20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2115 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

14. mál, stjórnarskráin

Sveinn Björnsson:

Jeg sje mig knúðan til þess að taka aftur til máls, vegna þess, að ræða mín í gær hefir gefið nokkrum háttv. þm. tilefni til athugasemda. Mörgum athugasemdum hefir þegar verið svarað, og skal jeg reyna að sneiða hjá þeim.

Í gær reyndi jeg að athuga deiluefnin í þessu máli, þau orð fyrirvarans, er mönnum kemur saman um að skoða sem kjarnaatriði fyrirvarans; hvers vegna jeg álíti honum fullnægt og hvers vegna afstaða mín til málsins væri sú, sem hún er.

Því verður ekki mótmælt með rökum, að skoðun Alþingis 1914 hefir verið borin fram á rjettan hátt, eins og tilætlunin var. Konungsúrskurður sá, er út hefir verið gefinn um uppburð málanna fyrir konungi, er til orðinn eins og hver annar konungsúrskurður, með undirskrift Íslandsráðherra eins og án nokkurrar íhlutunar dansks löggjafarvalds. Þetta má telja viðurkent af öllum. Hið eina, sem ekki er bókstaflega viðurkent, er það, hvort nefndum konungsúrskurði verði breytt án íhlutunar danskra stjórnarvalda. Þegar jeg í ræðu minni í gær athugaði fyrirvara Alþingis, þá gat jeg þess, að tilætlunin hefði verið sú, að væntanl. konungsúrskurður yrði skoðaður sem hver annar ísl. konungsúrskurður, nafnfestur af ísl. ráðh. einum. Það er misskilningur, að jeg hafi nokkurn tíma haldið því fram, að konungsúrskurður sá, er getur í opnu brjefi 20. október 1913, hafi átt að vera undirskrifaður af öðrum en Íslandsráðherra. Það datt mjer aldrei í hug. En samt sem áður hefði orðið talsverður munur á þeim úrskurði og úrskurðinum, sem nú hefir verið gefinn út. Í fyrsta lagi hafði því aldrei verið slegið ótvírætt föstu, að skilyrðið um breytanleik úrskurðarins yrði ekki tekið upp í úrskurðinn og í öðru lagi lá fyrir bein yfirlýsing konungs um það, að engin breyting yrði gjörð á úrskurðinum, fyrr en staðfest yrðu sambandslög, sem Alþingi og Ríkisþing hefðu samþykt. Hefði Alþingi og ráðherra Íslands gengið að þessu þegjandi, þá hefði legið fyrir loforð til Ríkisþingsins um það, að breyting gæti ekki á orðið, nema með samþykki þess. Þetta var hið stóra millibil, og vegna þessa var jeg með því, að samþykkja fyrirvarann á síðasta þingi. Af þessu er það jafnframt ljóst, að jeg get ekki fallist á ástæður háttv. 2. þm. Rvík. (J. M.) fyrir afstöðu heimastjórnarmanna í þessu máli, eins og sumir háttv. þingm. hafa gefið í skyn að jeg gjörði.

Jeg lít svo á, að hið eina, sem menn halda að geti gjört það að verkum, að úrskurðinum verði ekki breytt án íhlutunar danskra stjórnarvalda, sjeu þessi orð konungs, sem háttv. þm. segja, að hann hafi tekið upp eftir forsætisráðherranum. Það er nú eina haldakkerið. Eins og jeg hefi þegar sýnt fram á, þá er ekki hægt að líta svo á, að orð konungs komi fram í því formi, að Dönum sje lofað, að engin breyting verði gjörð á úrskurðinum án íhlutunar þeirra. Það þarf ekki annað en lesa upp orðin sjálf, til þess að sjá, að það er ósamræmi milli orða forsætisráðherrans og konungs. Og það, að konungur með orðunum »jafntrygg skipun« geti ekki átt við annað en það, sem liggur í opna brjefinu 20. okt. 1913, eins og haldið hefir verið fram, er bersýnilega rangt. Það gjörði ráð fyrir rjetti danska Ríkisþingsins til íhlutunar; en í þessum tilgreindu orðum konungs liggur ekkert slíkt og engin átylla fyrir íhlutunarrjetti danskra stjórnarvalda. Ef Alþingi vildi nú koma á »jafntryggu skipulagi«, og gjörði það einmitt með því, að koma á skipulaginu sem var, þ. e. breyta stjórnarskránni og setja ríkisráðsákvæðið inn í hana aftur, þá mun enginn háttv. þm. vera í vafa um, að það sje hægt, án íhlutunar danskra stjórnarvalda. En með þess konar ákvæði yrði konungsúrskurðinum frá 19. síðastl. breytt — og án íhlutunar Dana.

