkur, vill ekki vera aðalmaðurinn, og ekki meira en meðsekur. Honum hefir gjört bæði að sárna og klæja. Hversu mikið sómastrik, sem þessir menn álíta að birtingin hafi verið, og í aðra röndina hjálpráð fyrir landið, reyna þeir þó að klóra yfir það á eftir, og afsaka sig með því, að þeir hafi ekki lagt til afritið af skjalinu. Það er í sjálfu sjer ekki nema ánægjulegt, að þessir menn kunni að blygðast sín fyrir það atferli, sem hjer er um ræða, og satt að segja hefir hvergi orkað tvímælis, nema vestur á Kvennabrekku í Dölum. Annars hafa allir lokið upp einum munni um það, að slíkt atferli sje gjörsamlega óforsvaranlegt. (Skúli Thoroddsen: Þetta er ósatt, og ekki til neins að vera að bera slíkt fram). Það telja allir heiðarlegir menn, sem óhlutdrægt hugsa, óafsakanlegt, nema mennirnir sjálfir, sem að birtingunni voru valdir, og hefi jeg engan heyrt mæla henni bót, nema þá.

Utanlands er það álitið beinlínis hörmulegt, að það skuli geta komið fyrir, að fulltrúar þjóðarinnar gjöri sig seka í slíku athæfi. Það er ekki svo að skilja, að jeg vilji gjöra þessum mönnum neitt mein, en mjer finst það vera skylda þingsins, að lýsa hreinni vanþóknun sinni á því, að slíkir menn skuli geta átt sæti á löggjafarþingi Íslendinga, er gjörist sekir um rof á drengskaparheiti sínu.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) vjek að mjer ónotum fyrir það, að jeg hefi notið stuðnings Heimastjórnarmanna til að koma fram stjórnarskrármálinu. Jeg játa, að það sje satt, og það er langt frá því, að jeg fyrirverði mig fyrir það. En jeg get vel skilið, að háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) öfundi mig af fylgi Heimastjórnannanna, því að hann hefir áður klætt sig í biðilsbuxur, og leitað ásjár hjá þeim, en enga áheyrn fengið. Þannig fjekk hann hryggbrot hjá þeim á þinginu 1911. En mismunurinn þá og nú er ekki annar en sá, að þá var enginn stefnumunur innan flokksins, en nú, þegar sá munur er á stefnum, að annar parturinn hefir komið málunum fram, að óvild og þrátt fyrir mótspyrnu hins hlutans, þá á þetta að vera dauðasynd.

Hitt, sem þingmaðurinn talaði um, að jeg væri genginn í mótflokkinn, er alls ekki rjett, heldur er nokkurs konar samvinnubandalag milli minna stuðningsmanna.

Hann sagði, að það væri »fiction« að jeg hafi verið í Sjálfstæðisflokknum í byrjun þings, og dregur það líklega af því, þegar minni hluti flokksstjórnarinnar ætlaði að reka meiri hlutann í vetur! Þessir menn hafa vítt mig fyrir mínar gjörðir, og það lái jeg þeim ekki en hvað ná víturnar langt? Ekki lengra en það, að ef jeg gengi að því, sem hjer er á boðstólum, að viðrinistillögunni, þá vilja þeir láta mig hlutlausan. Ef jeg hefi unnið níðingsverk gagnvart föðurlandinu, þá hefðu þeir aldrei átt að láta mig hlutlausan. Ef maður ber stóru orðin saman við tillöguna, þá sýnast þau ekki vera neitt alvarlega meint hjá sumum. Það er eins og það sje aðalatriðið fyrir þessa herra, ef þeir gætu hangið í eða utan við einhvern meiri hluta í þinginu.

Háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) var að barma sjer yfir því, að háttv. þingm. N.-Þing. (B. S.) hefði mist bein í þingbyrjun. Jeg get ekki sjeð, að það komi málinu mikið við, en háttv. þingm. N.- Þing. (B. S.) tekur sjálfsagt undir þenna harmagrát með vini sínum, þegar honum vinst tími til. Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að ekki ætti að felast neitt vantraust til stjórnarinnar í tillögunni. Það sannar ennþá betur mitt mál, hvað mikið þeim er um að gjöra að koma sjer vel við einhvern meiri hluta, þrátt fyrir illvirkið, sem þeir segja, að jeg hafi unnið. Þeir sýnast vera fúsir til, að gefa mjer »absolution« (Skúli Thoroddsen: Ef hæstv. ráðherra vildi vera gott barn). Nei, þess krefjast þeir ekki, heldur að eins þess, að geta verið í einhverjum meiri hluta. Þá fór sami háttv. þingm. (Sk. Th.) mörgum orðum um það, að menn mundi reka minni til þess, að hann hefði áður haldið fram sjálfstæðismálum þjóðarinnar. Jeg efast ekki um vilja hans, og hefi nú nýlega sjeð þess nýjan vott, á þgskj. 42, hvernig hann hugsar fyrir landinu sínu. Þar ber hann fram tillögu um, að skora á stjórnina að fara þess á leit við Dani, að þeir leggi okkur til 4–5 fallbyssubáta til að verja landhelgina. Það er sjálfsagt miklu »ökonomiskara«, að láta Dani hafa fyrir þessu, heldur en að við sjeum að braska í því sjálfir, en óneitanlega stendur þessi tillaga nokkuð undarlega af sjer við lagafrumvarp, sem aðrir góðir sjálfstæðismenn hafa borið fram, þar sem þeir ætlast til, að Íslendingar spili upp á eigin spýtur í þessu efni. Það má sannarlega heita »gefundenes Fressen«, að fá Dani til að gjöra þetta fyrir okkur!

Háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) var enn að tala um, að jeg hefði látið ráðherravonir glepja mjer sýn í þessu máli. Í fyrsta lagi stendur þetta nú ekki vel af sjer, því að 19. júní var jeg orðinn ráðherra, svo að vonirnar gátu ekki glapið mjer sýn, og mjer hefði þá verið innan handar að veita mjer 3000 kr. eftirlaun eins og háttv. flutnm. (S. E.) gjörði fyrir sig, ef mjer hefði ekki litist á blikuna. En svo er ekki víst, að jeg sje í þá átt veikari á svellinu, heldur en háttv. þingm. (S. E.) sjálfur, því að það hefir jafnan atvikast svo, þegar ráðherraskifti hafa orðið hjer á þingi, að hann hefir fengið í sig einhverja ónota kippi og ósjálfráða löngun til að opinbera það alt, sem gjörst hefir á flokksfundum og bak við tjöldin. Á þinginu 1909 birti hann í blaði sínu leynilega atkvæðagreiðslu um ráðherraval, og eitthvað svipað má víst segja um framkomu hans við ráðherraskiftin 1911, og 1914 urðu líka ráðherraskifti, en jeg veit ekki, hvort hann hefir fengið nokkra kippi í sig þá. Mjer þykir það ekkert óeðlilegt, þó að honum finnist þetta súrt í broti. Ef jeg væri í hans sporum, mundi jeg líta svo á, sem mjer væri blóðugur órjettur gjör, því að hann hefir tvo stóra kosti til að bera sem ráðherra, í fyrsta lagi takmarkalausa fórnfýsi, eins og sást 1911, þegar hann vildi offra sínu góða blaði og blómlegu atvinnugreinum, og í öðru lagi stórar og göfugar hugsjónir. Jeg lái honum því ekki, þótt honum finnist sjer órjettur gjör með með því, að það hefir ekki atvikast svo, að hann yrði ráðherra. Því að það er áreiðanlegt, ef nokkur hlutur er til, sem rjettlæti löngun manns til að vera ráðherra, þá eru það fagrar hugsjónir, sem maður hefir, eða telur sig hafa vit og vilja til að vinna fyrir.

Þá kem jeg að ræðu háttv. flutnm. (S. E.), en sem betur fer þarf jeg litið að athuga hana, því að háttv. 1. þingm. Rvk. (S. B.) er rækilega búinn að því. Háttv. flutnm. (S. E.) kom með ýmsar líkingar í byrjun ræðu sinnar, en þær sanna varla annað en það, að hann sje meira skáld en stjórnmálamaður. (Sigurður Eggerz: Þær voru ekki eftir mig, heldur eftir Henrik Ibsen). Jæja, jeg ætla ekki að halda því fram, að hann sje skáld, en jeg hefði þá kann ske átt að segja, að hann væri hneigðari fyrir skáldskap heldur en stjórnmál. Hann var að tala um hvílu Procrustesar (grískudósentinn getur leiðrjett mig, ef jeg fer ekki rjett með nafnið). Sú saga á nú best við sjálfan hann, því að hann hefir sjálfur altaf verið að höggva af kröfum sínum, gjöra þær minni og minni, teygja sig og teygja, til þess að komast í meiri hlutann, og hafnar svo í þessu viðrini, sem hann kallar þingsályktunartillögu og borin er hjer fram í deildinnni til að moldast í dag. Hann talaði mikið um spár, og spáði ýmislegu fyrir mjer, en jeg veit ekki, hversu spámannlega hann er vaxinn. En jafnhægt væri að spá fyrir honum. Annað eins hefir komið fyrir og það, að þessi dýrlingsgloria, sem hann vefur sig í, eða er að reyna að vefja sig í, gæti farið af honum. Hann hefir nú síðan í vor vaggað sjer í þeim draumi, að hann sje orðinn nokkurs konar þjóðhetja, og síst vildi jeg verða til þess, að spilla þessum sæta draumi hans. En komið gæti það fyrir, að hann vaknaði einn morgun eftir að hafa dreymt, að hann væri að faðma kóngsdótturina, eins og herra Sólskjöld forðum, og að það væri þá fjósstoðin, sem hann hjeldi utan um.

Hann sagði, að einn títuprjónsstingur til ráðherra ætti ekki að standa í vegi fyrir að verja rjett landsins. Jeg er honum alveg sammála um það, ef um það væri að ræða, að vernda rjett landsins, en óþarfa títuprjónsstingirnir, til hvers sem þeim er beint, eiga engan rjett á sjer, eins og t. d. viðrinistillagan.

Svo var hann með þessa gömlu sögu, um að almenningur gæti ekki áttað sig á því, hvort fyrirvaranum væri fullnægt eða ekki með staðfestingarskilyrðunum frá 19. júní 1915. Jeg hefi áður drepið á, að hver meðalgreindur maður ætti að geta það, en eftir þessar umræður held jeg, að jeg verði á sama máli og hann. Mjer finst ýmislegt, sem hann og hans fylgismenn hafa sagt, benda til þess, að þeir hafi ekki fullkomlega áttað sig á þessu enn þá.

Jeg hefi nú svarað þessum þremur vinum mínum, háttv. þm. V.-Sk. (S. E.), háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og háttv. þm. Dal. (B. J.). Aðrir hafa ekki talað enn þá af þeirra flokki, og læt jeg þetta því nægja, þangað til fleira hefir komið fram.