20.07.1915
Neðri deild: 11. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (2671)

14. mál, stjórnarskráin

Skúli Thoroddsen:

Jeg ætlaði alls ekki að leggja annað til málanna en jeg þegar hefi gjört, en háttv. þm. Snæf. (S. G.) hefir þó knúð mig til þess.

Hann byrjaði ræðu sína af miklum móði, og taldi mig hafa ráðið á sig. — En jeg mótmæli því, og get jeg í því skyni vitnað til þingskrifaranna. Háttv. þingm. Snæf. (S. G.) hefir því hlotið að dreyma mjög illa, þar sem jeg nefndi hann alls ekki á nafn nje beindi einu orði til hans, eða kom hann til hugar.

Hann sagði, að sjer þætti það hart, að ráðist væri á heiðarleik sinn í þingsætinu.

Hann vill þá og slá því föstu, að þingmönnum gangi aldrei annað en gott til allra sinna orða og gjörða hjer á þinginu, og að ljótt sje því, að ætla nokkrum þeirra nokkuru sinni nokkuð ilt. En það er hart, að heyra mann, á sjötugsaldri, tala af jafn lítilli þekkingu á hinu illa í lífinu.

Daglega lífið má — því miður — segja, að alloftast sje eigi nema blekking, þar sem fjöldi manna beitir einatt óeinlægninni, undirferlinu og jafnvel lyginni, jöfnum höndum við sannleikann, — alt eftir því, hvað við þykir eiga í það eða það skiftið, svo að giska verður þá og d það í hvert skiftið, hvort það, sem sá eða sá segir, sje einlægni, sannleikur, eða — hið gagnstæða.

Mjer hefir því og oft dottið það í hug, hjer í þingsalnum, að engu væri líkara en að jeg væri staddur á »ónefndum stað«. Svo oft hefi jeg rekið mig hjer á blekkingarnar, óeinlægnina, lygina, sem og undirferlið, og svo oft hefi jeg vitað hina eða þessa þingmennina greiða atkvæði, án þess að hafa aflað sjer þeirrar þekkingar á málunum, sem ein er skilyrði þess, að ítrekuð yfirvegun málsatriðanna geti þá og leitt til rökstuddrar skoðunar á málunum.

Vöntun sjálfstæðis, einurðar, sem og þors, leiðir og eigi sjaldan til þess, að greidd eru hjer atkvæði af jábróðurhætti, enda alls eigi dæmafátt, að setið sje yfir mönnum enda heila og hálfa daga, til þess að fá þá til þess, að greiða atkvæði svo eða svo, eða lúta vilja einhvers, sem mikið á undir sjer.

Sjálfstæði annara í orðum, og gjörðum, sem öllum er þó æ skylt að þrá, eigin sjálfstæði engu síður, sjáum vjer því nær daglega misboðið, og þá eigi síður hitt, að reynt er, að nota sjer hefnilöngun, eigingirni eða metnaðargirnd o. fl., sem ilt, eða lágt, er, hjá öðrum, og eigi svo útrýmt, eða tamið orðið, sem æ skyldi.

Og þegar vjer nú rekum oss æ öðru hvoru á annað eins í lífinu, og vitum, að menn eru á jörðu vorri á mjög mismunandi siðferðilegu þroskastigi, þá megum vjer ekki vera þau börn, að ætla, að allir breyti einatt eins og þeir ættu að gjöra; — megum það ekki, öryggis vors vegna, en verðum æ að haga oss, sem forsjálir og hyggnir menn.

Vel get jeg skilið það, er háttv. þm. Snæf. (S. G.) telur ástæður sínar nú — dótturmissirinn — vera þess eðlis, að fremur hefði þó þeirra vegna átt að hlífa honum við persónulegum árásum. En það nær ekki til mín, þar sem jeg hefi engum slíkum árásum beint til hans, nje heldur heyrt aðra gjöra það.

En einnig, er um sorgina, og hluttekninguna í raunum annara ræðir, þá er daglega lífið oss þar og oft eigi síður blekkjandi, en ella, — vaninn, að látast æ finna ríkt til með öðrum, og segja, sem aðrir, að sorglegt sje, er einhver missir sína, eða slys, eða óhöpp, bera að höndum, þótt alt annað búi þá ef til vill í hjartanu.

