20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

14. mál, stjórnarskráin

Benedikt Sveinsson:

Af því að jeg hefi nokkuð sjerstaka afstöðu til þessa máls, þykir mjer hlýða, að gjöra nokkura grein fyrir atkvæði mínu.

Þó að jeg sje, að ýmsu leyti, samþykkur flokksmönnum mínum, sem talað hafa í þessu máli, þá leit jeg, eins og kunnugt er, öðrum augum á þingsályktunartill. eða fyrirvarann svo nefnda á Alþingi í fyrra en flestir eða allir hv. deildarmenn.

Mjer fanst fyrirvarinn óhæfur af tveimur höfuðástæðum.

Önnur var sú, að hann var óskýr að framsetningu, hin, að jeg óttaðist, að hann mundi ekki ná tilgangi sínum, því að annaðhvort mundi konungur virða hann vettugi og staðfesta stjórnarskrána, eða, ef hann tæki hann til greina, þá mundi standa á staðfestingunni. Þetta hvorttveggja held jeg að hafi gengið eftir.

Fyrra atriðið, að fyrirvarinn sje illa saminn og óskilmerkilegur, sem er alls ótilhlýðilegt um svo mikilvægt skjal, hygg jeg, að orki ekki tvímælis, þó að smiðir hans vildu ekki kannast við það í fyrra. Það sýnir og staðfestir alt, sem fram hefir komið í málinu síðan, að fyrirvarinn er ekki svo glögglega orðaður, sem skyldi. Strax á ríkisráðsfundinum 30. nóv. í fyrra, er hæstv. fyrv. ráðherra (S. E.) lagði fyrirvarann fyrir konung, og skýrði frá tilgangi Alþingis með honum, gjörðust þau firn, að konungur vjefengdi, að ráðherrann legði rjettan skilning í fyrirvarann, eða skýrði sjer rjett frá tilætlan þingsins með honum. Jeg er ekki að segja, að þau orð konungs hafi verið á rökum bygð, en jeg bendi á þetta til þess að sýna, hversu fljótt það varð áþreifanlegt, að veila var í formi fyrirvarans.

Allir vita, hvað á hefir gengið síðan út af því, hvernig ætti að skilja fyrirvarann, og hvað í honum væri fólgið. Deilan um það hefir ekki einungis verið milli heimastjórnarmanna og sjálfstæðismanna, heldur einnig meðal sjálfstæðismanna sjálfra. Utanstefnur hafa dunið á hvað eftir annað, stjórnarskifti, blaðaskammir með afbrigðum, og þrætur á þingmálafundum — alt út af því, hvað »fólgist« hafi í fyrirvaranum. Og nú í gær og í dag eru sömu mennirnir að þrætast um fyrirvarann hjer í þingdeildinni, sem í fyrra töldu alt gott og blessað, skýrt og skorinort í þessum fyrirvara sínum. Alt þetta sýnir svo gjörla, sem verða má, hvernig þessum mönnum hefir tekist handbragðið í fyrra sumar.

Það er síður en svo, að mjer sje það gleðiefni, að það hefir á sannast, að jeg hafði rjett fyrir mjer í þessu efni í fyrra. Það er ekkert gleðiefni, að þinginu skyldi verða svo sorglega mislagðar höndur í jafnábyrgðarmiklu máli og þessi tillaga var. Höfundar fyrirvarans skeltu skolleyrunum við því, sem honum var rökvíslega til foráttu fundið í fyrra, en nú er svo komið, að frumsmiður hans og aðalhöfundur stendur fremstur í flokki að vjefengja þann skilning, sem hann sjálfur lagði í hann í vetur.

Þrátt fyrir gallana á orðalagi og framsetningu frumvarpsins, sem komið hefir mörgu og miklu illu af stað, en engu góðu, þá verður því þó ekki neitað, að í honum fólst sjerstök og ákveðin merking, ef nokkurt vit átti yfir höfuð að vera í honum. Það viðurkendi jeg einnig í fyrra, »eitt ærlegt orð« eða setning væri þó í honum, þar sem það er berum orðum tekið fram, að Alþingi »áskilur, að konungsúrskurður sá, sem boðaður var í fyrrnefndu opnu brjefi, verði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður, enda geti konungur breytt honum á ábyrgð Íslandsráðherra eins, án nokkurrar íhlutunar dansks löggjafarvalds eða danskra stjórnarvalda«.

