14.08.1915
Neðri deild: 33. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

99. mál, kornvöruforði

Flutnm. (Sigurður Eggerz):

Norðurálfuófriðurinn geisar alstaðar í kringum oss. Eftirlitið með kaupsiglingum til vor verður harðara dag frá degi. Nú heyri jeg sagt, að skipum sje boðið að koma við í einhverri höfn á Englandi, og ef út af sje brugðið, megi búast við kolaútflutningsbanni. Enginn veit enn, hvernig stríðið getur snúist, og enginn veit enn, hvaða skelfingar eiga eftir að dynja yfir þjóðirnar. Vjer höfum enn sem komið er átt því láni að fagna, að ófriðaröldurnar hafa nálega ekki snert oss. Að vísu hafa vörur stigið mikið í verði, og kjör þeirra manna, sem af handafla lifa, hafa því verið allörðug, en hins vegar hafa afurðir vorar til lands og sjávar verið í geypiháu verði. Tilhneiging er því vitanlega rík í þá átt, að selja sem mest af þessum afurðum, og þessi háttvirta deild hefir ekki sjeð fært að gjöra þær ráðstafanir, sem dragi úr þessum eðlilega gróða, með því að veita greiðan aðgang að því, að hefta útflutning þeirra.

Jeg held, að þessi stefna sje rjett, en hún er vitanlega því að eins rjett, að jafnframt sjeu gjörðar tryggar ráðstafanir til þess, að sjá fyrir því, að nægar kornvörur flytjist til landsins. Og það hlýtur því að vera alvarlegt íhugunarefni fyrir þingið, hvort nokkur hætta sje á því, að flutningar geti tepst.

Er nokkur slík hætta á ferðum?

Mjer hefir nú skilist, að svo margar þjóðir geti flækst inn í ófriðinn og hann geti orðið rekinn með svo miklum fjandakrafti, að hin breiðu sund, sem til Íslands liggja, verði ótrygg yfirferðar. Og jafnvel nú, er ekki með öllu víst, að kornvörufarmar frá Ameríku kæmust hingað óteptir, nema sjerstakrar verndar væri leitað. En hver veit líka nema Ameríka komist inn í ófriðinn, og hver veit, hvaða áhrif það hefir á aðflutninga hingað?

Leiðirnar til Danmerkur geta vitanlega lokast á hverri stundu. Og ef allar leiðirnar lokast, þá vita allir, að stórhætta er á ferðum. Hættan kemur ef til vill aldrei, og það væri best, en hún getur líka komið í opna skjöldu, ef alt verður látið reka á reiðanum.

Bóndinn, sem setur fje sitt ekki á heyforða sinn, heldur á þá trú, að forsjónin gefi honum góðan vetur, hann þykir maður óvitur, og þingið er alt af við og við, að reyna að setja lagaskorður við slíkum ásetningi. Jeg skal nú að vísu játa, að jeg hefi ekki mikla trú á slíkri lagasetningu, en síst ætti það þing að skifta sjer af þeim sökum, sem væri svo óhyggið, að skjóta jafnmiklu velferðarmáli eins og því, hvort matvæli verða næg í landinu á komandi vetri, — skjóta því frá sjer í þeirri von, að stjórnin og forsjónin sjái landinu einhvern farborða. Því að það má öllum vera ljóst, að engin vissa er á, að samvinna verði milli forsjónarinnar og stjórnarinnar um það mál.

Stríðið kemur ekki til vor í annari mynd en þessari. Og það er skylda vor að sporna við því, að slíkt geti orðið. Vjer megum ekki leggja oss og þjóð vora í arma óvissunnar, láta reka á reiðanum, og treysta því, að alt fari vel. Vjer megum ekki friða samviskuna með heimild þeirri, sem vjer gáfum stjórninni í dýrtíðarfrumvarpi því, sem samþykt var hjer, og nú er komið til háttv. efri deildar. Ef vjer gjörum ekki frekara, þá megum vjer ekki heldur ámæla stjórninni, þótt hún dragi allar ráðstafanir þangað til sundin eru lokuð, því að hún hefir vitanlega ekki minni tilhneigingu til að reiða sig á teningskastið en þingið, enda eðlilegra, að hún sje ragari til stórræðanna en það.

