21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

21. mál, landhelgisvarnirnar

Sveinn Björnsson:

Jeg get sagt eins og háttv. þm. Dal. (B. J.), að mjer þykir till. benda í öfuga átt við það, sem jeg hjelt, að Íslendingar væru nú að hugsa um. Sjálf stofnun Landhelgissjóðsins bendir á það, að vjer ætlum oss að taka að oss strandvarnirnar sjálfir, og nú liggur hjer fyrir þinginu annað frumv., sem bendir í sömu átt, og heldur vill hraða oss á þessari leið en gefast upp við hana, enda álít jeg að hún sje gagnlegri og hagfeldari en þótt vjer fengjum 1 eða 2 báta, slíka sem hjer er stungið upp á í þessari till.

Vegna þessa, og með því líka, að ástæða er til að hraða því, að vjer tökum að oss strandvarnirnar, vegna þess, að okkur vantar einnig bæði skólaskip fyrir skipstjóraefni og spítalaskip, — en hugmyndin er, að sameina megi þetta þrent — þá hygg jeg, að þessi tillaga myndi heldur verða til þess, að draga áhugann frá hinu, og þannig fresta framgangi málsins. Það kemur og fram, að menn vilja helst snúa sjer að frumv., en ekki taka í streng með tillögunni, enda verður málið miklu hreinna, ef það er gjört.