Þetta er tvímælalaus setning, að minsta kosti er hún var skýrð af háttv. höf. og samþykkjendum fyrirvarans.

Jeg er í engum vafa um það, að fyrrverandi ráðherra (S. E.) hjelt rjettilega fram kjarna fyrirvarans í ríkisráði 30. nóv. 1914. Fyrir þessu er nú og fengin full vissa, þar sem allir þeir þingmenn, sem greiddu fyrirvaranum atkvæði og sjálfir hafa þá hlotið að gjöra sjer grein fyrir því, hvað í honum fælist, gáfu fyrrv. ráðherra (S. E.) yfirlýsing um, að þeir sjeu að öllu samþykkir flutningi hans á vilja þingsins í þessu efni fyrir konungi. Þar með höfðu margnefnd orð og skýringar ráðherrans um þetta í ríkisráði fengið skýlausa viðurkenningu þingmeirihlutans. Eftir þá yfirlýsingu sá jeg ekki ástæðu til að vjefengja, að slíka merkingu hefðu fylgismenn fyrirvarans lagt í hann frá upphafi, enda máttu þeir gjörst vita um vilja sinn og tilætlan. Þegar svo var komið, gat jeg því einnig lýst yfir hinu sama um skýringar ráðherra fyrir konungi, enda ritaði jeg ekki undir yfirlýsinguna, fyrr en viðurkennig allra fylgismanna fyrirvarans var fengin.

Það var að eins eitt atriði í málsgrein þeirri, sem jeg las áðan, er orkað gat tvímælis. Þetta, að þingið áskilur, að fyrirvarinn »verði skoðaður« o. s. frv. Á þetta benti jeg einnig í fyrra og spurði þá, hver það væri, sem þingið áskildi, að skoðaði fyrirvarann svo sem þar var greint, þingið sjálft eða konungurinn. Þessu svaraði framsögumaður þá, núverandi ráðherra, að um það þyrfti ekki í grafgötur að fara; þarna væri auðvitað átt við konungsvaldið. Þann skilning hafði hann þá, og hann var einn þeirra trúu og hollu stuðningsmanna fyrrverandi ráðherra, sem skrifuðu undir, að hann hefði flutt málið alveg rjett og í samræmi við þingviljann fyrir konungi 30. nóv. f. á.

Nú er annað orðið uppi á teningnum. Ýmsir af fylgismönnum fyrirvarans hafa hreint og beint haft endaskifti á fyrri yfirlýsingum sínum. Nú hefir hæstv. ráðherra borið málið upp eins og staðið hefði í fyrirvaranum:

»Þingið áskilur, að væntanlegur konungsúrskurður verði ekki skoðaður sem íslenskur konungsúrskurður«.

Öll framkoma hæstv. ráðherra, síðan hann fór utan í fyrra skiftið, væri í samræmi við slíkan fyrirvara. Eða hvar er viðurkenning konungs fyrir því, að hann skoði úrskurðinn sem hvern annan íslenskan konungsúrskurð, eins og Alþingi áskildi?

Því hefir verið haldið fram, að konungur hafi samþykt þá skoðun með þögninni. En það er ekki einu sinni svo, að hann gjöri það. Og þó að það hefði ef til vill mátt nægja, að konungur hefði þagað, þá hefði hitt verið fullkomnara, að hann hefði beinlínis lýst yfir þeirri skoðun sinni á málinu, sem þingið áskildi. Sú var og tilætlun flutningsmanna fyrirvarans í fyrra, því að í nefndaráliti meiri hl. í stjórnarskrármálinu, en þar var hæstv. núverandi ráðherra skrifari og framsögum., standa þessi orð:

»Jafnframt telur meiri hl. æskilegt, til frekari tryggingar, að í væntanlegum konungsúrskurði verði skírskotað til þingsályktunartill. á þgskj. 438 (þ. e. fyrirvarinn), ef hún verður samþykt«.

Svona rík áhersla er þá lögð á það, að fyrirvarinn verði viðurkendur, að æskilegt er talið, að skírskotað verði til hans í konungsúrskurðinum. Jeg þarf ekki að taka það fram, að það hefir ekki verið gjört. Konungur hefir ekki heldur viðurkent fyrirvarann beinlínis á annan hátt. Og hann hefir ekki heldur gjört það óbeinlínis með þögninni.

