20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

14. mál, stjórnarskráin

Flutnm. (Sigurður Eggerz):

Jeg verð fyrst að leyfa mjer að víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), er hann hjelt í gær. Hann kallaði tillöguna umbúðapappír. En hann verður að fyrirgefa mjer, þó jeg skilji ekki, hvað hann meinar með því. En hvernig getur hann misskilið tillöguna? Hún er svo ljós, að það er ekki unt að villast á henni. Hún lýsir landið óbundið af öðrum skilyrðum en þeim, sem felast í fyrirvaranum frá 1914. Mjer er sama, þótt háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) kallaði tillöguna viðrini. Það liggur ekki annað á bak við þau orð, en að þingmanninum er sama, hvort landið er bundið eða óbundið. En það er, vægast talað, mjög óviðeigandi, að viðhafa slík orð um tillögu, sem áskilur landinu óskertan rjett. Og það er einmitt það og annað ekki, sem ótvírætt er tekið fram í tillögunni.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu í fyrra: »Það er nægilegt, að þingið tjái landið óbundið af skilyrðum þeim, sem sett eða samþykt hafa verið andstætt vilja þingsins 1913 . . . .«

Tillagan nú felur ekki annað í sjer en það, sem hæstv. ráðherra sagði þá. En það lítur út fyrir, að hann sje nú búinn að gleyma þessum orðum sínum.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) sagði, að fyrirvarinn væri teygjanlegur eins og hrátt skinn. (Sveinn Björnsson: Jeg sagði, að háttv. flutnm. (S. E.) hefði teygt hann eins og hrátt skinn hjer í deildinni). Nei, »prókurators«-sálin í háttv. þingm. (S. B.) getur aldrei þagnað. Má jeg biðja háttv. þingm. að svara mjer upp á þessa spurningu: Hvar er það óskýra í fyrirvaranum. (Sveinn Björnsson: Hefi jeg orðið?). Þingmaðurinn vill ekki svara, en það er víst, að það eru að eins mennirnir með »prókúrators«-sálina, sem geta sjeð nokkuð loðið eða óskýrt í honum. (Sveinn Björnsson: Var það þess vegna, sem háttv. flutnm. (S. E.) fjekk sjer »prókúrator« í Ingólfi?). Þingmaðurinn ætti ekki að vera að ámæla manni, sem ekki er viðstaddur hjer í salnum. Hann veit það vel, að þessi maður, sem hann mintist á, hefir altaf staðið fyrir utan pólitíska flokka og deilur, en nú ofbauð honum svo mjög atferli sumra stjórnmálamanna, að hann taldi skyldu sína að láta til sín heyra. Og rök hans eru svo sterk, að andstæðingarnir hafa ekki getað hrundið þeim. Þeir nota þá aðferð, að kalla rökin sprengikúlur, en sinn eiginn hávaða kalla þeir rök. Þeim finst víst hægast að komast sem lengst með rakaleysinu. (Sveinn Björnson: Heyr á endemi). Heyr á endemi, segir háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.). Hann veit þó, að jeg hefi ekki brugðið öðrum vopnum í þessu máli en rökunum, en aðrir hafa haldið á endemisvopnunum.

Í Ísafold kom sú fregn, að jeg hefði farið í æsingaferð kring um landið. En á fundunum, sem jeg hjelt, ljetu andstæðingar mínir í ljós ánægju sína yfir því, hvað jeg talaði stilt og rólega um málið.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) lagði mikla áherslu á það, að úrskurðurinn um uppburðinn væri undirritaður af Íslandsráðherra einum, en hjer í er engin breyting frá 20. okt. 1913, því þá átti líka að undirrita hann af ráðherra Íslands einum.