Háttv. flutningsm. (S. E.) spurði mig í ræðu sinni í gær, hvort jeg áliti fyrirvara Alþingis 1914 skýran. Jeg vildi ekki svara honum í miðri ræðu hans, því að jeg hafði ekki orðið. Nú skal jeg svara honum því, að jeg álit persónulega, að fyrirvarinn sje skýr, en háttv. flokksbræður hans sumir hafa verið á annari skoðun, og það þegar frá byrjun, eins og t. d. háttv. þm. N.-Þing. (B. S.). Hann kvað það eina af aðalástæðunum til þess, að hann vildi ekki greiða fyrirvaranum atkvæði, að hann teldi hann ekki nógu skýran, og það hefir komið fram í ræðum fleiri háttv. skoðanabræðra flutningsm. (S. E.), að hægt sje að leggja ýmsan skilning í fyrirvarann. Háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) sagði um háttv. flutningsm. (S. E.), að hann hefði ekki breytt skoðun sinni síðan í vetur, en gaf í skyn, að hann hefði breytt henni 30. nóv. síðastliðinn. (Benedikt Sveinsson: Rangfærsla). Jeg taldi rjett, að leggja þennan skilning í orð háttv. þm. (B. S.), þar sem jeg hefi áður heyrt hann viðhafa lík orð.

Jeg skal ekki dvelja mikið við annað í ræðu háttv. flutningsm, (S. E.) en það, sem hann var að tala um yfirlýsingu hinna 23 þingmanna í vetur. Eins og jeg tók fram í gær, hefir mjer virst háttv. flutningsm. (S. E.) leggja aðaláhersluna á þessa yfirlýsingu, og mjer hefir fundist hann leggja talsvert meira upp úr henni en orð hennar sjálfrar gefa tilefni til. Þess vegna las jeg yfirlýsinguna upp og sýndi fram á, að hann hefði ekki haft heimild til þess, að skýra hana á þenna hátt, er hann gjörði. Til þess að hrekja þessi ummæli mín, hefir háttv. flutningsm. (S. E.) nú lesið orð, sem eftir mjer eru höfð í Ísafold í vetur, og tillögu, sem jeg kom fram með á fundi hjer í bæ, skömmu eftir að hann kom úr utanför sinni. Blaðið getur þess, að jeg hafi »lýst yfir því, að ráðherra hefði komið fram í fullu samræmi við þingmeirihlutann og skilning á fyrirvara Alþingis«. Og í tillögunni stendur, »að skoðanir ráðherra hafi verið í samræmi við vilja meiri hluta kjósenda fyrir síðustu kosningar«. Eins og frásögnin ber með sjer, þá er hjer sagt í 4 línum frá kortjersræðu, og því harla ónákvæmlega frá skýrt. En ræðuna ber að skoða í sambandi við ræðu hæstv. ráðherra, sem þá var, flutningsmanns nú, er hann hafði haldið áður á fundinum. Þar sjer maður, hvað hann telur aðalatriðið. Með leyfi hæstv. forseta skal jeg leyfa mjer að lesa það upp:

»Ef jeg hefði tekið á móti staðfestingu stjórnarskrárfrumvarpsins, sem var þeim skilyrðum bundið frá hendi konungs, að samtímis væri gefin út tilkynning til dönsku þjóðarinnar, undirrituð af forsætisráðherranum, um, að á úrskurðinum um málaframburðinn gæti engin breyting orðið, fyrr en rjettarsambandinu milli Danmerkur og Íslands væri breytt með lögum, samþyktum af Alþingi og Ríkisdegi — var þá hægt að breyta úrskurðinum eins og hverjum öðrum íslenskum konungsúrskurði? Því fer mjög fjarri; því konungur var þá á mjög ótvíræðan hátt búinn að binda vilja sinn við skilyrði, sem íslenskt löggjafarvald og íslensk stjórnarvöld rjeðu ekki yfir. Með öðrum orðum, uppburður málanna var þá orðinn fastur og óhreyfanlegur í ríkisráðinu, þangað til Ríkisþinginu þóknaðist að fallast á lög um sambandið. Þessu verður erfitt að neita. Eða því halda menn nú, að auglýsingunni til dönsku þjóðarinnar sje haldið svo fast fram frá danskri hlið, ef hún þar væri skoðuð þýðingarlaus«.

