20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

14. mál, stjórnarskráin

Guðmundur Hannesson:

Jeg bjóst ekki við því, að taka þátt í þessari orðasennu, en það, sem kom mjer til að taka til máls, voru nokkur orð í ræðu háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.). Hann gaf það í skyn, að þeir, sem mótfallnir væru tillögu þeirri, sem nú hefir verið rædd, gjörðu það af hagsmunavon, af »materialisme«, að hugur þeirra stefndi ekki nógu hátt og eigi hugsað um föðurlandið, sem skyldi. Einhver ótti væri orsökin til þess, að menn væru tillögunni mótfallnir.

Jeg get ekki rannsakað »hjörtu og nýru« annara, en hvað mig sjálfan snertir, vil jeg mótmæla slíkum staðlausum og ósæmilegum aðdróttunum. Jeg óttast engan og ekkert í þessu máli, — vinn ekkert í því fyrir eigin hagsmuni. Tel mjer að eins skylt, að gjöra það, sem jeg veit rjettast. Hvers vegna get jeg þá ekki greitt tillögunni atkvæði? Blátt áfram af því, að jeg tel ekkert rjettarlega athugavert við staðfestingu stjórnarskrárinnar, hvort sem litið er til fyrirvarans eða rjettinda landsins. En mjer gengur og annað til. Jeg lít svo á, að eigi að eins felist í henni óverðskuldað vantraust til ráðherra, heldur einnig til sjálfrar deildarinnar. Það er eins og hún hafi ekki treyst sjer til að dæma um, hvort fyrirvaranum væri fullnægt eða ekki.

Jeg get að lokum ekki stilt mig um að lýsa undrun minni og óánægju yfir þessum löngu, gagnslausu og dýru umræðum um þetta mál, sem naumlega breyta skoðun nokkurs þingmanns, sem á þær hefir hlýtt.