Sami háttv. þingm. (S. B.) vill leggja mjög litla áherslu á umræðurnar í ríkisráði 19. júní þ. á., telur þær þýðingarlitlar. En hvers vegna voru þær þá viðhafðar? Heldur háttv. þingm., að þær væru fyrir fram búnar til, ef þær ættu ekki að hafa neina þýðingu? Eða því leggja Danir svo mikla áherslu á umræðumar? Og því krefjast þeir þess, að eiga orð um þetta mál? Ætli þeir sjeu að því sjer til gamans, — að eins til þess? Jeg hjó eftir því hjá sama háttv. þingmanni í ræðu hans í gær, að orð konungs væru töluð án ráðherraábyrgðar. Jeg talaði um þetta í utanför minni við ýmsa stjórnmálamenn, og voru allir þeirrar skoðunar, að orð konungs í ríkisráði um mál eins og þessi væru vitanlega töluð á ráðherraábyrgð, því konungurinn er vitanlega ábyrgðarlaus.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) neitaði því, að konungur hefði gjört orð forsætisráðherrans að sínum orðum. Umræðurnar 19. júní bera það skýrt með sjer, að forsætisráðherrann segir, að danska skoðunin sje sú, að málin verði að bera upp í ríkisráði, þangað til önnur jafntrygg skipun verði gjörð. En Hans hátign konungurinn segir, að Alþingi megi ekki vænta þess, að hann breyti úrskurðinum um uppburðinn í sinni stjórnartíð, nema önnur jafntrygg skipun verði gjörð á uppburðinum. Orð forsætisráðherrans og konungsins um þetta atriði eru að efninu til hin sömu. Þetta hlýtur hv. þingmaðurinn að viðurkenna.

Hæstv. ráðherra segist hafa mótmælt skoðun forsætisráðherrans. Setjum svo, að hann hafi gjört það. En þegar konungur hefir heyrt mótmælin, tekur hann upp orð forsætisráðherrans, en ekki ráðherra Íslands. En með því sýnir konungurinn, að hann felst á skoðun forsætisráðherrans, en ekki á skoðun Íslandsráðherrans.

Hæstv. ráðherra og hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) komast aldrei hjá því, að slakað hefir verið á klónni, með því að segja, að spurningin um ríkisráðsákvæðið sje formlegs fræðilegs eðlis. Þeirra stóru orð hrekja ekki rökin. Þegar dómur sögunnar fellur í þessu máli, þá munu rökin standa óhögguð af glundroðanum, sem nú er þyrlað upp í kringum þau. Andstæðingar mínir hafa blöðin, peninga og höfðingjana sín megin. Móti öllu þessu verðum vjer að berjast.

Jeg heyrði, að það hvein eitthvað í háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), og mjer heyrðist á hljóðinu, að hann væri orðinn viss um, hvar meiri hlutinn væri.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) segir, að vjer leggjum annað í fyrirvarann en ætlast var til. En orðið »áskilur« tekur af öll tvímæli; með fyrirvaranum er áskilið, að konungsúrskurðinum verði breytt sem hverjum öðrum íslenskum konungsúrskurði.

Þá leit sami háttv. þingm. (S. B.) þannig á, að í yfirlýsingu þeirra 24 þingmanna, er mjer var gefin, felist ekki, að þeir væru samþykkir því, er jeg hjelt fram, að konungsvaldið yrði annaðhvort að ganga inn á fyrirvarann með þögninni eða á yfirlýstan hátt. En það stendur berum orðum, að þeir sjeu ánægðir með meðferð mína á málinu, og framkoma mín sje í fullu samræmi við vilja þingsins 1914. En af því leiðir aftur, að þeir hljóta að hafa fallist á meðferð mína á því atriði, sem var verulegasta atriðið í öllu málinu, hvort heimta skyldi viðurkenningu, þegjandi eða á yfirlýstan hátt, af konungsvaldinu. En auk þess er jeg svo heppinn, að hafa enn ótvíræðari yfirlýsingu frá háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), er hann kom fram með á fundi í Sjálfstæðisfjelaginu 30. des., sbr. Ísafold 104. tbl. 31. des. 1914, og með leyfi hæstv. forseta leyfi jeg mjer að lesa hana upp.

