21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

21. mál, landhelgisvarnirnar

Flutnm. (Skúli Thoroddsen):

Jeg hefi ekki ástæðu til að tala mikið út af umræðum þeim, sem orðið hafa um þessa þingsályktunartillögu. Jeg þóttist benda rækilega á það í fyrri ræðu minni, að tilgangurinn, með tillögu þessari, væri, meðal annars, sá, að knýja fram svar frá Dönum um það, hvort vjer fengjum ekki að taka sjálfir að oss strandvarnirnar, án mótspyrnu af hálfu Dana. Því að vilji þeir ekki til þeirra leggja það, sem vjer getum sýnt og sannað, að með þarf, þá verðum vjer auðvitað sjálfir að heimta, að vjer fáum að hafa þær á hendi, sem vjer best getum.

Till. er því í samræmi við þarfir, og óskir þjóðarinnar, og auðvitað höldum vjer áfram, að efla Landhelgissjóðinn, eftir sem áður. En jeg hygg, að margir landsmanna muni verða orðnir ærið óþolinmóðir, ef þeir ættu að bíða þangað til hann væri orðinn nógu öflugur til þess, að geta, án lántöku, látið smíða báta þá, sem vjer þurfum, og kostað útgjörð þeirra.

Jeg skal játa, að mjer er það ekki vel ljóst, hvað útgjörðin myndi kosta, eða hvort það er t. d. nokkuð nærri lagi, sem háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) gat upp á. En vjer gætum vel byrjað, þótt vjer hefðum jafnvel ekki nema 1–2 báta, og síst ætti oss að vera það um megn, að styðja Landhelgissjóðinn svo, að hann gæti þó innan skamms staðið straum af þeim. Sektir, sem og fje fyrir upptækan afla, og veiðarfæri, ætti að verða nóg til þess, að kosta útgjörð annars þeirra, að minsta kosti.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en að eins halda því fram, að tillögu þessari verði vísað til Landhelgissjóðsnefndar, og jafnframt, að íhuguð verði tillagan um lántöku, og loks, að að nefndin íhugi það sem rækilegast, hvort ekki sje brýn nauðsyn á því, að lengra sje gengið í framlögum úr landssjóði til landhelgissjóðsins en farið er fram á í frumvarpinu, svo að landhelgisvarnirnar verði sem fyrst svo úr garði gjörðar, sem nauðsyn krefur.