En svo að jeg sleppi nú þessum útúrdúr, skal jeg geta þess, að jeg efa það ekki, að háttv. þm. Snæf. (S. G.) hafi aflað sjer þekkingar á málinu, en þá væri líka fróðlegt að heyra þau rök, er hann hefir bygt skoðun sína á.

Hæstv. ráðherra beindi, að mjer skildist, persónulegum árásum í minn garð, eða var með einhverjar glósur til mín í þá átt, að mig muni oft hafa langað í ráðherraembættið.

Jeg veit ekki, hvort hann byggir þetta á því, að svo hefir reynst háttað um hann sjálfan, en þar sem hann vitnaði í það, að blað mitt hefði tíðum haft eitthvað að segja við slík tækifæri, þá sannar það ekki eitt, eða neitt, annað, en það, sem þær greinar bera með sjer, að jeg hefi þá eigi viljað láta ómótmælt blekkingum, eða lygum, sem beitt hefir þá verið, því að það, að jeg hefi þá verið svo heppinn, eða óheppinn, að fá atkvæði, eða verið talinn líklegur til starfans, hefir þá og leitt til þess, að hinir, og þessir, er koma vildu að sjálfum sjer, eða öðrum, hafa þá enda alls einskis svifist, til að bola mjer frá, — beitt mig þá æ hverju heiftartakinu á heiftartak ofan, og almenning þá og blekkingum, eða lygum, svo að síður sæist þá sannleikurinn.

Annars býst jeg við, að jeg þekki nokkuð, bæði kostina, og ókostina, sem ráðherrastöðunni fylgja, og hefði jeg í hana komist, eða þá sótt að mun eftir því — sem jeg býst við, að hæstv. núverandi ráðherra geti lítið um borið — þá hefði það þá verið af því, að jeg hefði þá viljað, að eitthvað gott leiddi af því, þjóðinni til handa, enda skiftir það eigi litlu, að í ráðherrasessinn komist eigi einatt þeir einir, sem alhugsjónalausir eru, ef eigi og altilfinningarlausir steinar, sem sama er um öll bágindi annara, ef sjálfum líður þeim vel.

Þá gjörðu andstæðingarnir og mikið hark úr því, að vjer hefðum rofið drengskaparheit, er birt voru dönsku leynitilboðin, og jafnvel 1. þm. Rvk. (S. B.) tók svo djúpt í árinni, að hann sagðist ekki geta starfað lengur með þeim mönnum, er slíka óhæfu hefðu framið.

En ferst nú þessum mönnum, að tala mikið um drengskapinn? Eða hvernig var drengskapnum háttað, þegar »þrímenningarnir« komu heim úr siglingunni, og málað hafði verið yfir dönsku flöggin á »Gullfossi«?

Þar var alt þorið, — allur drengskapurinn, þess eðlis, að þegar Danir frjettu um tiltækið, þá þorðu þeir ekki að gangast við því, hver þeirra, sem þar var nú aðalmaðurinn, og því varð Nielsen, framkvæmdarstjóri »Eimskipafjelags Íslands«, og undirmaður 1. þm. Rvk. (hr. S. B.), að taka á sig ábyrgðina.

Að því er birtingu »dönsku leynitilboðanna« snertir, nægir annars, að geta þess, að eigi var í fyrstu gjört ráð fyrir þagnarskyldu, nje undir hana gengist, nema 3–4 daga, eða þá þar um.

Hitt, að ráðherra og fjelagar hans, reyndu æ, að knýja oss til þess, að þegja þó æ lengur og lengur, svo að þeir gætu þá því betur komið sjer við með »agitationirnar«, átti eigi að þelast þeim, og var — því miður — látið haldast uppi alt of lengi.

Yfir því, sem af mjer, og öðrum, var talið þjóðinni skaðlegt, átti og eigi, nje mátti þegja, nema rjett í svip.

Allir vita, að margur getur sá prakkarinn verið, er aðra vill fá til að þegja, yfir hinu eða þessu, svo að hann geti þá því betur komið sjer við, með prakkaraskapinn, óhæfuna eða óknyttina. En hver segir, að slíkt eigi þá einatt eftir honum að láta?

Frekara finn jeg svo enga ástæðu til að segja, en slæ því að lokum föstu, að jeg hafi í fyrri ræðu minni sýnt fram á það, að fyrirvaranum var ekki fullnægt í ríkisráðinu 19. júní síðastl. Þetta hefir ekki verið hrakið, en gripið í þess stað til persónulegra árása, sem einatt sýnir mjög veikan málstað.