04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Guðmundur Björnson:

Jeg vil leyfa mjer að minnast á nokkrar brtt. hv. nefndar, og verður þá fyrst fyrir till. hennar um að færa niður námsstyrkinn til Mentaskólans.

Í því máli finn jeg mig knúðan til þess að taka í sama streng sem hv. þm. G: K. (K. D.). Að vísu er jeg samdóma nefndinni um, að ofmikil aðsókn er að skólanum, og því full ástæða til að leita einhverra ráða til þess að stöðva þann flaum. En hv. nefnd vill gjöra það með því að afnema ölmusurnar, og um það er jeg henni ekki samdóma.

Mjer virðist, að maður verði fyrst að gjöra sjer ljóst, af hverju þessi mikla aðsókn muni stafa. Jeg hygg að orsakirnar til hennar sjeu fljótfundnar, og er þá fyrst að nefna vaxandi fólksfjölda og vaxandi velmegun þjóðarinnar. En aðalorsökin hygg jeg að sje sú, að inntökuskilyrðin eru nú orðin svo miklu vægari en áður. Áður var inntökuprófið í skóla allþungt próf, og reyndist það skólanum holt og gott, en nú er það orðið laufljett og flestum vandalaust að standast það. Af þessu hefir svo leitt, að linað hefir verið á öllum prófum, svo að nú eru gjörðar miklu vægari kröfur til nemendanna en áður var. Önnur aðalorsök hinnar miklu aðsóknar er aðstreymið frá Akureyrarskólanum.

Jeg er nú hræddur um, að aðsóknin mundi ekki þverra til stórra muna, þótt námsstyrkurinn væri afnuminn. Það mundi í hæsta lagi hafa þá afleiðing, að allra fátækustu piltarnir sæju sjer ekki fært að fara í skóla. En það mundi jeg telja illa farið. Þeir sem nokkuð hafa hugleitt þetta mál, munu allir hljóta að játa, að meðal fátækustu piltanna í skóla hafa venjulega fundist efnilegustu piltarnir, og það af þeirri einföldu ástæðu, að fátæku piltarnir hafa sjaldan verið sendir í skóla, nema þeir væru óvenjulega efnilegir. Og víst er það, að ef námsstyrkurinn hverfur úr sögunni, verður fátæklingum miklu örðugra að koma börnum sínum til menta. Jeg veit um sjálfan mig, að jeg stæði ekki þar sem jeg stend nú, ef jeg hefði ekki notið ölmusu í skóla, og býst jeg við, að fleiri mentamenn, sem nú sitja á þingi, geti sagt hið sama, þar á meðal hæstvirtur ráðherra (Ráðherra : Jeg veit ekki nema mjer hefði vegnað betur, ef jeg hefði aldrei komið í þá veiðistöð!) Ja, um það má hæstv. ráðherra best vita sjálfur. En hinu hlýt jeg að halda fram, að besta ráðið til þess að hefta aðsóknina að skólanum, er að gjöra inntökuskilyrðin strangari og herða um leið á öllum prófum við skólann. Það hygg jeg muni duga. Loks vil jeg bæta því við, að mjer virðist hv. nefnd beita gagnfræðaskólann á Akureyri misrjetti, þar sem hún leggur til, að námsstyrkurinn við hann sje afnuminn nú þegar. Námsstyrkurinn við Mentaskólann átti þó samkvæmt till. hennar að fara smáminkandi, uns hann hyrfi með öllu. En ef námsstyrkurinn við Akureyrarskólann er afnuminn þannig fyrirvaralaust, þá munu margir piltar, sem í von um námsstyrk hafa sótt um inntöku í skólann í haust, verða fyrir vonbrigðum. Jeg vil að endingu láta þá von í ljós, að hv. nefnd haldi ekki þessari stefnu sinni til streitu. —

Þá vil jeg minnast lítið eitt á 61. liðinn á atkvæðaskránni. Jeg þekki vel þann mann, sem þar ræðir um, Björn Jakobsson, og get borið honum það vitni, að hann er einn af okkar efnilegustu íþróttakennurum. Hann er nú í Svíþjóð, til þess að afla sjer frekari þekkingar í sinni ment, og hefir hann farið þá för með ráði og tilstuðlan Íþróttasambands Íslands. En Íþróttasambandið getur ekki sjálft lagt fje af mörkum, því að það er enn í skuldum síðan það tók þátt í Ólympíuleikunum í Stokkhólmi. Jeg vil því vona, að Björn Jakobsson fái þenna litla styrk, því að hann á hann sannarlega skilið. — Annar maður er það, sem hv. Nd. hafði lagt til að fengi dálítinn styrk, en ekki hefir fundið náð fyrir augum hv. nefndar. Það er Einar Hjaltested. Jeg tel illa farið, ef hv. Ed. aðhyllist þá till. hv. nefndar, því að hjer er að ræða um óvenjulega efnilegan söngmann. Hann er nú langt á leið kom . inn í list sinni, vantar að eins herslumuninn, til þess að verða fullnuma, en ef hann nær því takmarki, þykir mjer ekki ólíklegt, að hann verði heimsfrægur maður. Jeg vil því vona, að hv. nefnd haldi ekki fast við þessa brtt. sína.

Jeg hefi nú mælt með þremur fjárveitingum, sem hv. nefnd vill fella niður. En nú skal jeg bæta úr þessu, með því að mæla á móti einni útgjaldatillögu hv. nefndar. Og þar með á jeg við þessar 25,000 kr., sem nefndin vill setja í svartholið þarna fyrir vestan, í brúnkolagrafirnar þar. „Vestigia terrent“ — til þess eru vítin að varast þau. Í Færeyjum, fundust fyrir nokkrum tíma kol í fjöllum, — ekki eingöngu brúnkol, heldur líka steinkol. Þar voru svo tvisvar sett á stofn námufjelög, en þau fóru bæði um koll eftir að hafa eytt stórfje til einskis, — alls einskis! — Eins og nú standa sakir höfum við ekki ráð á, að kasta út stórfje til einskis annars — en að friða draumóra manna !