20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

14. mál, stjórnarskráin

Ráðherra:

Jeg vildi nú gjarna eigi lengja mjög umræður úr þessu. Síðustu atriðin í ræðu háttv. þm. Dal. (B. J.) glöddu mig mikillega, þar sem hann ályktaði, að hvorttveggja væri gott, hvort sem menn greiddu atkvæði með tillögunni eða dagskránni. (Bjarni Jónsson: Ekki rjett farið með). Hvorttveggja væri bygt á því, að vilja Alþingis yrði eða hefði átt að fullnægja, og ef sú forsenda brysti, þá væri enginn skaði skeður, þótt dagskráin yrði samþykt. Háttv. þm. Dal. (B. J.) greiðir þá væntanlega atkvæði með dagskránni, úr því að hann lítur svona á málið. Athugasemdir háttv. þingmanns um þjóðarrjettinn voru og rjettar í öllum aðalatriðum, en tillagan vor samt óþörf, vegna þess, að þingið var ekki bundið við gjörðir mínar, ef jeg hefði farið út fyrir umboð mitt.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), hjelt áðan langa og háfleyga tölu, um efnishyggju þá, er geisaði í landinu, sannan hreinleik hjartans og annað fleira, sem ekki kom tillögunni við. Enda mun og nokkuð á sama standa í þessu sambandi um, hvað það er, sem veldur ástandinu, hvort það er materialismus eða annað. Jeg varð nú samt hálfhissa á þessari ræðu. Hefi jeg aldrei heyrt sams konar ræðu hjer á þessum stað. Mun svo um fleiri, því að jeg sá, að sumir brostu, en aðrir hristu höfuðið. Þetta má þó ekki skilja svo, sem jeg sje að lasta ræðuna. Hún var efalaust góð í sinni röð, en átti að eins ekki heima hjer. Þeir háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) og háttv. þm. Dal. (B. J.) hafa með ræðum sínum ósannað orð háttv. flutningsm. (S. E.), um það, að ekki sje á allra meðfæri að kynna sjer þjóðarrjett. Þeir hyggja, að allir treysti sjer til þess, að gjöra grein fyrir því málefni, þó að jeg raunar sje á annari skoðun, að minsta kosti um háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.).

Jeg man ekki svo glögt mál hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) um andann og holdið, en víst er um það, að jeg ætla mjer ekki að verða til þess, að krossfesta hans hold, eða deyða hans anda. Hitt er annað mál, hvort hann sjálfur hygst að krossfesta holdið, og skal jeg láta það afskiftalaust. Honum veitti víst ekki af því sjálfum. Hafa það og margir góðir gjört á undan honum, einmitt til þess, að bæta anda sinn.

