20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

14. mál, stjórnarskráin

Bjarni Jónsson:

Síðan jeg flutti fyrri ræðu mína hefir margt hrúgast saman, sem full þörf væri að svara, en jeg mun þó sneiða hjá því, sem mest má verða. Flutnm. (S. E.) hefir og svarað mörgu, svo að eigi þarf þar um að bæta, en þó verð jeg að inna til um nokkur atriði. Það er þá fyrst, að mig furðaði á orðum hæstv. ráðherra, er hann sagði, að sjer væri það vonbrigði, hversu mjúklega þessi tillaga er orðuð, og þóttist hafa búist við, að meira óveður mundi koma úr sorta þeim, sem legið hefir á fjöllunum í sumar«, að mjer skildist. Jeg hjelt nú, að hann mundi verða því feginn, hversu vel rættist úr, en hann er auðsjáanlega ofurhugi og óskar þess, að hann fái nú »ærlegt regn og íslenskan storm á Kaldadal«. Jeg mun engu spá um það, hvort hvast muni á honum, eða hvort hann geti nú haldið próf á karlmensku sinni, en það er víst, að þessi tillaga verður því eigi til fyrirstöðu.

Þá heyrði jeg hæstv. ráðherra tala um margdrepin landsrjettindi, og mundi jeg þá eftir, að jeg hafði lesið um það kýmnigrein í Lögrjettu fyrir einu eða tveim árum, og nýlega sá jeg sömu greinina í einu norðanblaðinu, og nú heyri jeg þetta í þriðja sinn af munni hæstv. ráðh. Það verður því naumast sagt, að hann sje mjög frumlegur í þetta sinn. Má vera, að hann hafi eigi stefnt þessu til mín, en blöðin ætluðu mjer það. Jeg nota því tækifærið, til þess að geta um það, að jeg hjelt því aldrei fram, að vjer hefðum leitt dönsku gröndvallarlögin í lög hjer á landi með ríkisráðsákvæðinu 1903. Jeg hafði að því leyti eins konar sjerstöðu meðal landvarnarmanna. Og þó að þessu sje haldið fram í því blaði, sem jeg stýrði þá, er það eigi af mínum toga spunnið, og verða menn þar að gæta þess, að annar maður var stjórnmálaritstjóri.

Þá sný jeg mjer að hv. 1. þm. Rvk. (S. B.). Skrafi hans um umbúðapappír inn hefir þegar verið svarað, og get jeg því leitt það hjá mjer. En þar sem hann hjelt því fram, að orðalag stjórnarskrárinnar, »þar sem konungur ákveður« væri eftir tillögu háttv. þingm. N.- Ísf. (Sk. Th.), þá er það ekki rjett. Hans tillaga í Þjóðviljanum var sú, að svo skyldi orða: »í ríkisráði eða annarsstaðar«. Á þinginu 1913 var jeg í stjórnarskrárnefndinni af hendi sjálfstæðismanna. En er nefndarmenn hreyfðu tillögu þeirri úr Þjóðviljanum, þá sagði jeg, að jeg mundi kljúfa nefndina, ef »ríkisráðið« væri nefnt í stjórnarskrártillögum nefndarinnar. Þá stakk einhver upp á því, að haft væri það orðalag, sem nú er, og kvaðst jeg mundu láta mjer lynda það. Því að mjer var það þegar ljóst, að með því var sannað, að málið væri eingöngu íslenskt mál. Hv. 2. þingm. Rvk. (J. M.) getur borið mjer vitni, um að jeg segi hjer rjett frá. Ræðumaður sagði, að þingið hefði beygt af eða látið undan með þessu orðalagi, en það er ekki rjett. Í þessum orðum liggur það, að málin áttu ekki að vera borin upp í ríkisráðinu. Því að úr því það er gjört íslenskt úrskurðarmál, lagt undir íslenskt úrskurðarvald (þ. e. konung og ráðherra Íslands), þá er þar með útilokað, að úrskurðurinn geti hljóðað upp á ríkisráð Dana, því að íslenskt úrskurðarvald nær eigi til þeirrar stofnunar. En er konungur hafði sagt, að hann vildi hafa málin borin upp í ríkisráðinu, þá varð að koma þar í móti yfirlýsing Alþingis um, að það leyfði það eigi, nema með því skilyrði, að sá úrskurður yrði skoðaður sem hver annar íslenskur konungsúrskurður. Þetta var ein ástæðan til fyrirvarans.