Alt, sem fram hefir komið, bendir til þess, að konungsúrskurðurinn er ekki skoðaður eins og aðrir íslenskir konungsúrskurðir. Til þess að koma honum fram þarf Íslandsráðherra að semja og makka um undirbúning hans við forsætisráðherra Dana og dönsku stjórnina. Og það er ekki þar með nóg, heldur ber forsætisráðherrann skilmálana undir formenn allra stjórnmálaflokka Ríkisþingsins og fær samþykki þeirra — sem allir voru hæstánægðir — áður en málið náði fram að ganga í ríkisráði. Þegar þangað kemur, tekur forsætisráðherra til máls og hlutdeilir málið eins og hvert annað danskt mál og setur ýmisleg skilyrði, eins og hann hafi heimild til þess, jafnvel þótt hann hafi lýst yfir því 20. okt. 1913, að hann mundi á engan hátt skifta sjer af íslenskum sjermálum. Að vísu vitnar hæstv. ráðherra þá í fyrirvarann og kveðst halda fram skoðunum hans, og gat nú ekki minna verið. Það var tæplega hægt að búast við því, að hann færi að lýsa því berum orðum yfir, að hann fjelli frá fyrirvaranum. En það sjest hvergi, að hann gjöri það að skilyrði fyrir staðfestingu stjórnarskrárinnar, að fyrirvaranum verði fullnægt.

Konungur tekur síðan til máls, og það er svo langt frá því, að hann fallist á fyrirvarann, að hann tekur einmitt upp höfuðskilyrði forsætisráðherrans sem skilyrði fyrir staðfesting sinni; segir og, að full vissa sje fengin fyrir því, að menn sjeu sammála um það, að málin skuli borin upp í ríkisráðinu. Hann skírskotar jafnframt til þess, er hann hafi áður sagt í ríkisráðinu um vilja sinn, viðvíkjandi uppburði málanna, og með þeim orðum skírskotar hann jafnframt til röksemda sinna um eftirlitið, eins og þeir háttv. flutnm. (S. E.) og háttv. þm. Dal. (B. J.) hafa tekið fram, þar sem konungur tekur upp orð forsætisráðherrans, og í sambandi við fyrri umræður hans í málinu, þá verður það auðsjeð, að hann veitir engum ádrátt um, að nokkur breyting verði gjörð á þessari skipan, fyrr en annað jafntrygt fyrirkomulag komi í staðinn. Þetta skilyrði, sem konungur setur þarna, er jafnvel verra en skilyrðið, sem sett var 20. okt. 1913. Í því var ekkert ákvæði þess efnis, að jafntrygt skipulag yrði á gjört og nú er, heldur var breyting ríkisráðsákvæðisins bundin því einu skilyrði, að Alþingi og Ríkisþing samþyktu sambandslög, er einhverja breytingu gjörðu á fyrirkomulaginu.

