21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

21. mál, landhelgisvarnirnar

Ráðherra:

Mjer virtist það á hv. flutningsm. (Sk. Th.), að hann hefði fengið það svar, sem hann hafði óskað, við fyrirspurn sinni. En nú hefir hv. þm. Dal. (B. J.) risið upp og auðsjáanlega ætlað að »klemma« mig. Hann spyr mig um það, hvort jeg telji, að það geti komið til mála, að dönsk stjórnarvöld færu að skifta sjer af því, að við Íslendingar gjörðum sjálfir út skip til strandvarna. Jeg var búinn að segja það áður, að jeg vissi ekkert um, hvað Danir mundu gjöra; jeg hefði ekki leitað hófanna um það. Hvaða skoðun jeg hefi persónulega, er fræðilegt atriði, sem ekki kemur þessu máli við, og mjer kemur ekki til hugar, að vera að lengja umræðurnar með að tala um. Vilji háttv. þm. Dal. (B. J.) vita hana, þá getur hann borið fram fyrirspurn þar að lútandi á þingskapalegan, rjettan hátt. En jeg get trúað því, að Danir telji sjer málið ekki óviðkomandi. Þeir hafa svo margar aðrar skoðanir á sambandi landanna en við.