Þar sem háttv. þm. (S. B.) hjelt því fram, að orðalag fyrirvarans væri óljóst, þá er það ástæðulaust. Hann er svo skýrt orðaður, sem þörf er á, og getur enginn komist í kringum hann. Í fyrra var og engin deila um, hvernig ætti að skilja hann, og í yfirlýsingu 24 þingm. í vetur var ljóslega sagt, hver sá skilningur væri. Áskilið var, að úrskurður þessi væri »skoðaður, sem hver annar Íslenskur konungsúrskurður«, það er, yrði til á sama hátt og yrði breytt á sama hátt.

En verður honum nú breytt án tilhlutunar Dana? Ræðumaður sagði, að honum mætti breyta, hve nær sem væri. En það var leitt, að honum skyldi þá gleymast að svara því, sem jeg spurði í fyrri ræðu minni. Hvernig ætla þeir, þrímenningarnir, að hrekja það, ef Danir segja, að sjer hafi verið gefið loforð um, að þessu verði eigi breytt í stjórnartíð þessa konungs? Þeir segja, ráðherra og hans menn, að slíkt loforð hafi konungur og ráðherra ekki gefið, því að konungur mundi geta breytt, ef hann vildi. Þetta sýnir, að þeir hafa eigi viljað gefa loforðið, en þeir ættu þá og að geta sannað, að Danir hefðu eigi gilda ástæðu til þess að herma upp á þá loforðið. Því að ef þeir gjöra það, þá mundi svo fara, að þá er konungur vildi breyta úrskurðinum, mundi forsætisráðherra Dana rísa móti því og segja: »Þessu megið þjer eigi breyta, herra, því að 19. júní 1915 lofuðuð þjer oss Dönum því, að breyta eigi til, meðan þjer rjeðum ríkjum«. Þetta ættu þeir því, ráðherra og hans menn, að útiloka, og illa tókst sú fyndni, að fara að kalla mig talsmann Dana, þótt jeg gjörði þeim upp orðin. Þeim mátti þykja vænt um, að jeg kom fram með þessa spurningu, svo að þeir fengi ástæðu til að hrekja hana. En hví gjöra þeir það ekki?

Þá sagði háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), að tillagan væri að eins umbúðir utan um vantraust á ráðherra. Þetta er næsta undarlegt. Þeir, sem bera tillöguna fram, segja, að hún sje einungis öryggistillaga, sem orðalag hennar sýnir. En ráðherra og vildarvinir hans, vilja endilega gjöra úr henni vantrauststillögu, þótt enginn hafi mælt fyrir henni á þá leið.

Ósjálfrátt flýgur mjer gamalt máltæki í hug, að »illur á sjer ills von«, og búast þrímenningarnir við, að alt verði sjer að áfellisdómi, jafnvel þótt tekið sje fram, að það eigi ekki að vera það. Jeg sje enga ástæðu til, að ráðherra greiði ekki atkvæði með þessari tillögu, úr því flutningsmenn segja hana öryggistillögu og annað eigi.

Umræðurnar um tillögu þessa hafa verið allsnarpar og skömmóttar með köflum, og hefir enginn gengið frekar fram í því en ráðherra, og hefir hann verið ósár á að láta það fljúga, sem honum hefir dottið í hug, þótt það væru árásir á menn, en þeir hafa þá svarað honum á sama hátt. En jeg hafði hugsað mjer, að umræðurnar um þessa till. yrðu hógværar og röksamlegar, því að tillagan var borin fram í því skyni, að hjer kæmi skýrt fram í deildinni, hvort þingmenn vildu víkja frá fyrirvara þingsins 1914, eða þeir vildu sanna, að þetta mál sje alt á valdi vor Íslendinga.

