21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

21. mál, landhelgisvarnirnar

Ráðherra:

Háttv. flutningsm. till. á þgskj. 42 (Sk. Th.) beindi, að því er mjer virtist, fyrirspurn til mín. Jeg heyrði því miður ekki alla ræðu hans, vegna þess, að jeg var inni í Ed. En mjer skildist fyrirspurnin vera á þá leið, hvort jeg teldi að Danastjórn mundi rísa upp á móti því, ef við samþyktum lög, sem heimiluðu landhelgissjóðnum lántöku til þess, að hann gæti látið smíða strandvarnarskip. (Skúli Thoroddsen: Já, fyrirspurnin var á þá leið). Jeg get ekki svarað spurningunni, svo feginn sem jeg vildi, hefi ekki hugmynd um, hverju Danir myndu svara, enda ekki haft tilefni til þess að grenslast eftir því. En fari þingið þess á leit við mig, þá færi jeg það auðvitað í tal. (Bjarni Jónsson: Hvað álítur ráðherra sjálfur?). Jeg er að svara fyrirspurn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). Hvað jeg álít persónulega, getur engar upplýsingar gefið um það, sem að er spurt — og jeg er ekki hjerna fyrir neinum rannsóknarrjetti háttv. þm. Dal. (B. J.). Ef háttv. þm. Dal. (B. J.) vill endilega fá fram mitt álit, er fyrirspurn, þingsköpum samkvæmt, vegur til þess.

Um sjálfa tillöguna þarf ekki mörg orð. Hún er auðvitað sprottin af góðum vilja háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), til þess að strandgætslan verði sem best af hendi leyst. Jeg er ekki jafn viss um það, að till. sje heppileg, sjerstaklega þar sem komið er fram lagafrv. skylt þessari till., um að auka landhelgissjóðinn með ákveðinni árlegri upphæð. Það frv. fer í alt aðra átt en till. háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), og samþykt hennar gæti trauðla komist í samræmi við framgang þess frv. Vitanlega er hægt að hugsa sjer, að það sje tilgangur háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) að auka strandgætsluna á þennan hátt, þangað til landhelgissjóður væri orðinn svo stór, að hann gæti annast útgjöldin til strandgætslunnar, en jeg er hræddur um, að það kynni að verða lagt Nd. til ámælis, hún sökuð um ósamkvæmni við sjálfa sig, ef þessi tillaga yrði samþykt, jafnframt landhelgissjóðsfrv. Enn fremur er það nokkuð óviðfeldið, að vera alt af að tala um sjálfstæði annað veifið og að við sjeum sjálfir færir um að annast landhelgisvarnirnar, en vera svo hitt veifið að fara fram á aukinn stuðning til strandvarnanna frá Dönum.

Jeg segi þetta ekki vegna þess, að mjer megi ekki á sama standa, þótt till. verði samþykt; hún fer ekki fram á neitt, sem jeg get ekki vel reynt að gjöra.