Fundurinn í Hafnarfirði fól þm. málið, þar eð kjósendur vildu ekki taka afstöðu til þess. Á þetta má líta frá tveimur hliðum. Kjósendur voru sýnilega ekki sannfærðir um, að skoðanir þingmanna sinna væru rjettar, en eru á hinn bóginn tryggir og vinfastir, og vildu því eigi yfirgefa þingmenn sína að svo stöddu. Háttv. 1. þm. þeirra hjelt þar langa tölu, og mun hún hafa átt að forða kjósendum frá öllum misskilningi á málinu. Jeg tel víst, að tala sú hin mikla verði látin á þrykk út ganga. En jeg efast stórlega um, að kjósendur megi verða miklu vitrari þar af, því að ekki skildi jeg mikið þar af, þó að jeg hlýddi á. Víxildæmi háttv. þingmanns var ekki rjett; hann kann sýnilega eigi mun á víxiláskrift og til- boði, og er það hart, að bankastjóri þjóðbanka landsins skuli ruglast á slíku. Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) taldi fyrirvaraleiðina, þá, er farin var 1914, hina verstu. (Björn Kristjánsson: Vitanlega). En hann hefir þá öðlast æðri og betri þekkingu síðan að hann greiddi henni atkvæði. (Björn Kristjánsson: Beygði mig undir flokkinn). Já, þá hefir ráðlag háttv. þingmanns í það skifti verið algjörlega ófyrirgefanlegt, því að það er siðferðislega rangt, að fylgja flokknum þvert ofan í sannfæringu sína. Það er stjórnarskrárbrot, og því lagalega rangt, því að hver þingmaður er samkvæmt stjórnarskránni skyldur til að fylgja sannfæringu sinni og engu öðru. Loks er það pólitískt rangt, því að slíkt ráðlag í stórmáli er siðspillandi og mundi gagnsýkja alla pólitík landsmanna. Og hver veit, nema það hefði haft einhvern árangur, hefði háttv. þingmaður þá beitt sjer fyrir því, að önnur leið yrði farin. En við margir þeim megin álitum fyrirvaraleiðina fullkomlega trygga, og hv. þm. reyndi alls ekki til þess, að sannfæra mig um, að svo væri ekki. Jeg er ekki óvanur því nú orðið að heyra ýmsar fáranlegar kenningar um þetta mál, sbr. blaðið »Ingólf«, 12. og 19. júlí nú í sumar. Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) skrifar þar mergjaðar greinar, með ýmsum nýstárlegum kenningum; meðal annars stendur þar að þrímenningarnir sjeu að breyta stjórnarskránni. (Björn Kristjánsson: Þetta er rangfærsla; það þarf að lesa þetta, án þess að slíta það út úr sambandi). Þetta er alveg rjett hjá mjer, en skoðun eða staðhæfing þm. er vitanlega mesta fjarstæðan, sem fram hefir komið í þessu máli. Þýðingu ákvæðisins er ekki breytt, eða heldur háttv. þingmaður, að það sje breyting á ákvæði stjórnarskrárinnar, því, að konungur ákveði um uppburð málanna, þó að konungur svo ákveði, að þau skuli borin upp í ríkisráði.

Rangt var farið með það af háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), að Sigurður Eggerz hafi mótmælt því, að forsætisráðherra blandaði sjer í málið 30. nóv. 1914, því að fyrrverandi ráðherra Sigurður Eggerz hefir aldrei mótmælt því, að forsætisráðherrann danski blandaði sjer í málið, heldur að eins því, að hann á nokkurn hátt taki að sjer ábyrgð á íslenskum málum, en það datt forsætisráðherra auðvitað ekki í hug að gjöra. Háttv. þingmaður segir, að þetta sje kenning Albertis, sem nú sje verið að samþykkja á þingi, en jeg man nú ekki betur, en að háttv. þm. greiddi þeirri kenningu atkvæði á þinginu 1903. Hv. þingmaður heldur, að konungsúrskurðurinn um uppburð sjermálanna sje undirskrifaður af forsætisráðherra Dana. Þætti mjer gaman að fá frekari skýringu á því. Hygg jeg, að forsætisráðherra myndi ekki vilja bera ábyrgð á þeim úrskurði. Það er mjer með öllu óskiljanlegt, hvernig háttv. þingmaður kemst að þeirri niðurstöðu, að nú eigum við engin sjermál eftir, og megum ekki gjöra ályktun um þau, nema að fá til þess sjerstakt leyfi hjá Dönum. Er þetta svo meinleg fjarstæða, að jeg minnist ekki í fljótu bragði, að hafa heyrt eins frámunalega fráleita staðhæfingu.

Þær skýringar háttv. þm. á málinu að öðru leyti, er hann taldi gullvægar, skal jeg ekki minnast frekar á. Hefir þeim öllum verið svarað, og er því einungis óþörf tímatöf, að fara að eltast nokkuð frekar við þær.

En jeg vil að eins, áður en jeg lýk máli mínu, minnast á það atriði í ræðu háttv. þingmanns, er hann talar um, að Knud Berlin hafi skrifað í dagblaðið »Köbenhavn«, 18. júní þ. á., og látið vel

af samningunum. Ræður háttv. þingmaður þar af, að Berlin hafi hlotið að þekkja nákvæmlega til málsins. Sje svo, sem jeg að vísu tel næsta ólíklegt, þá hlýtur sú þekking hans að hafa stafað frá símskeyti frá »Ingólfi«, eða aðstandendum þess blaðs. Því fór nú reyndar svo fjarri, að Berlin hefði nokkra hugmynd um stjórnarskrána, að hann hafði enga hugmynd um, hvort fáninn fengist, þegar hann skrifaði þessa grein sína í »Köbenhavn«. Og það má háttv. þingmaður vita, að þeir Danir, sem um málið vissu, hafa ekki ljóstað upp neinu um það, hvorki við Berlín nje nokkra aðra óviðkomandi menn, enda hygg jeg þeim alt annan veg farið en þeim mönnum, er birta ljetu hinar fyrirhuguðu umræður í ríkisráðinu, í Ingólfi hjer í vor.