Í blaðinu segir meðal annars svo:

»Þar næst talaði Sveinn Björnsson. Lýsti hann yfir því, að ráðherra hefði komið fram í fullkomnu samræmi við þingmeirihlutann, skilning hans á fyrirvara Alþingis. Bar hann að lokum fram svo hljóðandi tillögu:

Fundurinn þakkar ráðherra framkomu hans í ríkisráði 30. nóv. þ. á., telur skoðanir þær, sem hann hjelt fram í umræðunum um stjórnarskrármálið, vera í fullu samræmi við vilja meiri hluta kjósenda fyrir síðustu kosningar og álítur vel farið, að ráðherra flutti svo ljóst við Dani skoðanir Íslendinga á deilumálunum«.

Hvernig sem háttv. 1. þm. Rvk. leitast við að mótmæla þessu nú, þá er það gagnslaust. Eina vörn hans er að segja: Nú er skoðun mín önnur. En hvers vegna? Jú, af því, að skilmáli sá, er af Íslands hálfu var haldið fram 30. nóv. 1914, gat ekki samrímst skilmálum þeim, er þrímenningarnir gátu fengið. Þegar þrímenningarnir komu heim með skilmálana, hjeldu þeir því fram, að þeir fullnægðu ekki fyrirvaranum. Um þetta gaf ráðherra og hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) oss yfirlýsingu sína munnlega. Jeg minnist þess, að rjett á eftir átti jeg tal við góðan heimastjórnarmann, og sagði honum frá því, að þeir segðu sjálfir, að fyrirvaranum væri ekki fullnægt. Og varð honum þá að orði: Það mega þeir ekki segja undir neinum kringumstæðum, því þá er þeirra mál óverjandi. Og seinna fór svo líka, að þrímenningarnir komust á þá skoðun, að fyrirvaranum væri fullnægt, og berja þetta nú blákalt fram.

Það var eitt, sem háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) hjelt fram í ræðu sinni í gær og hæstv. ráðherra undirstrikar með honum, og það er það, að fyrirvarinn hafi verið umboð, og Danir hafi þekt umboðið, og Ísland sje því óbundið, þó að ráðherra hafi gengið út fyrir það, af því Danir hafi sjálfir þekt takmörkun umboðsins. Eftir þessu skilst mjer, að það hefði aldrei verið hættulegt, þó jeg hefði gengið að skilmálunum 30. nóv. 1914, landið var þá ekki heldur bundið af þeim, lengra en umboðið náði.

Þá krafðist háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), að jeg kæmi hreint og beint til dyra með vantraustsyfirlýsingu á ráðherra. Jeg hefi tvívegis sagt, að jeg áliti það tryggast, og mjer sje ánægja að því, hvenær sem væri. En jafnframt tók jeg það fram, að jeg treysti ekki svo á karlmensku þessarar deildar, að hægt væri að koma vantraustsyfirlýsingu fram. Því hefði jeg tekið það næstbesta, að lýsa landið óbundið af öðrum skilyrðum en þeim, sem feldust í fyrirvaranum. Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) sagði í gær, að vjer hefðum átt kost á að koma fram með tillögu, sem hefði náð fram að ganga. Jeg kannast ekki við það, enda kannaðist sami háttv. þingmaður við, að tillagan hefði aldrei verið orðuð, hún hefir þá víst svifið einhvers staðar í loftinu. Háttv. 1. þm. Rvk. sagði eitthvað í þá átt, að ef traustsyfirlýsing hefði fylgt með, þá gætu þeir orðið með tillögunni, en jeg get ekki á nokkurn hátt komið fram með slíka traustsyfirlýsingu, því þá væru mótmæli tillögunnar um leið kraftlaus, því ef þingið lýsti trausti á ráðherranum, þá væri tillagan einskis virði, því einmitt traustsyfirlýsingin væri vottur þess, að þingið liti svo á, að ráðherrann hefði í engu brugðið frá þingviljanum. En hver getur verið svo blindur að trúa því? Annars virðast mjer aðfinslur þær, er komið hafa fram við till. hjer í deildinni, alleinkennilegar; stundum er ráðist á hana fyrir að hún sje of hörð, stundum fyrir að hún sje of lin. Stundum er svo mikið vantraust í henni til stjórnarinnar, að ómögulegt er þess vegna að samþykkja hana, stundum er vantraustið svo lítið í henni, að þess vegna er ómögulegt að samþykkja hana. (Sveinn Björnsson: Ekki fugl nje fiskur). Hvað hræðast háttv. þingmenn? Eru þeir hræddir við títuprjónsstingi í ráðherrann? Eða eru þeir ekki hræddastir við tillöguna af því, að hún er svo sjálfsögð og óbrotin? Dagskráin getur ekki verið borin fram í öðrum tilgangi en þeim, að verja ráðherrann gegn títuprjónastungum. Þingsályktunartillagan er borin fram til varnar landinu, dagskráin er borin fram til varnar ráðherranum. Hvað á nú að meta mest? Landið eða ráðherrann?