Það má segja margt fleira um þetta efni, en það virðist ástæðulaust að vera að taka það upp aftur, sem háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) hefir þegar tekið það fram. En alt virðist benda í þá átt, að áskilnaði þingsins um það, að hinn væntanlegi konungsúrskurður verði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður, hefir ekki verið fullnægt. Hæstv. ráðherra var fremstur í flokki þeirra manna, er átöldu Hannes Hafstein fyrir það, að hafa ekki andmælt orðum forsætisráðherrans á ríkisráðsfundinum 1913, en nú á hann engu síður ámæli skilið sjálfur, þar sem hann hefir ekki andmælt orðum konungs 19. júní síðastl., er fara í sömu átt og orð forsætisráðherrans. Það var skylda hans að fá framgengt þingviljanum og aftra því, að konungsvaldið setti einhver þau skilyrði, er færu í bág við hann. En hæstv. ráðherra gengur orðalaust að skilyrði konungs. Það er ekki því að fagna, að konungur gangi þegjandi að íslensku skilyrðunum, heldur er það Íslandsráðherra, sem geldur dönsku skilyrðunum þegjandi samþykki. Það er því engin furða þótt Danir sjeu nú hróðugir út af úrslitunum, og blöð þeirra, svo sem stjórnarblaðið Politiken, fagni því, að ríkisráðsfundurinn 19. júní hafi orðið Dönum hinn æskilegasti.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni í gær, að vjer, sem hefðum skýrt ummælin í ríkisráðinu og haldið fram öðrum skilningi á þeim en hann, værum að berjast fyrir rjetti Dana. Slík orð hafa áður heyrst, en þau verða ekki rjettari fyrir því. Þau eru ekki annað en máttlaust hálmstrá, sem vondur málstaður er að reyna að halda sjer dauðahaldi í, en kemur að engu gagni. Jeg hygg, að það mundi reynast veill rjettargrundvöllur, að taka svo hverri yfirsjón stjórnar eða þings, sem alt væri gott og blessað og enginn skaði hefði skeð. Jeg lít svo á, að það sje miklu affarasælla að þora að horfast í augu við sannleikann, en að láta blindast svo, að menn segi, að alt sje með feldu, þótt aflaga fari, — til þess að hafa einhvern ímyndaðan rjettargrundvöll. Það er alveg hið sama og strúturinn gjörir, þegar hann er staddur í lífsháska, stingur höfðinu niður í sandinn í þeirri trú, að enginn sjái hann þá. En hann er engu öruggari fyrir því, þótt hann haldi það sjálfur í svip.

Hæstv. ráðh. sagði, að vjer fögnuðum yfir slíkum fregnum, er útlend blöð teldu Dani hafa leikið á Íslendinga í þessu máli. Það er síður en svo. Þótt jeg sje nú andstæðingur hæstv. ráðh., þá hefði jeg miklu fremur kosið, að hann hefði gjört það, sem rjett var, og jeg hefði frjett, að hann hefði unnið sjer og þjóð sinni sæmd, en ekki ósæmd. Hins vegar get jeg skilið það, að honum muni leiðast, að blöðin skuli prenta útlendar frjettir af því, hvernig hann hefir í pottinn búið. En meðan prentfrelsi er viðurkent hjer á landi, þá getur hann ekki krafist þess, að blöðin birti ekki frjettir frá útlöndum, jafnvel þótt honum kæmi það betur sjálfum, að þjóðin fengi ekki að vita, hvað gjörst hefir, eða hvernig aðrar þjóðir líta á framkomu hans síðastliðna mánuði. Hann sagði, að illviljaðir útlendingar í vorn garð mundu síðar meir byggja á þeim skoðunum, er vjer andstæðingar hans höfum haldið fram. En hæstv. ráðh. verður að gæta þess, að málið er ekki enn þá á enda kljáð. Tilætlun vor er einmitt sú, að setja undir lekann og fyrirbyggja það, að hægt verði að halda því fram, að látið hefði verið af skilyrðum Alþingis. Þess vegna hefir verið borin fram þingsályktunartillaga sú, er nú er til umræðu, og þingið getur enn þá bjargað málinu, ef það skortir ekki dugnað og einurð.

