19.07.1915
Efri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

25. mál, rafmagnsveitur

Karl Einarsson:

Jeg vil að eins gjöra nokkra grein fyrir þeim brtt., sem jeg legg aðallega áherslu á. Mjer og oss nefndarmönnum, fanst nokkuð mikið leyfishafa bragð að sumum ákvæðum frumvarpsins, og höfum því lagt til, að feld verði burtu síðari málsgrein 7. gr. og síðasta málsgrein 10. gr. Ákvæðin, sem felast í þessum málsgr., eru enda óþörf vegna þess, að gjört er ráð fyrir, að sveitarstjórn geti afsalað leyfishafa einkarjetti sínum, og fær hann þá eðlilega í öllum einstökum atriðum sama rjett og hún hafði sjálf. Enn fremur virðist óþarft að ákveða, að leyfishafi hafi lögtaksrjett, enda geng jeg út frá, að sveitastjórnir semji allt af gjaldskrána og hún sje síðan staðfest af stjórnarráðinu, og leiðir þá af sjálfu sjer, að hægt er að heimila lögtaksrjett á gjöldunum, þar sem leyfishafi hefir sama rjett og sveitastjórnin, sem gefið hefir leyfið. Að öðru leyti læt jeg mjer nægja að vísa til nefndarálitsins og framsögunnar.