Heimastjórnarflokkurinn, sem væntanlega greiðir dagskránni atkvæði, er vitanlega með því, að búa sjer sjálfum til traustsyfirlýsingu. Dýpst, dýpst inni vegur líklega fögnuðurinn yfir traustsyfirlýsingunni eins mikið, eins og þráin til að verja ráðherra gegn títuprjónsstungum. Heimastjórnarmenn láta nú aðra framkvæma það, sem þeir treystust ekki til að framkvæma sjálfir. Höfðingi þeirra hefir spent þrímenningana fyrir stjórnmálavagn sinn, og hallar sjer nú rólega aftur í vagninum og hvíslar: hott, hott, hestarnir mínir. En þrímenningarnir renna lafmóðir heimastjórnargötuna.

Annars öfunda jeg hæstv. ráðherra ekkert af lofi háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.), því ræða hans var öll þannig undirbygð, að hún átti að sýna fram á, hversu haldgóðar skoðanir þeirra heimastjórnarmanna hefðu verið, og gekk öll út á það, að þeirra skoðanir hafi sigrað. Jeg get ekki látið hjá líða, að minnast fám orðum á ræðu háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.). Hann sagði, að jeg hefði brotið þingviljann 30. nóvember 1914. En jeg hefi margsýnt fram á, að jeg bar þingviljann fram. Og eftir að jeg fjekk yfirlýsingu 24 þingmanna um, að svo hefði verið, voru öll tvímæli tekin af um þetta, og get jeg því lýst þessi ummæli dauð og ómerk og vísað þeim heim til sín. Annars hjelt jeg, að þessar skoðanir heimastjórnarmanna væru moldaðar, en síðan hæstv. ráðherra vann afreksverk sitt, hefir sá draugur verið vakinn upp, og mun hann nú fylgja honum fyrst um sinn.

Háttv. þm. Snæf. hefir borið hjer fram rökstudda dagskrá, er gengur út frá því, að fyrirvaranum sje fullnægt. Jeg bjóst við því, að háttv. þm. Snæf. (S. G.) færði rök fyrir því, að sú skoðun hans væri rjett, því að sá, er tekur á sig slíka ábyrgð, verður að sýna fram á, hvað verið sje að gjöra. Ef það er rjett, að fyrirvara Alþingis 1914, sje ekki fullnægt með skilmálunum 19. júní þ. á., þá er hjer verið að slá af kröfum Alþingis 1914, en vjer verðum að krefjast þess, að þær sjeu ekki fyrir borð bornar. Ef því háttv. þm. Snæf. (S. G.) telur fyrirvaranum fullnægt, verður hann að færa rök fyrir því. Þrímenningarnir og ráðherra, sem einn úr þeirra hóp, eiga hjer allir svo náinn hlut að málinu, að eðlilegt er, að þeim sje áhugamál að halda því fram, að kröfum fyrirvarans sje fullnægt. Háttv. þingmaður Snæfellinga hefir ekki átt jafnnáinn hlut og þeir í málinu, og þar sem hann kemur þó fram með rökstudda dagskrá, verður hann að hrekja þau rök, er jeg hefi borið fram. Gjöri hann það, þá tel jeg hann hafa rjett til þess að koma fram með dagskrána, annars ekki. En dagskráin er, eins og jeg tók fram áðan, að eins vörn um ráðherrann, en sú vörn gæti orðið landinu dýr.