Hæstv. ráðh. hjelt því fram, að vjer hefðum staðhæft það hjer á árunum, að landsrjettindin hefði verið steindrepin árið 1903. Það er að vísu rjett, að vjer landvarnarmenn töldum upptöku ríkisráðsákvæðisins skerðing landsrjettinda, og vöruðum við því í tíma, og hæstv. ráðh. fylti þá þennan flokk og skrifaði blaðagrein í þá átt. Síðar meir fann hann þá smugu, að þingið hefði ekki haft heimild til þess, er það gjörði 1903, og væri það því ógilt, að því leyti, er til rjettarafsals kæmi. Jeg hefi reynt, að klóra í bakkann með honum síðan, og jeg býst meira að segja við því, þrátt fyrir öll þau rjettarspjöll, sem gjörð eru, að frelsisþrá þjóðarinnar verði ekki kæfð svo, að þjóðin reyni ekki framvegis að klóra í bakkann og ná aftur rjetti sínum. En það verður auðvitað því torveldara, sem fleiri steinar eru lagðir í götuna.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni í gær, að enginn ágreiningur hefði verið um það, að málin skyldu borin upp í ríkisráði. Hið sama sagði hann á ríkisráðsfundinum 19. júní síðastl. Það er að vísu rjett, að á síðasta Alþingi var eigi »vakinn andblástur« gegn því, að málin yrðu borin upp í ríkisráðinu að sinni, en það er síður en svo, að sú þögn í það sinn hefði átt að gefa hæstv. ráðherra ástæðu til þess, að vera að leggja sjerstaka áherslu á það, og taka það sjerstaklega fram á ríkisráðsfundinum. Auðvitað væri öll deilan um ríkisráðsákvæðið hjegóminn einber, ef tilætlunin með henni hefði ekki verið sú ein, að ná málunum út úr ríkisráðinu. Það væri meiri fáfræðin í stjórnmálasögu síðari ára, að halda öðru fram. Það hefir einmitt um langan aldur verið talið eitt af aðalatriðunum í stjórnmáladeilu vorri, að fá sjermál vor út úr ríkisráði Dana. Íslendingar hafa ekki viljað viðurkenna, að Danir hefðu nokkurn rjett til afskifta eða eftirlits með sjermálum vorum. Enda kæmi það, eins og háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir tekið fram, í bág við viðurkenningu Dana sjálfra í stöðulögunum og stjórnarskránni, er segir, að í öllum þeim málum, er samkvæmt stöðulögunum sjeu sjermál Íslands, hafi landið löggjöf sína og stjórn út af fyrir sig. Þetta er svo bert, að það gegnir furðu, að heyra menn halda öðru eins fram og því, að tilætlunin hafi ekki verið að losa sjermál vor úr ríkisráði Dana, jafnvel þótt það hafi ekki endilega átt að gjöra á næstu árum. En til hvers viljum vjer einir hafa vald á þessu máli með konungi, ef vjer ætlum aldrei að neyta þess valds? Þá væri alt vort strit um þetta mál ekkert annað en fálm út í loftið, vjer værum þá að leika oss að málinu eins og barnaglingri. Allir stjórnmálamenn hafa litið á þessa kröfu til skamms tíma sem aðalkröfuna í sjálfstæðismálinu. Fyrir því eru til ótal órækar sannanir, og þarf þar engra vitna við. Og það þarf ekki annað en líta í erlend tímarit, til þess að sjá, að svo hafa útlendingar líka litið á. Þeir hafa skoðað þrætu vora við Dani síðustu árin svo, að hún færi einmitt í þá átt, að ná málunum út úr ríkisráði. Jeg hefi t. d. nýfengið eitt eintak af tímariti því, er Íslandsfreunde gefa út, og hefi það nú hjer við höndina, þar sem svona er litið á málið. Útlendingar geta ekki gjört sjer í hugarlund, að þetta sje ekki annað en leikur út í loftið, sem ekkert liggi á bak við. En þegar litið er á þenna grundvöll, þá verður það enn fráleitara, hvernig hæstv. ráðherra hefir farið að. Það verður því að álítast afaróheppileg framkoma af hæstv. ráðherra, að gefa forsætisráðherra Dana tækifæri til þess, að taka upp þau orð, að þetta sje »formel teoretiskur« steingjörfingur, sem aldrei eigi að lífga við. Og hæstv. ráðherra fellst á, að þessi ummæli sjeu rjett. Hann virðist nú vera farinn að beita sjer fyrir ýmsar gamlar, alþektar skoðanir málsvara Dana, t. d. að oss sje það betra, að sjermál vor sjeu borin upp í ríkisráðinu. T. d. hjelt dr. Valtýr Guðmundsson o. fl. því fram, meðan barist var fyrir »Valtýskunni«, að það væri Íslendingum betra, að mál vor væru borin upp í ríkisráðinu, því að þá gætum vjer haft eftirlit með því, að Danir gengju ekki á sjermálasvæði vort í löggjöf sinni! Jeg hjelt, satt að segja, að hæstv. ráðherra væri ofvel að sjer til þess, að taka upp slíkar rökvillur. Jeg held, að tryggingin yrði fremur lítil, þótt ráðherra Íslands sæti tvisvar á ári á ríkisráðsfundi. Danir mundu jafnvel hafa vit á því, að nota einhvern annan tíma en þann, er ráðherra vor væri í Höfn, til þess að koma fram slíkum málum, ef þeir óttuðust, að viðurvist ráðherra Íslands yrði þeim Þrándur í Götu. Þetta er því fremur bágborin röksemd.