Hitt annað, sem menn þykjast þurfa að segja, kerskni, hnýfilyrði og ávítur, ætti helst ekki að koma hjer fram. Til þess er nógur tími á eldhúsdaginn. Hefðu menn hagað umræðum svo, þá hefði betur náðst tilgangur tillögunnar, sá tilgangur, að fá glögg skil á vilja þingdeildarinnar. Jeg gjörði mjer far um það í fyrri ræðu minni, að hnýfla engan, svo eigi ber jeg ábyrgð á flækjum þeim, sem fram hafa komið, og það er fastur ásetningur minn, að fara eins að nú, og reyna að tína saman úr umræðunum það, sem sagt hefir verið um málefnið, um vilja þingsins. Málið var upp tekið til þess, að fá að vita hann.

Jeg mun því lítt svara aðkasti að sjálfum mjer, en verð þó að minnast á tvent í ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) af því kyni. Hann og ráðherra hafa báðir vitnað til orða minna í fyrra á þinginu. En þau eiga hjer eigi við, því þar sagði jeg, að það væri markleysa, ef konungur segði eitthvað án ábyrgðar. Hjer er ekki því að heilsa; ráðherra Íslands ber ábyrgð á orðum konungs. Þetta eru því rökvillur hjá þeim. Eitt var það í ræðu þessa þingmanns (S. B.), sem jeg lýsi ósatt og getsakir. Þar á jeg við brigsl hans um, að við hefðum viljað tefja fyrir stjórnarskrármálinu. (Sveinn Björnsson: Það sagði jeg ekki). Það hefi jeg þó skrifað mjer til minnis. En hafi þingmaðurinn ekki sagt það, þá þarf eigi að mótmæla því. (Sveinn Björnsson: Jeg sagði, að þeir hefðu ætlað sjer að gjöra það). Nú, enginn ætlar sjer að gjöra hlut, nema hann vilji hann, og skal því yfirlýsing mín standa, að það sje ósatt mál, sem þingmaðurinn fer með. Svara jeg því eigi frekar.

Þá kem jeg að síðustu ræðu ráðherra. Jeg hafði nú búist við, að hann mundi leiða menn í allan sannleika og sýna, hvernig vjer mættum ónýta þessi rök fyrir Dönum, sem jeg benti á í fyrri ræðu minni, að þeir mundu flytja fram. En þessu var ekki að heilsa. Hann gjörði deildinni þann greiða, að fræða hana um, að Haag væri á Hollandi, og er það þakkarverð viðleitni á, að fræða menn um torvelda hluti, en það kemur ekki mikið þessu máli við. Þó reyndi hann að svara einu atriði í minni ræðu. Jeg hafði gjört Dönum þau orð upp, að meðferð málsins í Ríkisráðinu sýndi, að það væri eigi eingöngu íslenskt mál, en svar ráðherra var þetta: »Okkur varðar ekkert um, hvað Danir segja«. Okkur hlýtur þó að varða um, hvað þeir geta sagt með rjettu um vor mál. En hjer var einmitt spurt um, hvort Dönum væri heimilaður íhlutunarrjettur með staðfestingarskilmálunum um það, hvort og hve nær megi breyta þessum íslenska konungsúrskurði, hvort þeir mundu þá eigi segja: »Þessum úrskurði verður eigi breytt, nema með sömu aðferð, sem hann var gjörður, þ. e. í samvinnu við yfirráðherra Dana«. Við því vildi jeg fá svar, en það fór heldur en ekki út í hött hjá ráðherra.