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.) þóttist þess fullviss, að fyrirvaranum væri fullnægt. En hann færði engin rök fyrir þessari skoðun sinni, og þar sem hann var einn af þeim þingmönnum, er gáfu mjer yfirlýsingu um það, að framkoma mín í ríkisráði 30. nóv. 1914 hafi verið samkvæm vilja Alþingis 1914, þá þykist jeg nú mega vænta þess af honum, að hann reyni að sýna fram á, að framkoma mín sje önnur nú, því ef framkoma mín er óbreytt, þá er hans breytt. En jeg hefi margsýnt fram á það, að jeg held því sama fram þá og nú, já, meira að segja ákvað stefnu mína með sömu orðum og þá.

Hæstv. ráðherra hjelt langa ræðu, en mest af því, sem hann sagði, kom málinu ekki við. Það er nærri sorglegt, að í jafn alvarlegu máli skuli vera kastað hnútum, í stað þess að koma fram með rök, og það úr ráðherrastólnum. Ráðherrastóllinn ætti ekki að vera vagga hnútukasta, en aðalverkefni hæstv. ráðherra virðist þó vera að varpa hnútum til þingmannanna. Þetta verð jeg að átelja, og jeg er viss þess, að fleiri taka undir með mjer.

Hæstv. ráðherra komst inn á fáein einstök atriði; þar á meðal mintist hann á þingið 1913. Jeg sagði, að það hefði vakað fyrir þinginu 1913, að fá viðurkent, að uppburður sjermála vorra væri sjermál. Fyrir þessu get jeg fært rök, því þingið 1913 bjóst fastlega við því. Áreiðanlega datt engum annað í hug, en að úrskurðurinn um uppburðinn yrði eingöngu gjörður á ábyrgð Íslandsráðherrans eins, án nokkurra umbúða. En ef svo hefði verið frá málinu gengið, þá var fengin viðurkenning fyrir því, að uppburðurinn væri sjermál, sem breyta mætti eftir reglunum um sjermál.

Hæstv. ráðherra var óheppinn, þegar hann fór að vísa í ræðu eftir mig og ætlaði að sanna það gagnstæða. Hann hafði bara gleymt einu litlu »ekki«, sem alveg umhverfði meiningunni; hafði slept því úr sambandinu. Jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa klausu. Hún er svona:

»Jeg get heldur ekki tekið undir ummæli háttv. þm. Strand. (G. Gr.) um ríkisráðsákvæðið. Það er ekki í frumv. að neinu leyti hopað frá því, að það eigi ekki að bera málin þar upp. 11. gr. frumv. segir, að lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skuli bornar þar upp, er konungur ákveður. Við vitum ekki hvar konungur ákveður, að það verði. Jeg sje því ekki neinn hag í þessu«.

Jeg vona nú, að hæstv. ráðherra biðji mig fyrirgefningar á því, að vísa svona skakt til orða minna, og hún er honum fyrir fram veitt.

Í sambandi við þetta vildi jeg enn minnast á eitt atriði, sem mikið hefir verið deilt um. Jeg held fast við það, að þingið hafi ætlast til þess, að konungsvaldið viðurkendi gildi fyrirvarans, annaðhvort þegjandi eða á yfirlýstan hátt, og þannig bar jeg málið fram. 24 þingmenn meiri hlutans voru mjer sammála um þetta atriði, sbr. yfirlýsinguna, og háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) hefir sjerstaklega lýst yfir þessu, sbr. áður tilgreinda tilvitnun í Ísafold, og nú vil jeg, til enn frekari stuðnings, leyfa mjer að lesa ummæli hæstv. ráðherra, er standa um þetta atriði í 104. tbl. Ísafoldar 31. desbr. 1914. Þar segir þáverandi prófessor, núverandi ráðherra, meðal annars, í grein undir hans nafni:

»Það, sem vjer vildum fá skýrt fram, var það, hvort konungur skoðaði málið sjermál eða eigi. En þá yfirlýsingu höfum vjer alls ekki fengið«.

Það, sem vjer sjálfstæðismenn vildum fá skýrt fram, er prófessor Einar Arnórsson ritaði þessa grein, það viljum vjer enn fá skýrt fram. Hæstv. ráðherra heldur nú þveröfugu fram við það, sem prófessorinn staðhæfði á sínum tíma. En allir rjettsýnir menn hljóta nú að sjá, hvort það er ráðherra eða jeg, sem hefir breytt um stefnu í þessu máli.