Til þess, að ríkisráðsseta íslensks ráðherra ætti að geta komið að nokkru haldi í þessu efni, þá yrði ráðherrann að sitja á hverjum ríkisráðsfundi og vera búsettur í Danmörku, en jeg veit ekki, hvort menn eru svo áfjáðir orðnir í að taka upp aftur »Hafnarstjórnarstefnuna«.

Hæstv. ráðherra sagði að vjer gætum »ekki losnað við, að Danir hafi aðra skoðun á einhverju atriði en vjer«. Satt er það, en þetta kemur ekkert því við, sem hjer er um að ræða. Þingið áskildi, að konungsvaldið legði sama skilning í ákveðið atriði, sem þingið hefði sjálft lagt, og átti heimtingu á, að því skilyrði væri fullnægt, eða þá að málið strandaði að öðrum kosti.

Háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) fór mörgum orðum um þetta mál frá sínu sjónarmiði, og leit hann, sem við mátti búast, nokkuð öðruvísi á það en háttv. þm. V.-Sk. (S. E.). Hann fór mörgum lofsyrðum um framkomu hæstv. ráðherra í þessu máli. Mjer duttu í hug orðin: »Sæt ertu tunga« o. s. frv., að svo muni hæstv. ráðherra hafa þótt þessi orð hins gamla andstæðings síns 2. þm. Rvk. (J. M.). Annars skal jeg ekki lá háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.), þótt hann fari nú lofsyrðum um hæstv. ráðherra. Að vísu var hann um tíma einna beiskastur í garð Hannesar Hafsteins fyrir það, hve hrapallega hann hefði farið að 20. okt. 1913, og gjörði mestar atlögur að honum fyrir seinustu kosningar, en því meiri hlýtur gleðin að hafa verið í þeim herbúðum yfir því, að fá hæstv. ráðherra aftur í hópinn. Og jeg get ekki annað en játað það, að það er von, að háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sje ánægður yfir því, hve giftusamlega honum hefir nú tekist að koma sínum málum fram. Hann hafði tapað við kosningamar 1914, fyrir framkomu sína í ríkisráði 20. okt. 1913, mikið fyrir afskifti núverandi ráðherra af málunum. En síðan hefir hann komið ár sinni svo vel fyrir borð, að hann hefir fengið máli sínu framgengt á sama hátt og hann vildi. 1913. Æfintýri gjörast mörg hjá þjóð vorri. Nú hefir líka gjörst það æfintýri, að fyrv. ráðherra Hannes Hafstein hefir kosið einmitt þann mann úr liði voru, er best hafði gengið fram í því að steypa honum af stóli, og látið hann undirskrifa stjórnarskrána á sama grundvelli og tilætlunin var 1913. Það er því síður en svo, að þakkir háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) væru nokkuð óeðlilegar.

Hv. 2. þm. Rvk. (J. M.) tók vægt á fleiru en hæstvirtum ráðherra. Mjer virtist hann óþarflega mjúkur í garð konungsvaldsins. Hann sagði, að »ekki hefði með nokkurri sanngirni verið hægt að vænta minni mótspyrnu af hálfu konungs en að hann breytti ekki úrskurðinum um sína stjórnartíð«. En hverjar eru þessar tilslakanir? Lögbirtingablaðið sýnir, hve aðdáanlegar þær eru. Þær munu þá, eftir skilningi háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.), vera fólgnar í því, að konungur ákveður ekki berum orðum vilja sinn um, hvort breytt verði úrskurðinum, nema um það skeið, sem hans lífdagar endast. En satt að segja, virðist þetta nokkurn veginn leiða af sjálfu sjer. Sanni nær virðist að kveða svo að orði, að háttv. þingmanni þótti tillaga sú, er hjer liggur fyrir nokkuð lingjörð, og gat þess til, að hún mundi svo úr garði gjörð, til þess að »veiða« menn. Jeg lái honum ekki, þótt honum finnist tillagan nokkuð væg, því að jeg er sammála honum í því, en hitt er allmerkilegt tímanna tákn, að Alþingi skuli vera svo skipað, þegar um það er að ræða, að varðveita rjettindi landsins, að þá þurfi að setja upp »veiðibrellur«,til þess að fá menn til að gæta landsrjettindanna. (Sigurður Sigurðsson: Og stoppar ekki til). Nei, þeir eru orðnir svo eldstyggir og og varir um sig!

