11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (2711)

97. mál, slysfaramál

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi gjarna gjöra örstutta athugasemd. Menn hafa sagt mjer, þó ekki hafi það verið í ræðu, að jeg hafi farið með rangt mál, þar sem jeg sagði, að hægt væri að fá æfðan reikningsmann í »tarif«-reikningi. En síðan jeg talaði þessi orð hefi jeg fengið áreiðanlegar upplýsingar um þetta, og það sem mig minti, reynst rjett að vera. Dr. Ólafur Daníelsson hefir unnið að »tarif«-reikningi hjá besta reikningsmanni Dana í þeirri grein, og ætlaði dr. Ólafur jafnvel að gjöra þetta að lífsstarfi sínu. Hann væri því slíku starfi fyllilega vaxinn. En það er rjett, og verður varla móti mælt, að til þess að hafa þess konar reikningsstarf á hendi þarf sjerstaka kunnáttu. Það er því ekki að ástæðulausu, að jeg nefndi þetta, og það munu menn skilja. En gjöri þeir það ekki, þá vildi jeg þó láta þessa getið, til þess að það sæist þó síðar, að einn þingmanna hefði þó að minsta kosti vitað þetta.