Þá sagði ráðherra, að viðurkenning Dana hefði eigi verið heimtuð, og mun það rjett vera. En heimtað var, að öll meðferð konungsvaldsins á málinu bæri með sjer, að það viðurkendi, að hjer væri íslenskur konungsúrskurður, sem hver annar. Til þess nú að konungur gæti sýnt það í verkinu, þá varð hann að sjá um, að ráðherra Dana sletti sjer eigi fram í þetta mál. Þetta gat konungur auðvitað, þar sem hann er forseti ríkisráðsins og átti auðvitað að hafa aðstoð Íslandsráðherra til þess. Að minsta kosti þess Íslandsráðherra, sem nú er, því hann hefir ritað mikla bók um rjettarstöðu Íslands, og niðurlag og niðurstaða þeirrar bókar hljóðar svo:

»Í nokkrum málum landsins er konungur einvaldur, en í öðrum málum ræður hann ásamt Alþingi, og um engin mál landsins hafa dönsk stjórnarvöld nokkurn lögformlegan íhlutanarrjett«.

Ráðherra hafði rjett eftir mjer, að þingið hefði ætlað sjer að sigra í þessu máli. Það var staðráðið í að sigra, og til þess var málið upp tekið, svo sem alkunnugt er.

Jeg get vel skilið, að ráðherra og hans menn haldi því fram, að tillagan sje óþörf af því, að vjer höfum sigrað, telji oss hafa sannað og fengið viðurkenningu konungsvaldsins fyrir því, að málið sje og verði á voru valdi. Þessa yfirlýsingu vildi jeg heyra af munni hæstv. ráðherra, en hitt veit jeg eigi, hvers vegna hann fer að spyrja um, hvernig vjer höfum ætlað að sigra í vetur, því það kemur þessum umræðum ekki við. En þó þótti mjer kasta tólfunum, er hann sagði, að Íslendingar hefðu svínbeygt sig, ef konungur hefði neitað um staðfestingu á stjórnarskránni. Jeg mótmæli því, að það sje að svínbeygja sig, eða yfir höfuð að hopa frá kröfum sínum eða rjetti, þótt konungsvaldið bryti á oss almennar þingræðisreglur fyrir óheimil afskifti annars ríkis. Það er og eigi annað en spádómur, að svo hefði farið. Ef flokkur sá, sem rjeð málinu í fyrra, hefði haldið sjer fast við gjörðir fyrrv. ráðherra, og ef engir hefðu látið bilbug á sjer finna, þá er jeg sannfærður um, að konungur hefði gjört að vilja þingsins. En hefði þó svo ólíklega farið, að hann hefði ekki gjört það, þá hefði sjest, hvort þingmenn voru varbúnir við að láta skriða til skarar. Er ekki víst, að sú hefði orðið raunin á, sem ráðherra gjörði ráð fyrir í sinni ræðu, að þá hefði brostið áræði. Ef ráðherra hefði gengist fyrir því, í staðinn fyrir þetta staðfestingargutl sitt, þá get jeg fullvissað hann um, að jeg hefði eigi orðið lakari sporgöngumaður þar en hann forgöngumaður.

Ráðherra gat þess til, að skilningur vor sjálfstæðismanna, væri bygður á fljótfærni. En gæti hann vel að sjálfum sjer og sinni æfisögu, hvort eigi mundi meiri ástæða til að óttast fljótfærni hjá honum í þessu staðfestingarmáli.

Einn hlutur er sá í þessum umræðum, sem jeg get eigi skilið, hvernig kominn er inn í þær. Það eru ummæli hæstv. ráðherra og háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) um birtinguna á hinum illræmdu leyniboðum, sem þeir fluttu til landsins. Af henni getur þó rjettindum þessa lands engin hætta stafað, og hvers vegna vilja þeir þá blanda henni inn í deiluna um þessa tillögu? Jeg ætla mjer ekki að svara því máli hjer sem mætti, en verð þó að geta þess, að illmæli þeirra um »drengskaparheitrof« er gripið úr lausu lofti. Vjer höfum ekkert loforð gefið, hvað þá drengskaparloforð. í fundarbók flokksstjórnar stendur að eins þetta:

»Sveinn Björnsson gat þess í upphafi, að tillögur þær, sem þeir fjelagar hefðu meðferðis, mætti eigi sýna öðrum en þingmönnum og flokksstjórnarmönnum, og gjörði þá kröfu til fundarmanna, að þeim væri haldið leyndum. Var það samþykt«.