Þetta var aðalatriðið, og það var vegna þessa, að honum var neitað um staðfesting stjórnarskrárinnar. Og þessi orð þáverandi ráðherra eru í fullu samræmi við það, sem sagt hafði verið um málið á flokksfundum og víðar, þegar verið var að semja fyrirvarann.

Það var einhver, sem sagði í þessu sambandi, að auglýsingin út af fyrir sig væri þýðingarlaust atriði; það, sem þýðingu hefði, væri það, hvað í auglýsingunni stæði. Þetta er alveg rjett, og það var einmitt vegna þess, sem í auglýsingunni átti að standa, sem sje, að úrskurðinum yrði ekki breytt, nema ný sambandslög yrðu sett, að vjer vildum ekki hafa auglýsinguna. Og því var það, að þegar háttv. flutningsm. (S. E.) var í Kaupmannahöfn í haust og bar málið undir flokksbræður sína símleiðis, þá var það að eins eitt atriði, sem hann spurði um, sem sje auglýsingin.

Nei, jeg held því fram, að jeg sje alveg á sömu skoðun í þessu máli, sem á síðasta þingi. Ef nokkur hefir breytt skoðun, þá eru það háttv. flutningsm. (S. E.) og fylgismenn hans allir, nema háttv. þm. N.-Þing. (B. S.), sem hafði sjerstöðu í málinu í fyrra, og nú er í fullu samræmi við þá skoðun. En hann hefir nú fengið nokkura fleiri menn til fylgis við sig en hann hafði þá, og það eru þeir, sem skift hafa um skoðun. Og jeg man svo langt, að þá, á síðasta þingi, voru ekki eins ljúfar kveðjur milli háttv. þm. Dal). (B. J.) og háttv. þm. N.-Þing. (B.. S.) eins og nú.

Það hefir verið minst á eitt atriði í sambandi við þetta mál sem að vísu snertir það, en kemur þó ekki fyrirliggjandi tillögu við. Jeg ætla mjer ekki að gjöra það að umræðuefni, en get þó ekki látið vera að drepa á það stuttlega. Jeg á hjer við það, sem kallað hefir verið rof á þagnarheiti. Háttv. þm. Dal. (B. J.) og þeir, sem honum fylgja, hafa reynt að gjöra sem minst; úr því. Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að loforð hefði verið gefið að vísu, en það hafi ekki verið drengskaparloforð. Jeg sje, að háttv. þingmaður er ekki viðstaddur, en jeg býst þá við, að einhver úr hans flokki svari, þegar jeg spyr: Hver er munurinn á loforði góðs drengs og drengskaparloforði?

Háttv. þm. Dal. (B. J.) las upp, sjer og sínum samherjum til afbötunar, flokksstjórnargjörð af fundi, þegar tilboðið var birt þingmönnunum. Áður en vjer ljetum flokksmenn vora heyra skjalið, ljetum vjer þá vita, hverju vjer hefðum lofað um leynd þessa, og sögðumst ekki geta gefið þeim vitneskju um það, nema þeir lofuðu því sama, sem vjer, og því lofuðu þeir hver um sig. Jeg krafðist þess þá, að loforðið væri bókað. En er gjörðabók var lesin upp, þá hafði það ekki verið bókað, en þá var því aukið við; loforðið var gefið alveg skilyrðislaust.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) vildi kalla þetta hjegómamál, en jeg tel það hið mesta alvörumál. Jeg tel það svo mikið alvörumál, að jeg get ekki unnið í náinni samvinnu við þá stjórnmálamenn, sem ekki virða meir orð og eiða en reynst hefir í þessu tilfelli. Skal jeg svo ekki fara frekar út í það.

