11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

97. mál, slysfaramál

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Svo sem hv. deild mun vera kunnugt, hefir nú legið fyrir þrem þingum, frv. um líftryggingu sjómanna. Það hefir ekki fundið náð fyrir augum þingsins, og málið er óútkljáð enn. Um alt land hafa heyrst raddir í þá átt, að málið þyrfti að framkvæma sem fyrst. Fiskifjelag Íslands tók málið fyrir á fiskiþinginu í sumar, og skoraði á þingið að taka málið fyrir, og fá skipaða milliþinganefnd, til þess að semja lagafrumv., sem lagt yrði fyrir næsta Alþingi. Menn bjuggust við því, að á þann hátt mundi málinu betur borgið, bæði að því leyti, að milliþinganefnd myndi ganga betur frá því, heldur en þótt einstakir menn færu að semja frumv., jafnvel þótt kunnugir væru, og eins myndi frumv. ef til vill verða fleirum að geði, ef það væri þannig til komið. Sjávarútvegsnefndin hjer á þinginu gat ekki annað en fallist á, að þetta væri nauðsynjamál, sem ekki mætti lengur slá á frest. Hún komst að þeirri niðurstöðu, að ekki myndi þurfa fleiri en 3 menn í nefndina, bæði myndi það mun ódýrara en 5 manna nefnd, og gæti jafnframt gjört sama gagn.

Tillagan, sem við berum fram, er í tveim liðum, 1. á nefndin að koma fram með ráðstafanir, til þess að afstýra slysförum og 2. að semja frumv. til laga um slysatryggingar, einkum slysatrygging sjómanna.

Í slysatryggingarfrumv. ætti að vera ákveðið, hvað borga skyldi, ef maður slasast eða ofkælist á sjó, svo og ef hann deyr. Með öðrum orðum, lögin eiga að ná yfir alt, sem komið getur fyrir manninn á sjónum, svo sem heilsubrest, slys eða dauða.

Nú er komin hjer fram breyttill. frá tveimur háttv. þingmönnum. Þar er farið fram á, að engin milliþinganefnd verði sett til að rannsaka þetta mál, heldur verði það falið landsstjórninni. Frá hverjum er svo þessi brtt. komin? Hún er komin frá tveimur bændum, sem sæti eiga hjer á þingi. Frá mönnum, sem vitanlega geta ekki haft neitt vit á slíku máli sem þessu. Frá mönnum, sem líklega hafa aldrei á sjó komið. Auðvitað varðar ekki miklu, hvaðan málin koma, en viðkunnanlegra fyndist mjer, að mál eins og þetta komi frá þeim, sem vita hvar skórinn kreppir, en ekki frá landbændum. Ætli landbændur að halda áfram, að vega í þenna sama knjerunn, þá finst mjer skörin vera farin að færast um of upp í bekkinn.

Jeg ætla ekki lengur að tala fyrir tómum bekkjum, en það væri æskilegt, að hæstv. forseti ljeti kalla menn inn, áður en atkvæði verða greidd um þetta mál, svo að hægt verði að sjá, hverjir eru með og hverjir á móti sjómannastjettinni. Jeg skal svo ekki bæta við öðru en því, að jeg óska eftir, að nafnakall verði haft um brtt. á þingskjali 293.