21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

21. mál, landhelgisvarnirnar

Benedikt Sveinsson:

Jeg get ekki fylgt þessari tillögu, jafnvel þótt jeg skilji vel tilgang flutningsmanns með henni, að það sje ekki nema rjettlátt, að láta Dani finna, hvað þessi yfirráð kosta, sem þeir eru alt af að tala um. Þeir vilja halda dauðahaldi í þenna rjett, sem þeir þykjast hafa yfir landinu, en tíma samt engu til að kosta. Jeg hefi þess vegna alt af verið mótfallinn því, að Íslendingar borguðu Dönum með sektafje landssjóðs tillag til strandgætslunnar, meðan það fengist ekki viðurkent, að vjer værum einráðir um landhelgisvarnirnar. Jeg hefi ekki talið rjett, að Ísland ljetti undir með Dönum, til þess að beita valdi og ofríki.

Fyrirspurn háttv. þm. Dal. (B. J.) til hæstv. ráðherra um það, hvernig hann liti á rjett Dana í þessu máli, var alveg óþörf, vegna þess, að skoðanir hans sjást skýrar í ritum hans, t. d. Rjettarstöðu Íslands. (Ráðherra: Þar með er ekki sagt, að Danir sjeu á sömu skoðun). Vjer vitum um skoðun Dana, en jeg vænti þess, að hæstv. ráðherra haldi sínum fyrri skoðunum og sæki þetta mál, sem alíslenskt löggjafarmál.

Fyrst þessi tillaga er fram komin, þá tel jeg rjett, að hún sje athuguð í nefnd, og þar sem þegar hefir verið kosin nefnd í landhelgissjóðsfrumv., þá tel jeg einlægast, að vísa þessu máli til þeirrar nefndar.

Það þýðir ekki að fara hjer mikið út í kostnaðinn; það atriði getur ekki orðið rannsakað við þessa umræðu. Dálítið mun það samt hafa verið athugað, og get jeg um það efni skírskotað til smágreinar, sem birtist í Andvara fyrir svo sem þrem árum.

Jeg tel það ekki brýna nauðsyn, að taka við strandvörnunum í ár eða að ári, vegna þess, að ágangur botnvörpunga verður miklu minni fyrst um sinn, vegna ófriðarins. Það er nú búið að sökkva fjöldanum öllum af botnvörpuskipum, og þó að ófriðurinn taki bráðum enda, sem óvíst er um, þá tekur það talsverðan tíma að smíða ný skip.

Þessu máli bráðliggur því ekki á, enda er tíminn nú óheppilegur að kaupa strandvarnaskip, þar sem skipasmíð er bæði erfið og dýr.

Eins mætti í þessu sambandi drepa á það, hvort ekki væri heppilegt, að landið eignaðist kafbát til strandvarna. Jeg veit ekki, hvað hann mundi kosta; hann þyrfti ekki að vera stór eða eins vel úr garði gjörður og kafbátar ófriðarþjóðanna, en gæti komið að góðu haldi og komið lögbrjótum að óvörum. Einn bátur slíkur væri meira virði en margir ofansjávarbátar. Þetta er engin tillaga, en að eins bending, sem varpað er fram til athugunar. Það eru ekki mörg ár síðan slík hugmynd mundi talin mesta heimska, — »íslenskur« og »kafbátur« mundi til skamms tíma hafa verið talin ósamrýmanleg hugtök —, en nú er okkur þó vaxinn svo fiskur um hrygg, að enginn mun telja slíkt fjarstæðu.

Jeg skal svo ekki orðlengja málið frekara, en vænti þess, að tillögunni verði vísað til landhelgissjóðsnefndarinnar.