11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (2700)

97. mál, slysfaramál

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Mjer skildist á háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.), að hann vissi talsvert um orsakir til slysanna. Það má vel vera, að hann viti eitthvað um það, en jeg verð að benda honum á, að það er ekki nóg, að hann viti einn um slíkt. Stjórnin veit ekkert um orsakirnar og hefir engin tök á að rannsaka slíkt, og því er ekkert vit í að vísa þessu máli til hennar. Eða hvernig er hægt að búast við því, að stjórnin geti rannsakað, t. d. hve mikla »barlest« þurfi að hafa í skipi, til þess að óhætt sje að sigla því um höfin. Stjórnin getur vitanlega ekki haft slík mál, sem þetta til meðferðar, því að til þess að slík rannsókn komi að notum, þarf hún að vera framkvæmd af sjerfróðum mönnum.

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.) hafði það á móti nefndarskipuninni, að milliþinganefndir væru alt af dýrar, kostuðu alt að 10 kr. Mig minnir, að háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) reikni mannslífið hærra en 10 þús. kr. Svo að ef nefndin með tillögum sínum bjargaði þótt ekki væri nema einum einasta manni, þá væri þó samt beinn hagur að nefndinni.

Háttv. 1. þm. N.-Múl. (B. H.) sagði einnig, að hann vildi fyrst leita fyrir sjer með að vísa málinu til stjórnarinnar, og yrði ekkert gagn að því, þá vildi hann reyna að finna einhver önnur ráð. Já, jeg hefi heyrt þetta áður. Það er gamla íslenska ráðið, að draga alt á langinn. Háttv. þm. lætur sem sjer sje ant um málið, en vill þó ekki fylgja þeim, sem árum saman hafa kynt sjer málið. Hann vill fara krókaleiðir, til þess að drepa það.

Ef að háttv. þm. (B. H.) kæmi fram með tillögu um að skipa milliþinganefnd í landbúnaðarmálum, þá dytti mjer ekki í hug að vera á móti honum í því. Jeg mundi skoða það sem svo, að hann hefði betra vit en jeg á þörfinni. Slíks hins sama ætlast jeg til af honum í sjávarútvegsmálum, að hann þá fylgi þeim, sem honum eru vitrari í þeim efnum.

Háttv. sessunautar mínir rjettu mjer hjer þingtíðindin 1913. Þá kom fram hjer í deildinni sams konar tillaga þeirri, sem hjer liggur fyrir. Þá vissi jeg ekki hvað fólst í slysatryggingu, og því var jeg á móti málinu, og færði fram sömu ástæður og háttv. andmælendur mínir núverandi. Jeg kannast fúslega við, að mjer skjátlaðist þá, og jeg get bætt því við, að mjer þykir engin minkun í að kannast við það. Jeg get því fengið háttv. sessunaut mínum (1. þm. Árn.) þingtíðindin aftur.

Mjer þykir leitt að hæstv. ráðherra skuli ekki vera viðstadddur, því jeg býst við, að hann hefði sagt eitthvað um þetta mál.

Jeg get bætt því við, áður en jeg setst niður, að verði brtt. á þgskj. 293 samþ. þá tel jeg aðaltillöguna vera orðna gagnslausa, og jeg býst þá við, að jeg taki hana aftur.