Hvaða meining hefði verið í allri okkar ríkisráðsbaráttu, ef hún hefði ekki verið sú, að fá það viðurkent, að uppburðurinn væri sjermál. Engin þjóð hefði lagt út í margra ára baráttu með því marki, að lenda í hringdansi þrímenninganna.

Undir greininni, sem jeg nefndi, stendur nafn hæstv. ráðherra, og jeg hlakka til að heyra, hvaða smugu hann ætlar nú að finna, til að smjúga í gegnum þetta.

Hæstv. ráðherra vjek að því í síðustu ræðu sinni, hvað meiri hlutinn hefði ætlað að gjöra, ef hann hefði ekki tekið málið í sínar hendur. Hann sagði, að það hefði víst verið ætlunin, að gefa mjer traustsyfirlýsingu, og samþykkja svo stjórnarskrána að nýju og setja þá ríkisráðsákvæðið inn aftur. Það getur verið, að hæstv. ráðherra hafi ætlað sjer að »treysta« mjer, en jeg hefi þá að minsta kosti ekki heyrt það, fyrr en nú. Hæstv. ráðherra veit það, að engin ákvörðun var um það tekin, og jeg fyrir mitt leyti áleit, að þegar svo verulegur ágreiningur var kominn upp milli konungsvaldsins og vor, þá væri rjettast að gæta allrar varúðar, biða þingsins og taka þar sínar ákvarðanir og leysa það svo upp. En svo gat það líka unnist, að konungsvaldið hefði ef til vill beygt sig. Það vissi, að líkur voru til þess, að sambúðin yrði alls ekki viðunanleg framvegis, ef stórmál vor, sem borin voru fram með fullri sanngirni, hefðu ekki náð að ganga fram. Það er ómögulegt að segja, nema konungsvaldið hefði látið undan, ef vjer hefðum sýnt meiri festu. En ef menn eru svo staðlausir, að þeir þoli ekki við í 2–3 mánuði, þá er ekki von að þeir komi sínu fram.

Það, sem hæstv. ráðherra sagði í þessu sambandi um það, að við hefðum ætlað að »svínbeygja« okkur, — ja, það er nú bara eitt af þessum »málblómstrum«, sem við heyrum nú úr ráðherrastóli. (Ráðherra: Það er ágæt íslenska). En við höfum aldrei heyrt slíkt þaðan fyrr. En annars hygg jeg, að hæstv. ráðherra ætti sem minst að tala um þetta orð.

Hann gaf líka í skyn, að mjer hefði verið það mikið áhugamál, að sitja á þessum stóli áfram, en það er langt frá því, að svo sje, hvort sem hann trúir mjer eða ekki. (Ráðherra: Jeg nefndi það aldrei). Annars er það furðulegt, þegar hæstv. ráðherra er að tala um það, að við sjálfstæðismenn viljum klína okkur utan í hann. Það eru einhver djörfustu orð, sem jeg hefi heyrt. Það hefði verið eitt af því óþægilegasta, sem fyrir okkur gat komið, að þurfa að fylgja slíkum manni. Og enn merkilegra er þetta, þegar litið er til þess, að hann hefir einmitt verið að leita sjer að samastað sjálfur hjer á þingi, og ekki fundið. Fyrst gjörir hann kosningabandalag við Heimastjórnarflokkinn, og veit jeg ekki, hvort hann hefir verið rekinn þaðan eða ekki. Svo hefir hann verið sjer í flokki með nokkra menn — auk þess, sem hann var nú áður að semja við okkur — og loks hefir hann leitað inngöngu í Bændaflokkinn, en ekki fengið, eins og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir áður tekið fram. Hann virðist því nú í rauninni vera vegalaus. Maðurinn hefir með öðrum orðum svo stutta pólitíska fætur, að hann getur ekki hreyft sig, ef Heimastjórnarflokkurinn segir, að hann megi það ekki, og ekki einu sinni staðið á sínum eigin fótum. Hann verður því að tala gætilega við þá, sem þola hann, annars getur hann búist við því, að verða rekinn strax í stað.