26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (2692)

21. mál, landhelgisvarnirnar

Bjarni Jónsson:

Jeg er sömu skoðunar sem háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að þótt Danir legðu þetta fram og jafnvel meira, þá væri það ekki of mikið fyrir þann veiðirjett, sem þeir hafa haft hjer, þótt aldrei höfum vjer veitt þeim hann. Hvorki Danir nje nokkur önnur erlend þjóð hafa nokkurn rjett til veiði hjer í landhelgi. Og þess vegna vil jeg ekki, að vjer fáum nokkum hlut frá þeim, er feli í sjer viðurkenningu vora á slíkum rjetti. Og því er jeg ósamþykkur þessari tillögu. Jeg vil einskis jafnrjettis unna þeim, vil heldur, að landið sje varnarlaust, enda er það svo, þótt þeir hafi hjer þessa skel sína, sem liggur allajafna inni á höfnum og gjörir ekkert. Jeg vil ekki, að Danir gjöri nokkurn hlut fyrir okkur, nema vjer greiðum þeim peninga fyrir, og gætum vjer þá alveg eins gjört samninga við aðrar þjóðir, t. d. Norðmenn, um strandvarnir hjer. Það væri rjettast að bjóða þær út, svo að vjer fengjum sem best kjör. En það, sem mjer gjörir, að jeg vil síst leita til Dana um þetta mál, er það, að Danir líta á þetta öðrum augum, skoða land vort sem skattland sitt, er þeim sje skylt að verja. Þess vegna eigum vjer ekki að semja við þá um þetta, að þeir hafa aðra skoðun og vjer myndum ekki komast að svikalausum samningum.

Með þessum formála greiði jeg atkvæði gegn tillögunni og öllu því, sem fer í sömu átt.