Þá sagði og háttv. þingm. (B. K.), að engar umræður væru á ríkisráðsfundum. Hvað er þá gjört þar. (Björn Kristjánsson: Venjulega ekkert). Einmitt það. Jeg gjöri háttv. þingm. að vita það, hann hefir líklega komið þar. Annars fer því svo fjarri, að ekkert sje talað á ríkisráðsfundum, að það kemur aldrei fyrir, að ekki sje eitthvað talað þar, meira eða minna. Enda hygg jeg, að háttv. þingmaður muni leiðast um það í allan sannleika, ef það ætti einhvern tíma fyrir honum að liggja, að komast í ríkisráðið. Það verður væntanlega, og getur hann þá sannfært sig um þetta.

Enn fremur hjelt háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) þeirri ríkisrjettarkenningu fram, að hvert einasta orð konungs þyrfti að vera talað á ábyrgð einhvers. Þessi regla er of almenn, eins og háttv 1. þm. G.-K. (B. K.) setur hana fram.

Jeg skal taka til dæmis ríkisráðsfundinn 13. júní 1914. Þá var það, að forsætisráðherrann lagði það til, að umboðið yrði tekið af hinum 12 konungkjörnu landsþingsmönnum. Konungur var þar á annari skoðun, og vildi ekki samþykkja uppástungu ráðherra. Heldur nú háttv. þingm. (B. K.), að ráðherra hafi borið ábyrgð á þeim orðum konungs? (Björn Kristjánsson: Í þessu máli ber hann ábyrgð á þeim). Jeg var að sýna fram á það alment, að kenning háttv. þingm. (B. K.) væri röng, svo að hann gætti þess betur, að vera ekki að fara út á þessa hálu braut ríkisrjettarkenninganna, sem hann á jafnerfitt með að fóta sig á. Honum væri gefandi það heilræði, að fást eigi við mál, sem ekki eru hans meðfæri, eins og þetta mál alt er.

Annars voru röksemdir háttv. þm. (B. K.) þess eðlis, að ekki er ástæða til þess að vera að rekja þær allar.

Þá kom háttv. þingm. með víxildæmi sitt, og var það rjett, það sem það náði. Það er auðvitað, að maður játar skuld, ef hann skrifar upp á víxil, jafnvel þó að hann hafi einhvern tíma áður neitað að samþykkja hann. En dæmið á ekki við hjer, því að jeg hefi ekki skrifað undir það, sem þingið 1914 hafði mótmælt, því að vilja Alþingis 1914 er fullnægt með því, sem gjörðist í ríkisráði 19. júní síðastl.

Þá var háttv. þingmaður svo djarfur, að hann sló fram ýmsum staðhæfingum, sem hann gat engar sönnur vitað á, og ómögulegt er jafnvel, að hann hafi trúað sjálfur, að væru rjettar. Hann fullyrðir það, að jeg vilji ekki samþykkja tillögu þá, er hjer liggur fyrir, vegna þess, að jeg hafi skuldbundið mig til þess gagnvart Dönum, að gjöra það eigi. Jeg vil skora á hann, að sanna þessa fullyrðingu sína, og segja heimildir sínar að henni. Takist honum það ekki, þá stendur hann sem opinber ósannindamaður hjer á Alþingi Íslendinga frammi fyrir öllum þingheimi.

Sami háttv. þingm. (B. K.) sagði, að hægt væri að bjarga landinu, ef jeg leyfði fylgismönnum mínum að greiða atkvæði með tillögunni. Jeg get í þessu efni hvorki leyft nje bannað. Jeg veit, að háttv. þingmenn greiða ekki öðruvísi atkvæði en eftir sannfæringu sinni, hvað sem jeg segi. Og það er ósæmileg aðdróttun til dagskrármanna, að þeir fari eftir öðru en sannfæringu sinni.