Meira stendur ekki í fundarbókinni, en skrafað var utan um það, áður en atkvæði voru greidd. Háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að ekkert væri á móti að leyna því að svo stöddu, og við hinir sögðum, að engin þörf væri á að birta það, ef enginn hjeldi því fram. Þetta var því aldrei neitt loforð, hvað þá drengskaparloforð, heldur einungis fundarsamþykt, og hún bundin ákveðnu skilyrði, að tilboðinu yrði eigi haldið fram. Hverjum dettur í hug, að vjer höfum heitið að geyma stjórnmálalaunungar mótstöðumanna, sem vjer töldum varhugaverðar og hættulegar landi og lýð? Um sjálfan mig er það að segja, að þessi fundarsamþykt var engin kvöð á mjer, því hæstv. ráðherra sýndi mjer þetta skjal, áður en hún var gjörð og gaf mjer nægan tíma til þess að kynna mjer það, og setti mjer engin skilyrði. Hitt kann rjett að vera hjá hæstv. ráðherra, að vjer hefðum átt að birta þau fyrr. En vjer biðum, af því vjer vildum lofa ráðherra að gjöra það sjálfum, enda sögðust þeir, að minsta kosti háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), vera að reyna að fá leyfi til þess. (Sveinn Björnsson: Rjett). Vjer fórum eftir því og vildum ekki taka frá honum tækifærið.

Jeg hefi þá sýnt fram á það, að heitrofabrigslin eru í lausu lofti. Jeg býst við, að jeg fái síðar tækifæri til þess, að svara þessum áburði þeirra, sem vert er, en læt mjer nú nægja þetta, til þess að eigi standi í þingtíðindunum mótmælalaus fáryrði þeirra um mig og fjelaga mína.

Þá kem jeg að ræðu háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.). Hann lýsti yfir því, fyrir hönd heimastjórnarmanna, að þeir hefðu litið alt öðrum augum á fyrirvarann en vjer sjálfstæðismenn. Eftir orðum hans að dæma, eru heimastjórnarmenn ekki bærir að dæma um það, hvort fullnægt sje þeim fyrirvara, sem vjer orðuðum og samþyktum. Býst jeg því við, að þeir greiði ekki atkvæði um þessa till., sem nú er verið að ræða. Hann sagði, að hjer væri engu stefnt í voða, og bygði þar á tvennu, að konungur hefði talað hjer fyrir eigin reikning, og væri því orð hans ekki skuldbindandi, og að ekkert væri hættulegt, nema vjer gjörðum það á stjórnskipulegan hátt. En þessar varnir hans eru ónýtar, því að fyrra atriðið stríðir beinlínis á móti hugmyndum manna um þingbundna konungsstjórn, en hið síðara verður að engu, af því að alt, sem Alþingi gjörir, er gjört á stjórnskipulegan hátt, þögnin, hvað þá annað.

Enn sagði hann, að sig furðaði á tillögunni, því að annaðhvort hefði ráðh. gjört rjett eða rangt. Það er að vísu satt, að ráðh. hefir annaðhvort gjört rjett eða rangt, en það kemur ekki þessu máli við. Þingmaðurinn átti að hugsa sjer, að annaðhvort er rjett að samþykkja till., eða það er rangt, og þá mundi hann skjótt hafa sjeð, að öllum ber að samþykkja öryggistill., sem gjörir engum mein eða skapraun, en getur bjargað dýrmætum málstað þjóðarinnar.

