20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

14. mál, stjórnarskráin

Sigurður Gunnarsson:

Jeg stend upp eingöngu af persónulegum ástæðum. Í umræðunum í gær og í dag hafa nokkrir háttv. þingmenn beint orðum sínum að mjer, á þann hátt, að þeir hafa ráðist á heiðarleik minn. Þeir hafa vænt mig þess, að jeg fylgi þessu máli, eins og jeg gjöri, af því, að jeg hafi verið gintur, en ekki af því, að það sje sannfæring mín, eða jeg telji minn málstað rjettan. Jeg kalla það hart, að bera slíkt nokkrum þingmanni á brýn.

Sá, sem fyrstur reið á vaðið með þetta, var háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). Honum hefir ef til vill, fundist tíminn nú hentugur, til þess að ráðast á mig með slíkar getsakir, en það verð jeg að segja, að mjer fanst, að ummæli hans kæmu úr allra hörðustu átt. Við erum gamlir vinir, og höfum nú setið saman á 10 þingum, og jeg er hissa á því, ef hann hyggur það í alvöru, að jeg fylgi nokkru máli án þess, að jeg gjöri það af sannfæringu. (Skúli Thoroddsen: Jeg hefi ekki talað eitt orð til þingmannsins). Hann hjelt því greinilega fram, óbeint, ef ekki beint, að jeg hefði verið gintur til fylgis við ráðherra; jeg skil hálfkveðna vísu enn þá.

Sá, sem næstur kom með getsakir í minn garð, var háttv. þm. V.-Sk. (S. E.). Jeg hafði komið í ræðu minni með gamla málsháttinn, að seint væri að byrgja brunninn, þegar barnið væri dottið í hann. Þá þurfti háttv. þingmaður ekki meira. Þá vaknaði hin einkennilega skáldgáfa í djúpi sálar hans, og fjekk

það út, að jeg væri sjálfur dottinn í brunninn — ráðherrabrunninn. Góð röksemd það.

Jeg hafði sagt, að tillaga háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) mundi aðallega ætluð til þess, að vera títuprjónsstingur í garð ráðherra, heldur en ekki neitt, úr því hann heiktist á vantraustsyfirlýsingunni. Nú finst háttv. þingmanni það rangt af mjer, að vera að sjá eftir þessum títuprjónssting, eða vorkenna ráðherra hann. Þar til svara jeg því, að ef jeg hefði talið ráðherra flytja illa mál vort fyrir konungi, mundi jeg ekki hafa mælt hann undan neinu slíku og þó harðara hefði verið.

Enn fremur segir sami háttv. þingmaður við mig með miklum myndugleika, að jeg hafi ekki haft leyfi til að koma fram með dagskrána, nema jeg sanni honum, að fyrirvara Alþingis sje fullnægt. Jeg hefi auðvitað ekki spurt hann leyfis til að koma fram með þessa rökstuddu dagskrá, og ætla ekki að gjöra það. En þegar hann krefst þess af mjer, að jeg sanni, að fyrirvara Alþingis sje fullnægt, þá mæltist hann til of mikils, því að jeg þekki ekki svo rökfiman mann nje skýran, hjer í deildinni, að jeg treysti honum til að koma háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) eða þeim, sem honum fylgja, í skilning um, að hjer sje ekki hætta á ferðum. Jeg get með sama rjetti heimtað af honum, að hann sannfæri mig um, að rökstudda dagskráin sje ekki á rökum bygð. En jeg er viss um, að í þessu efni sannfærum við hvorugur annan, og þó við eyddum til þess mörgum klukkustundum, mundi verða unnið fyrir gíg.

Svo ætla jeg að eins að minnast lítið eitt á vagnhestana. Mjer skildist sem hann meinti ekki einungis þrímenningana, heldur og mig og þá aðra, sem þeim fylgja. Var það ekki meiningin? (Sigurður Eggerz; Jeg nefndi að eins þrímenningana). Jæja, jeg hefi þá ekki átt æruna. En það er ekki til neins fyrir hann að reyna að hræða mig með flokksnöfnum. Jeg álít það ekkert óhapp, þó einhverntíma beri svo að, að heimastjórnarmenn og aðrir flokkar verði sammála um eitthvert mikilsvert málefni og rjettmætt.

Þá vil jeg minnast ógn lítið á háttv. þm. N.-Þing. (B. S.). Hann hefir aldrei lagt til mín áður, en í lok ræðu sinnar sagði hann, að dagskráin myndi aldrei verða mjer nje meðflytjendum mínum til sóma. Vera má að svo fari. En jeg vil að eins taka það fram, að jeg ætla ekki að biðja hann að gæta sóma míns. Ef jeg gæti hans ekki sjálfur, er hann líklega ekki mikils virði.

Þá kem jeg að fjórða manninum, hv. 1. þm. G.-K. (B. K.). Hann ljet ekki sitt eftir liggja að ráðast á mig persónulega og þá, er fylgja dagskránni, og gjörði það í rauninni greinilegast allra. Hann sagði, að alt væri undir því komið, hvort ráðherra vildi leyfa fylgismönnum sínum að greiða atkvæði með þingsályktunartillögunni og mintist í því sambandi á hagsmunasambönd. Jeg þori að segja háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) það, að orð mín á þingi hafa hvorki fyrr nje síðar verið stíluð af hagsmunasamböndum. Enn fremur sagði hann, að þeir, sem fylgja ráðherra í þessu máli, hefðu það fremur fyrir augum, hvað ráðherra geðjaðist, heldur en heill föðurlandsins. Jeg tel harla ósýnt, að háttv. þingmaður hafi meiri föðurlandsást til brunns að bera heldur en við, sem honum erum andstæðir í þessu máli, og vísa jeg þessari aðdróttun hans, sem jeg alls ekki hafði búist við af honum, heim í föðurgarð aftur.

Að lokum skal jeg taka það fram, að jeg mun standa fast við dagskrána, og jeg tek á mig ábyrgðina af því. Það mun sýna sig síðar, þegar málið verður yfirvegað rólega, að allar hinar löngu ræður þingmanns V.-Sk. (S. E.) og fylgismanna hans hafa ekkert sannað af því, er þær áttu að sanna. Engum landsrjettindum er glatað fyrir aðgjörðir ráðherra. Alt mas um það er vindur. Læt jeg svo úttalað um þetta mál frá minni hálfu.