Annars, satt að segja, þótt mjer virðist ekkert sjálfsagðara en að gjöra nú þegar alvarlegar ráðstafanir í dýrtíðarmálinu, þá ber jeg kvíðboga fyrir því, að slíkar ráðstafanir dagi uppi í þeirri hálfvelgju, sem stundum rekur höfuðið upp á þessu háa Alþingi og ruglar hreinum línum í stjórnmálum vorum.

En hvað sem nú þessu líður, vjer, sem flytjum þessa tillögu, viljum ekki taka á oss ábyrgðina af drætti í þessu máli; hina ábyrgðina, sem af því kynni að leiða, að verðfall yrði á vörunni, eftir að landssjóður hefði keypt hana, viljum vjer heldur taka á herðar vorar.

En satt að segja gjöri jeg ekki ráð fyrir, að kvíðboga þurfi að bera fyrir slíkri verðlækkun, enda verður ekki fyrir alt synt.

Fyrsta spurningin, sem vaknar, er tillaga þessi er borin fram, er sú: Hvar er fjeð? Og þessari spurningu hreyfði hæstv. ráðherra í umræðunum um dýrtíðarmálið.

En fjeð er til. Samkvæmt ráðstöfun Velferðarnefndar og fyrri stjórnar, eru nú geymdar, að jeg hygg, um 600 þús. króna í banka í Ameríku. Hálf miljón af þessu fje var tekin í Íslandsbanka að láni samkvæmt heimild í fyrri dýrtíðarlögum, einmitt í því skyni, að fjeð gæti verið til í Ameríku, þegar í harðbakkana slægi.

Fje þetta stendur með mjög lágum vöxtum, c. 2%, en í augnablikinu er hins vegar dollarinn svo dýr, að á því græðist að mun, að fjeð var komið til Ameríku á undan aðalverðhækkun dollaranna.

Fjármótbáran er því fallin, og auk þess má geta þess, að þó þessu fje verði varið til matarkaupa, þá er þó til gullforði í landinu, sem nokkru nemur. En til þess að gullforðinn geti komið að liði í þessu efni, þá verður gullforðinn að vera í landinu, enda óverjandi að leyfa að gullforðinn sje geymdur annarstaðar.

Þá hefir sú mótbára heyrst gegn ráðstöfun þessari, að landið munaði svo litlu, þótt matvara væri keypt fyrir hálfa miljón króna. En þetta er ekki rjett álitið. Vitaskuld er ekki, eins og sakir standa, hægt að segja með neinni vissu, hvernig verð er á matvöru nú; en þótt ekki fengjust nema rúmar 2000 smálestir af matvöru, þá er það þó c. 1/6 hluti af öllu, sem innflutt var til landsins 1913, en þá voru innfluttar 13 þúsund smálestir, og er það æðimikill styrkur að grípa til, ef í vandræði rekur, því að fyrir oss flutningsmönnum vakir, að matvöruforði sá, sem landið kaupir, verði geymdur til tryggingar, og ekki á honum tekið, fyrr en birgðir kaupmannanna fara að þrjóta, að því undanskildu, að fátækum mönnum verði, þegar harðnar að, gjörður kostur á að kaupa matvöru með innkaupsverði, eins og farið var með kolasöluna síðasta ár.

Ein aðalmótbáran hefir enn heyrst gegn tillögu þessari, sú, að þessi kaup mundu draga úr viðleitni kaupmanna til að birgja landið og að með þessu væri gengið á hag verslunarstjettarinnar. En að því er hag verslunarstjettarinnar snertir, þá sýnist mjer ekki þurfa að bera svo mjög kvíðboga fyrir henni, því verslunarstjettin mun enn sem komið er yfirleitt hafa grætt á ófriðnum, en þar sem matvöruforðinn á að geymast, þá ætti það ekki svo mjög að draga úr viðleitni kaupmannanna. Enda valt á svona tímum að reiða sig eingöngu á verslunarstjettina, sem ef til vill hefir ekki nóg bein í hendi.