Þá kem jeg nú að aðalefni þessarar ræðu minnar, að draga saman þræðina í umræðum þessum, sem hafa farið um of á víð og dreif. Er þá fyrst að líta á till., hverja þýðingu hún hefir. Öllum er nú vitanlegt, að menn greinir á um það, hvort fyrirvara þingsins 1914 hafi verið fullnægt með staðfestingarskilmálunum 19. júní, og jeg er einn þeirra manna, sem telja skjal það, er ráðherra kom með um staðfestinguna, ófullnægjandi. Hefði nú þessi tillaga eigi komið fram, þá hefði orðið að líta svo á, að Alþingi hefði með þögninni samþykt ummælin á ríkisráðsfundinum 19. júní, hvað sem í þeim fælist. Þess vegna var alveg óhjákvæmilegt að bera fram till., til þess að sjeð yrði, hvort eigi væri óbreyttur vilji þingsins frá fyrra ári, að krefjast viðurkenningar konungsvaldsins fyrir því, að ákvæðið um það, hvar íslensk mál sjeu borin upp fyrir konungi, sje eingöngu íslenskt mál og engum háð, nema Íslendingum og konungi þeirra. — Nú bið jeg menn að muna það, að alt, sem jeg gjöri og segi í þessu máli er bygt á því, að Ísland og Danmörk eru tvö fullvalda konungsríki, sem hafa ekkert sameiginlegt, nema konunginn. Þess vegna vil jeg ekkert samþykkja og engar viðurkenningar gefa, beinar eða óbeinar, sem gjöri samband þessara tveggja konungsríkja þrengra. Jeg þarf eigi að sanna það, að sambandinu sje svo háttað, sem jeg sagði, því að vjer vitum það allir, Íslendingar, og vil jeg sjá þann mann, sem þorir að neita því. En benda skal jeg á góðar heimildir eigi að síður: Ríkisrjettindi Íslands, skjöl og skrif eftir Jón Þorkelsson og Einar Arnórsson, Rvík 1908; Die norwegisch-schweedische Union und ihr Bestehen und ihre Lösung af Dr. Anathon Aal og Dr. Nikolaus Gjelsvik, Breslau 1912, bls. 21 neðanmáls; Rjettarstaða Íslands eftir Einar Arnórsson, Reykjavík 1913 og kver eftir sjálfan mig, Aldahvörf, brot úr sögu Íslands 1814–1914, Reykjavík 1914, þar sem jeg hefi tínt saman nokkur skjöl viðvíkjandi Kílarfriðnum fyrir 100 árum, um hinn mikla þjóðstuld, sem þar var framinn. Þar hefi jeg fært fullar sönnur á það, að sambandið geti eigi verið þrengra en jeg nefndi.

Tillagan er nú fram komin, til þess að gjöra þennan málstað vorn vafalausan, til þess að staðfestingarummælin um stjórnarskrána í ríkisráði Dana geti eigi veikt hann nje gjört hann vafasaman. Til þess nú að sýna, hversu heimskulegt er að kalla þetta viðrinistillögu, eins og sumir háttv, þm. hafa leyft sjer, skal jeg benda á, hvern veg fræðimenn líta á viljayfirlýsing þinga.

Í Rjettarstöðu Íslands, bls. 374, segir höf.: »Svo mikið er óhætt að segja, að þingið mótmælti því glögt og greinilega, að það vildi lögleiða grundvallarlögin«, og leggur með rjettu áherslu á viljann. Nú vil jeg benda mönnum á Das Völkerrecht, eftir Franz von Liszt, Berlin 1911, § 20, II, þar sem hann talar um viljayfirlýsingar. Þar segir á bls. 158: »Viljayfirlýsingar frá einstökum ríkisborgurum, jafnvel þótt þeir sjeu í embætti, þurfa staðfestingar ríkisvaldsins eftir á, ef þær eiga að skuldbinda ríkið, eða veita því rjettindi«. Felist nú í ríkisráðsumræðunum loforð frá Íslands hálfu eða skuldbindingar, þá bindur það oss eigi, þótt ráðherra hafi samþykt, nema því að eins, að viðurkenning þingsins komi á eftir. En alþjóðarjetturinn segir (sbr. Liszt § 20, II. 3. bls. 159) að þögnin geti og verið viðurkenning: »Þögn þjóðar er því að eins sama sem bein viðurkenning á rjettarbreytingu, að þegjandi ríkið hafi fengið lögformlega tilkynningu um breytinguna, og þar með tækifæri, til að hefja mótmæli gegn henni«. Nú hefir oss verið birt á löglegan hátt, hvað fram fór, þegar stjórnarskráin var staðfest. Og þótt eigi sje þar talað um rjettarbreytingu þá verðum vjer að athuga, hvort hún er þar eigi. Og eftir öllum atvikum var því glæfralegt að þegja við.

