21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (2686)

21. mál, landhelgisvarnirnar

Bjarni Jónsson:

Jeg er svo óheppinn, þegar jeg yrði á hæstv. ráðherra, að hann heldur alt af, að það sje einhver hrekkur — jeg sje að setja hann í »klemmu«. Jeg hjelt satt að segja, að við hæstv. ráðherra værum svo sammála í þessu máli, að hann hefði getað látið sjer nægja að svara fyrirspurn minni játandi. Enda þótt jeg þekki skoðanir Einars Arnórssonar í þessu máli af skrifum hans, þá þótti mjer gott að heyra, að hann væri sama sinnis, er hann sæti í þessum sessi, og vænti því, að hann svaraði spurningu minni með einu »jái«.

Það er svo, að ekki virðist mega brjóta upp á nýjum lögum, því að allir þykjast þurfa að flýta sjer heim til sín af þinginu. Þess vegna er ástæða til að leita fyrirspurna hjá hæstv. ráðherra, til þess að gjöra þeim ekki gramt í geði, sem vilja halda heim. En jeg skil ekki, að hæstv. ráðherra vilji það heldur, að jeg komi fram með fyrirspurnina á þann hátt, sem fara má samkvæmt þingsköpum.