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.) drap á það, að hv. fyrverandi ráðherra (S. E.) hefði gengið lengra í kröfum sínum en þingið ætlaðist til. Þessi háttv. þm. (B. H.) hefir sjálfur vottað hv. þáverandi ráðherra (S. E.) traust sitt og þakklæti fyrir aðgjörðir hans í ríkisráðinu, og kemur því undarlega við að heyra slík orð úr þeirri átt. Það væri gaman að heyra skýringar hans á því, að hverju leyti fyrrverandi ráðherra hafi gengið lengra en til var ætlast. Mjer vitanlega hefir hann verið samur sem áður og ekki gengið lengra í vor en áður. Mjer skilst þetta að eins vera undanfærsla hins háttv. þm. N.-Múl. (B. H.), til þess að geta snúist frá fylgi við fyrrverandi ráðherra, sem hann hafði fylgt svo dyggilega áður.

Hæstv. ráðherra ljet sem sig furðaði á því, að tillagan væri ekki harðari. Ekki þarf hann að láta svo af því, að hann hafi ekki þekt tillöguna, því að hún var honum kunn fyrir þing. En ekki mundi hafa staðið á mjer að greiða atkvæði með beinni vantraustsyfirlýsingu á hann.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) sagði, að ef tillagan væri ætluð til þess, að halda uppi rjettindum landsins, þá hefði átt að skjóta á leynifundi, til þess að ræða hana með hæstv. ráðherra. En, eins og tekið hefir verið fram, er tillagan ekki vantraust á ráðherra, heldur að eins öryggisráðstöfun og því einatt jafn aðgengileg og sjálfsögð. Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) vildi á flokksfundi, að hnýtt væri aftan við tillöguna traustsyfirlýsingu til hæstv. ráðherra, en á það fjellust menn ekki, sem ekki var von, og sannarlega nógu langt gengið til samkomulags, að láta það liggja á milli á hluta, hvernig ráðherrann hafði hagað sjer í málinu.

Þegar háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) tók að mæla bót þeim atgjörðum hæstv. ráðherra, er lutu að staðfestingu stjórnarskrárinnar, fór honum líkt og hæstv. ráðherra sjálfum, að hann gekk götu þeirra manna, sem honum höfðu áður verið andvígir í málinu, (þ. e. Heimastjórnarmanna), og sama hefði þá mátt teljast til gildis kostum þeim, sem H. Hafstein voru boðnir 1913. Þá var því haldið fram, eins og nú, að umræðurnar í ríkisráðinu sönnuðu ekkert, og að ekkert væri athugavert við birtinguna til Dana. Jeg sje því ekki, að aðstaða þessara herra sje að nokkru leyti frábrugðin aðstöðu Hannesar Hafsteins áður.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) lagði helst áhersluna á það, að auglýsingin til Dana væri fallin burtu, og að hún væri þungamiðjan. En eins og háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) hefir tekið fram, getur auglýsingin til Dana, út af fyrir sig, ekki svift Íslendinga nokkrum rjetti; hjer er ekki komið undir því hvernig birt er, heldur hvað birt er, það er að segja, um hvað orðið hefir samkomulag í ríkisráðinu milli ráðherra Íslands og hinna aðiljanna. Hvort sem það er birt eða auglýst eftir á, á einn eða annan hátt, skiftir minstu máli. En þessu hafa margir ruglað öllu saman og reynt að láta svo, sem stórmikill rjettarmunur væri á því, hvort athafnir ríkisráðs væri auglýstar með konungsbrjefi eða »opinberri birting«. En þetta er að sjálfsögðu óverulegt aukaatriði. Hitt eitt skiftir máli hvað legið hefir til grundvallar, hvað aðiljar hafa orðið ásáttir um á fundinum.

Hæstv. ráðherra gjörði gys að háttv. þm. Dal. (B. J.) fyrir það, að hann mintist á dómstólinn í Haag, og nefndi hann procurator Dana. Slík aðköst eru tæplega sæmandi ráðherra, þótt menn taki nú að venjast ýmsu miður fögru orðavali úr ráðherrastól. Það samir illa að gjöra gys að þeim mönnum, sem gjöra vilja veg þjóðarinnar sem mestan, svo að ágreiningsatriði hennar við Dani nái að jafnast fyrir opinberum alþjóðadómi. Þeir menn ættu heldur lof skilið en hróp og háðsyrði. En slíkir hnýflar einkenna hæstv. ráðherra, og er slíkt allóhöfðinglegt. Honum er títt að senda slík spörð frá sjer, sem þó detta niður á miðri leið.