Jeg hefi þá gjört mönnum ljóst, hvernig bestu fræðimenn í þessum greinum líta á viljayfirlýsingar þinga, og ættu menn að láta sjer segjast, þar sem jeg hefi eigi leitt þá í það öngþveiti, að þurfa að trúa mjer, heldur viðurkendum vísindamönnum og viðurkendum alþjóðalögum. Er mjer nú torskilið, að menn gjöri sig svo djarfa, að kalla tillöguna viðrini hjer eftir. Og þess vænti jeg, að hver maður sjái, að rjett er, jafnvel þeim mönnum, að samþykkja hana, sem telja hana óþarfa, því engum getur hún gjört neinn skaða. En þótt þeir þykist vitrir menn, þá vita þeir sig þó naumast óskeikula, og þá er varlegra fyrir þá að eiga eigi á hættu, að samviskan nagi þá síðan fyrir þjóðglötunarverk.

En ef meira má lítið vit, og dagskráin verður samþykt, þá verð jeg þó, málsins vegna, að bjarga svo, sem best verður, og neyða háttv. mótstöðumenn mína til þess, að láta vilja sinn skýrlega í ljós. Vjer fylgismenn tillögunnar látum með henni og atkvæðum vorum í ljós, að óbreyttur sje vilji vor frá því í fyrra, sá, að krefjast viðurkenningar konungsvaldsins á því, að Íslendingar eigi einir að ráða því með konungi sínum, hvar mál þeirra sje upp borin fyrir konungi. Mjer skildist á ræðu háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.), sem talaði fyrir hönd heimastjórnarmanna, að óbreyttur væri vilji þess flokks, sem í fyrra, að mál þetta væri eingöngu íslenskt mál, og að enginn skyldi eiga þar atkvæði um, nema Íslendingar og konungur þeirra. Nú spyr jeg, hvort þetta sje eigi rjettur skilningur (samþykki frá heimastjórnarmönnum). Það gleður mig, að jeg hefi skilið þetta rjett. Jeg hugsa mjer nú og, að mótstaða ráðherra og hans manna gegn tillögunni sje á því bygð, að þeir telji fyrirvara Alþingis 1914 fullnægt og að konungsvaldið, sem þekti vel skilyrði þingsins, hafi með staðfestingu stjórnarskrárinnar fullnægt því skilyrði, og þar með sje fengin viðurkenning þess, að málið sje alt á voru valdi og konungs vors (Sveinn Björnsson: Alveg rjett) og að nú sje þá fengin sú sönnun, sem þingið vildi ná, með því að flytja málið frá löggjafarvaldi Íslands og leggja það undir úrskurðarvald Íslands. Mjer þykir vænt um, að jeg hefi skilið þá rjett. Því að nú hefi jeg sýnt fram á og fengið viðurkent, að vilji þingmanna er óbreyttur, og að þess vegna eru fram komin skýr mótmæli gegn því í staðfestingarumræðunum, sem er ekki samkvæmt fyrirvara Alþingis 1914, með þeim skilningi, sem jeg hefi lýst oftar en einu sinni í þessari ræðu minni. — Þessi viljayfirlýsing hefir fullan kraft að alþjóðalögum, þótt formið sje eigi öðruvísi en þetta. Því að slík viljayfirlýsing er eigi bundin við neitt ákveðið form, þótt venjan sje, að hún sje skrifleg (sbr. Liszt, Das Völkerrecht, § 20, II. 4, bls. 159).

Jeg hefi nú gjört það, sem gjört verður, til þess að snúa úr böndum dönsku ráðherranna þann sigur, sem þeir þóttust hafa unnið, mala fide þó. Þykist jeg vita, að menn kunni mjer þakkir fyrir og hafi nú ljósari hugmynd um það en áður, að tillagan hlaut að koma fram, og að umræður þessar hafa einmitt orðið til þess, að svo greinileg viljayfirlýsing er fram komin.