Jeg vil ekki fara út í neina spádóma um það, hvernig þessari þingsályktunartillögu reiði af hjer eða utan þings. En jeg gæti trúað því, að áður en lyki, þá opnuðust augu manna fyrir því, að þetta tafl, sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) og tillögumenn hafa verið að leika nú í tvo daga, er allóþarft. Menn segja ef til vill, að það sje að nokkru leyti mjer að kenna, hve umræður eru orðnar laugar. En jeg vona, að enginn lái mjer, þótt jeg reyni að bera hönd fyrir höfuð mjer, þegar að mjer er beinst, og ráðist á mig, og jeg jafnvel sakaður um föðurlandssvik. Það eru tillögumenn, sem þjarkinu hafa valdið.

Háttv. þingmaður (B. K.) var að tala um embættismannafylgið, sem alt væri mín megin. Mjer koma þessi orð allkynlega fyrir, þar sem mótstöðumenn mínir sumir eru einmitt embættismenn, og þeir ekki lágt launaðir, eins og t. d. háttv. 1. þingm. G.-K. (B. K.). Því að auðvitað er hann embættismaður, þótt hann sje skipaður af ráðherra, en ekki af konungi. Fleiri dæmi má nefna. Háttv. flutningsm. (S. E.) er embættismaður á 3000 kr. eftirlaunum. Hjer er grískudócentinn og hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) er og embættismaður á háum eftirlaunum. Embættismannafylgið er eigi síður þeirra megin.

Háttv. þingm. Dal. (B. J.) vjek þeirri fyrirspurn að mjer, hvernig jeg ætlaði að útiloka það, að Danir segðu, að við hefðum lofað þeim, að konungsúrskurðinum um uppburð sjermálanna yrði ekki breytt, án þeirra samþykkis.

Hvorki jeg nje háttv. þm. Dal. (B. J.) nje aðrir, geta bannað Dönum að segja eitt eða annað. Annað mál er það, að þeir geta ekki haldið því fram með rjettu, því að slíkt loforð hefir aldrei verið gefið.

Eitt af því marga, sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði, var, að Danir hefðu valið mig fyrir ráðherra. Hvernig ætlar háttv. þingm. að standa við það? Þetta er ein af þessum dæmalausu fjarstæðum, sem háttv. þingm. hættir svo við að koma fram með, og hann getur engin rök fært að. Jeg skora á hann að sanna þessi orð sín. (Skúli Thoroddsen: Dönsku ráðherrarnir hafa gjört það). Ef ráðherraútnefningin væri dönsk stjórnarráðstöfun, þá gæti það færst til sanns vegar, en jeg veit, að hv. þingm. dettur ekki í hug, að svo sje. Þó að jeg sje ekki valinn á Alþingi, þá get jeg frætt háttv. þingmenn um það, að meiri hluti Alþingismanna var því samþykkur, að jeg tæki við embætti.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði ýms orð, sem ekki var vel fallið, að heyrðust hjer í þingsalnum. Hann sagði meðal annars, að konungur hefði beitt valdi sínu ólöglega. Slík ummæli álít jeg skylt að átelja.

Sami háttv. þingm. gekk út frá því, að hjer væri um tvö fullvalda ríki að ræða. Ef svo væri, þá býst jeg við, að þessi margumrædda birting trúnaðarmálanna, er hv. þm. Dal. (B. J.) gjörðist sekur eða meðsekur um, kæmi nokkuð nálægt 81. gr. almennra hegningarlaga.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) var að »citera« einhverja grein eftir mig í Ísafold. Jeg man ekki, hver orð hann hafði eftir mjer — jeg hefi skrifað svo margt um þetta mál — en hafi jeg sagt eitthvað, sem lengra hefir farið en fyrirvarinn, þá gat sú skoðun engin áhrif haft á framkomu mína í ríkisráði, vegna þess, að mjer var, sem ráðherra, skylt að fara að vilja þingsins 1914. Ummæli, hvort sem eru mín eða annara, utan þings gátu engu breytt, og máttu engu breyta í því efni.

Jeg hefi svo ekki fleira að svara að sinni, og vænti þess — tímans vegna — að jeg þurfi ekki að taka oftar til máls en orðið er.