Þá hjelt hæstv. ráðherra harða refsiræðu út af leynitilboðinu. Jeg ætla ekki að fara langt út í það hjegómamál. En það verð jeg að segja, að mjer þykja koma úr hörðustu átt aðdróttanir um uppljóstur samninga, er sá maður fyllist nú svo af vandlætingu, sem svo mikinn hlut átti að því, að ljósta upp »bræðingsskilmálunum« 1912. En annars er það sannast að segja, að þótt Ísafold og einstakir menn fjargviðrist út af birtingu tilboðsins, þá er það mest út í loftið og til þess að þyrla ryki í augu manna, svo að þeir athugi ekki málið sjálft og hina herfilegu frammistöðu þrímenninganna. Það gat ekki verið tilgangur þessara manna, þrímenninganna, að ferðaskýrslu þeirra yrði lengi haldið leyndri, enda sögðu þeir sjálfir, að ekkert yrði gjört í málinu fyrr en skilmálarnir væri birtir. Ekki stóð heldur á loforðum í Ísafold um, að bráðlega yrði skýrslan birt, »innan fárra daga«, »í næstu viku« o. s. frv. Það gat engum dottið í hug, að sá væri tilgangurinn, að binda hendur manna þangað til eftir dúk og disk. Vjer samþyktum, að málið skyldi liggja í þagnargildi »að svo stöddu«, eins og bæði »Ísafold« og 1. þm. Húnv. (G. H.) hafa orðið að kannast við, en það var komið í alt aðrar skorður; sumir þrímenninganna höfðu sýnt tilboðið hinum og þessum og »agiteruðu« fyrir því leynt og ljóst, gjörðu bandalag við andstæðingana og stofnuðu til stjórnarskifta með þeirra tilstyrk, þá þótti oss lítil skylda liggja á oss að halda því leyndu, — hitt miklu ríkari skylda, að láta þjóðina vita, hvað verið væri að brugga henni.

Hæstv. ráðherra sagði, að birting tilboðsins hefði mælst illa fyrir. Jeg veit ekki, hvort hæstv. ráðherra, ef öðru vísi hefði staðið á, mundi hafa gjört svo mikið úr því, þótt einir þrír þingmálafundir hefðu verið teygðir til að finna að »birtingunni«. Jeg held ekki, að svo mikið sje leggjandi upp úr því, að 17 menn af 40 á Svignaskarði og 20 af 100 á Akranesi fengjust til að vita birtinguna. Þetta örlitla minnihlutabrot fjekst þó að eins með þeim hætti, að saman lögðu Heimastjórnarmenn og tilboðsmenn eða Ísafoldarliðar, og hygg jeg ekki hæstv. ráðherra munu verða langlífan af þeim liðstyrk.

Jeg ætla óþarfa að rekja gerr meðferð málsins; hún er þjóðkunn orðin. Jeg ímynda mjer, að afleiðingarnar verði ríkar, og munu þær nægilega minna á atburðina í framtíðinni.

Jeg fyrir mitt leyti tel tillöguna, eins og hún liggur fyrir, alt of lina í hlutfalli við þann tilverknað, sem hjer er um að ræða, og hefði jeg ekki talið nægilega langt farið fyrr en svo var komið, að ráðherra hefði verið lýstur í vantraust, honum stefnt fyrir landsdóm og þar sakfeldur. En tillagan er stýluð eftir hugarfari þingmanna; kjarkinn mundi flesta þorrið hafa til meiri stórræða. Sannast hjer hið fornkveðna:

Lítilla sanda,

lítilla sæva,

lítil eru geð guma.

En þótt tillagan sje lin, mun jeg greiða henni atkvæði mitt, því að betra er að veifa röngu trje en öngu. Þar á móti verð jeg að telja hina svo kölluðu »rökstuddu« dagskrá til hneykslis þinginu, en verðugs sóma þeim, sem flytja hana og ljá henni stuðning.