Um sjálfa tillöguna og orð mín, sem fjellu í sambandi við hana í gær, er það að segja, að það er nú upplýst, að rjett var það, sem jeg sagði þá, að tillögumönnunum var boðið fylgi með tillögunni, ef henni væri breytt svo, að fullljóst yrði, að í henni fælist ekki vantraust til núverandi ráðherra. Jeg gjörði þessa lauslegu uppástungu á flokksfundi; var hún síðan rædd og úrslitum frestað, til þess að hæstv. ráðherra og háttv. flutnm. (S. E.) gætu borið sig saman um breytinguna. Síðan var aftur haldinn fundur um málið; þá lýsti háttv. flutnm. (S. E.) því yfir fyrir sína hönd og flokksmanna sinna, að þeir gætu ekki gengið að neinum breytingum á tillögunni, af hvaða ástæðu sem það hefir verið, og skal jeg ekki um það segja.

Þessu má ekki gleyma í sambandi við orð háttv. tillögumanna, er þeir segjast alt vilja til vinna að bjarga málinu. Þetta vildu þeir ekki til vinna.

Að öðru leyti er það alveg rjett hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að ástæða mín fyrir því, að telja tillöguna óþarfa, er sú, að jeg tel fyrirvaranum fullnægt og því auðvitað með öllu óheimil sú skoðun, ef fram kemur, að Ísland sje bundið öðrum skilyrðum en þeim, sem felast í fyrirvaranum, og mun sú vera skoðun flestra, sem styðja hina rökstuddu dagskrá. Og þess vegna mun jeg greiða dagskránni atkvæði. Jeg get ekki fengið mig til að lýsa vantrausti á manni fyrir það, sem jeg tel hann hafa rjett gjört. Hjer eru engin landsrjettindi í voða, síður en svo, enda mun það skoðun sumra tillögumanna, og hefi jeg heyrt að minsta kosti einn þingmann úr þeim flokki lýsa yfir þeirri skoðun á fundi.

Háttv. flutnm. (S. E.) var mjög hróðugur yfir því, að sjer hefði dottið gott í hug, með því að segja, að vjer, þrímenningarnir svo kallaðir, værum þrír eykir, sem heimastjórnarmenn hefðu beitt fyrir vagninn sinn. En þótt háttv. flutnm. (S. E.) segi, að heimastjórnarmenn hafi beitt mjer fyrir vagn, stungið mjer í vasann, eða hver önnur orð, sem hann notar, þá geta þau orð hans ekki bitið á mig, með því að jeg hefi gjört alt, sem jeg hefi gjört, af bestu sannfæringu, enda veit jeg ekki, hvort hann ætlast til, að þessi orð hans verði skoðuð sem röksemd. En hitt er satt, að til eru þeir menn, sem missa sjónar á málefninu af hræðslu við, að einhver nefni þá flokksnafni pólitískra andstæðinga sinna, hvort sem gjört er með rjettu eða röngu, og kæra sig kollótta um annað, að eins ef þeim verður ekki brugðið um slíkt.

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) get jeg verið sammála að öllu leyti, nema því, að hann telur eitthvað það liggja í orðum konungs, sem ekki fullnægi fyrirvaranum. Hann talaði með þeirri rósemi og sanngirni, sem sæmileg er hverjum þingmanni. Jeg get verið honum samdóma um það, að heppilegast sje, að þjóðin yfirgefi sambandsþræturnar, enda munu nú æ fleiri og fleiri snúast á þá skoðun, bæði meðal sjálfstæðismanna og heimastjórnarmanna, enda er oss þess full þörf. Og jeg sje ekki betur en að þeim 2–3 þús. kr., sem varið hefir verið í þær óþörfu þrætur, sem staðið hafa um þessa tillögu, hefði verið betur varið til einhvers annars. Ef sú stefna væri tekin upp, gætu allir flokkar í bróðerni unnið að fullu sjálfstæði þessa lands.

Jeg skal að eins geta þess, að jeg var á þeirri skoðun, að rjett væri að heyja aukaþing, og óskaði þess, og tel illa farið, að ráðherra sá sjer það ekki fært. En við nánari íhugun virðast mjer ástæður hæstv. ráðherra fyrir því, að halda því eigi til streitu, svo gildar, að jeg hjelt þeirri skoðun ekki til streitu.

Þótt ýmislegt kunni að vera enn, sem svara þyrfti, og jeg sje nú að deyja og geti ekki borið hönd fyrir höfuð mjer oftar í þessu máli, þá læt jeg mig nú samt hjer með í andlátið.