11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

97. mál, slysfaramál

Guðmundur Hannesson:

Því miður hafa umræðurnar ekki sannfært mig um nauðsyn milliþinganefndar. Jeg vil spyrja háttv. nefndarmenn, hvort þeir geti virkilega búist við, að nefnd manna geti afstýrt slysum hjer á landi. Mjer mun verða svarað, að þeir geti sett reglur til að fara eftir, og lagt refsingu við, ef þeim yrði ekki hlýtt. En bátar manna geta bilað jafnt fyrir því, og illa trúi jeg því, þótt eitthvað vantaði í svip af því, sem fyrirskipað yrði til öryggis, en fiskur væri nógur, að menn færu ekki á sjó, jafnt eftir sem áður. Auðvitað er það eigi að síður alt annað en lofsvert, að fara á sjó, nema alt sje í góðu lagi. En það er ekki til neins að setja strangar reglur um slíkt, nema því að eins, að hægt sje að hafa ríkt eftirlit. Það getur verið að Norðmenn geti það, en við getum það áreiðanlega ekki. Þó eftirlitsmaður væri látinn fara um landið, þá myndu erfiðleikarnir verða honum um megn og hann fá, annaðhvort engu eða mjög litlu til vegar komið. En það er annað, sem má gjöra. Það er auðvitað ekki stórt, en gæti þó komið að góðu haldi með tímanum, og til þess þarf enga milliþinganefnd. Fiskifjelagið heldur úti blaði, sem Ægir heitir. Mjer sýnist það vinnandi vegur, að fá hæfa menn til að skrifa í það blað um orsakir slysa og leggja á ráð um, hvernig slysum mætti afstýra. Enn fremur hefir Fiskifjelagið í þjónustu sinni ráðunaut, sem sjerstaklega á að kenna mönnum meðferð og hirðingu mótorbáta, og hygg jeg, að leiðbeiningar þess manns, myndu geta kornið að miklu liði. Hins vegar hygg jeg, að árangurinn af nefndarstarfi hljóti að vera mjög tvísýnn.

Um síðari hluta tillögunnar, slysatrygginguna, er það að segja, að á því máli hafa þingmenn ekki fremur vit heldur en stjórnarráðið. Vátryggingamál eru alveg sjerstök fræðigrein og það er algjörlega rjett, sem hv. þm. Dal. (B. J.) benti á, að sjálfsagt væri, að dr. Ólafur Daníelsson ætti sæti í þeirri nefnd, sem fjallaði um undirbúning þessa máls. Jeg býst við, að ef ætti að semja hjer slík lög, sem í Noregi gilda um þetta efni, þá þyrftum vjer að leita upplýsinga í Noregi, og myndi það greiðari vegur en nefndarskipun. Jeg vil engan veginn gjöra lítið úr þekkingu sjávarútvegsnefndarinnar í þessu máli, en jeg get ekki greitt atkvæði með því, sem mjer er ekki skiljanlegt, og nauðsyn nefndarskipunarinnar er mjer ekki skiljanleg.