11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (2699)

97. mál, slysfaramál

Björn Hallsson:

Jeg og háttv. samþingismaður minn (J. J.) höfum leyft okkur að koma fram með brtt. við þessa tillögu. Hún er á þgskj. 293. Að við höfum komið fram með hana, er ekki sprottið af óvild til þessa máls, eins og mjer virtist háttv. framsögum. (M. Ó.) gefa í skyn. Heldur er það sprottið af þeirri ástæðu, að við töldum þetta fjársparnað, þar eð stjórnin myndi geta gjört sama gagn í þessu máli, sem milliþinganefnd. Í það minsta væri ráð að reyna þá leið fyrst, og skipa þá á næsta þingi slíka nefnd, ef stjórnin hefði ekki getað unnið að undirbúningi og rannsókn málsins.

Það hefir verið svo með þær milliþinganefndir, sem skipaðar hafa verið, síðan við fengum löggjafarvaldið í vorar hendur, að þær hafa gefist misjafnlega, en hins vegar kostað mikið fje, 3–10 þús. kr. hver. Við hefðum þó ekki horft í kostnaðinn, hvað þessa nefnd snertir, ef við hefðum verið sannfærðir um gagnið af nefndarskipuninni, en það erum við alls ekki. Við viljum reyna að vísa málinu til stjórnarinnar og vita, hvort hún getur ekki búið það undir. Ef það reynist henni ekki fært, þá er að fara aðra leið síðar.

Jeg heyrði háttv. framsögum. (M. Ó.) segja, að landbændur hefðu ekkert vit á, hvað það væri, sem krepti að sjómönnunum. Jeg játa það, að jeg er ekki sjómaður, en mjer finst jeg þó samt sem áður geta gjört mjer grein fyrir því, hvort nefnd geti unnið til þarfa í þessu máli eða ekki. Sje ekki, að það þurfi neinn sjómann til þess. Hins vegar er það ekkert leikspil að skipa hverja milliþinganefndina eftir aðra. Í fyrra var skipuð nefnd í launamálin, og verður hún vafalaust dýr, hver sem árangurinn verður. Svo mikið er víst, að þingið verður að gæta hófs í þessu efni, vegna fjárhags landssjóðs.

Háttv. framsögum. (M. Ó.) ætlaðist víst til, að það væri hefnd á okkur, að haft yrði nafnakall um tillöguna. Jeg get frætt hann á því, að mjer er ekkert illa við, að haft sje nafnakall. Jeg mun að sjálfsögðu greiða atkvæði með breytingatillögunni, og falli hún, mun jeg greiða atkvæði móti aðaltillögunni og ekki roðna mikið.