Þá hefir sú mótbára komið fram, að geymslustað vantaði fyrir kornforðann. En þessi mótbára er þannig vaxin — svo vandræðaleg í eðli sínu —, að hún ætti tæplega að heyrast, því úrræðaleysið í þessu landi væri þá búið að ná hámarki sínu, ef engin tök væru á því, að geyma vöruforða fyrir landið á ófriðarári; þá mætti þó alt af búa til vöruskýli, og yfirleitt ef húsleysið væri hjer Þrándur í Götu, þá væri þar með búið að kveða niður allar ráðstafanir, sem gengi í þá átt, að útvega landinu forða til lengri tíma.

Og vil jeg hjer enn minna á það, sem jeg tók fram í umræðunum í dýrtíðarmálinu. Ef vissa væri fyrir því, að samgöngurnar hættu 30. nóv. í haust og vöruforði væri boðinn 20. nóv. — ef stjórnin svo neitaði vegna húsleysis, að taka á móti kornforðanum, þá myndi hún jafnvel fá bágt hjá þeim, sem vernda hana með sjálfstæði sínu gegn títuprjónastungum.

Þá hafa enn heyrst mótbárur um það, að tillaga þessi komi of snemma fram, að hún hefði átt að bíða eftir heimildarlögunum, sem hjer eru á ferðini. Því hefir verið haldið fram, að stjórnin geti ekki keypt vörur samkvæmt þessari ályktun einni. Ef stjórnin treystir sjer ekki til að fara eftir tillögunni einni, þá bíður hún eftir heimildarlögunum, og þeim má hraða. Jeg sje því ekki, að þessi mótbára sje annað en ný tilhneiging til að finna ástæðu til að draga alt á langinn og gjöra ekki neitt.

Þó ekki sje minst á kolakaup hjer í tillögunni, þá er það síst af því, að vjer teljum ekki brýna nauðsyn á, að hugsað sje fyrir því, að sem mest sje flutt inn kolum, því illa færi, ef siglingar teptust til og frá landinu, vegna kolaleysis, og reynslan frá fyrra ári sýnir ljóslega, hve mikið gagn varð að kolakaupum stjórnar og Velferðarnefndarinnar, því fyrir þau kaup björguðust meðal annars margir skipsfarmar á markaðinn. Og sú reynsla verður væntanlega nægileg bending fyrir stjórnina til að ýta á kolamálið.

Það má vera, að ýmsum öðrum mótbárum en þeim, sem jeg hefi talið, verði veifað gegn þingsályktunartillögu þessarri. En vitanlegt er það, að vjer, sem minni hlutann skipum á þessu þingi, getum ekki annað en komið með þær tillögur, sem vjer teljum landi og lýð hollar, en meiri hlutinn hefir vitanlega líf þeirra í hendi sjer. En tillögur þær, sem hjer eru á ferðinni, eiga, samkvæmt eðli sínu, að standa fyrir utan pólitíska vígvöllinn, enda vona jeg, að svo verði litið á af flestum, og treysti jeg því, að þessi tillaga eins og önnur tillaga, sem borin var fram hjer í þessarri hv. deild, verði ekki fórnað á þeim pólitíska offurstalla. Allar þjóðir svo að segja reyna að sameina sig um ófriðarráðstafanir, er þær gjöra. Að dæmi þeirra eigum vjer einnig að fara í þessu máli. Ekki veit jeg, betur en bæði Danir og Norðmenn leggi aðaláhersluna á að korntryggja landið, og það man jeg, að þegar jeg var í Kaupmannahöfn síðastliðinn vetur, þá voru engin mál ofar á dagskrá en slík kornvörutrygging fyrir landið. Vjer erum skyldir að gæta allrar varúðar í þessu máli, og stjórnin verður að heyra ákveðinn vilja þingsins um það, að velferð landsins sje ekki lögð undir teningskast atvikanna. Vjer viljum tryggja landið svo með matvöruforða, að vjer getum horft ókvíðnir í augu vetrarins. — Jeg er sannfærður um, að þetta er fastur og eindreginn vilji þjóðarinnar.