14.08.1915
Neðri deild: 33. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

99. mál, kornvöruforði

Flutnm. (Sigurður Eggerz):

Jeg sje ekki ástæðu til að halda langa ræðu. Í ræðu minni áðan mintist jeg á flest þau mótmæli, sem nú hafa komið fram.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) talaði um, að hann gæti ekki fallist á, að skora á stjórnina, að kaupa kornforða handa landinu, án nokkurs undirbúnings. Mig furðar á þessum ummælum háttv. þm. (P. J.). í tillögunni stendur skýrum orðum, að skorað sje á landsstjórnina, að gjöra ráðstafanir til að birgja landið upp með korni. Vitanlega hefir okkur flutningsmönnum tillögunnar ekki dottið í hug, að stjórnin ryki til að kaupa kornið, alveg fyrirhyggjulaust og undirbúningslaust. Nei, við ætluðumst til, að hún ljeti framkvæma allar þær rannsóknir, sem nauðsynlegar mætti telja, áður en hún færi að semja um kaupin. Það var alls ekki meiningin, að hún færi strax að síma eftir korninu, eftir fundinn í dag.

Aðalmunurinn á skoðun minni og skoðun háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) er fólginn í því, að hann lítur svo á, að ekki sje nauðsynlegt að gjöra nú þegar ráðstafanir til þess, að tryggja landið með kornforða. Hann lítur svo á, að óhætt sje að bíða. Ræða hans verður ekki skilin öðruvísi en á þessa leið.

Eftir að stjórnin hefir heyrt slík orð frá framsögumanni dagskrárinnar (P. J.), og ef dagskrá sú, sem þessi háttv. þm. (P. J.) bar fram, nær samþykki deildarinnar, þá má stjórninni vera vel um vært, þó að hún hraði ekki mikið þessu máli. Því hvað er þetta annað en bending til stjórnarinnar um, að óhætt sje að fara að öllu með mestu hægð? Með öðrum orðum, jeg get ekki betur sjeð en að dagskráin gangi í þá átt, að óhætt sje að láta reka á reiðanum og setja alt á guð og gaddinn.

Eins og jeg tók fram, þegar dýrtíðarfrumv. var til umræðu hjer í deildinni, þá getum við ekki búist við því, að fá það tilkynt með fyrirvara, hve nær aðflutningar teppast til landsins. Síst með svo miklum fyrirvara, að þá sje nægur tími til að birgja landið með matvælum. Samgöngubannið kemur alt í einu, ef það kemur, og að öllum líkindum alveg fyrirvaralaust. Eins og jeg hefi sýnt fram á, er það fyllilega á valdi þingsins að gjöra ráðstafanir til þess, að landið saki ekki, þó að samgöngubann detti yfir, og þess vegna alveg óverjandi varúðarleysi, ef það lætur þær ráðstafanir farast fyrir.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) mintist á, að áður en stjórnin rjeðst í þessi kornkaup, þyrfti hún að afla sjer upplýsinga um þær vörubirgðir, sem til væru í landinu, og þær ráðstafanir, sem kaupmenn og kaupfjelög hefðu gjört til þess, að útvega vörur til vetrarins. Þetta væri vitanlega gott og blessað. En jeg býst þó við, að stjórninni takist aldrei að fá ákveðnar upplýsingar um þetta. Það getur á ýmsan hátt farið í handaskolum. Og þó að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) haldi það ekki, þá geng jeg út frá því sem gefnu, að kaupmenn og kaupfjelög landsins gjöri alt, sem í þeirra valdi stendur, til að útvega landinu forða, þó að stjórnin gjöri þær ráðstafanir, sem tillagan fer fram á.

Enda þótt stjórnin geti gjört þessar ráðstafanir samkvæmt heimildarlögum, þá þarf hún ekki að nota heimildina, fremur en henni sjálfri sýnist. Og það er ekki nema eðlilegt, að verði stjórnin vör við, að Alþingi álíti ekki þörf á ráðstöfununum nú þegar, þá taki hún þá ákvörðun að bíða. Svo kemur veturinn og kann ske siglingabann, og þá eru það dagskrárflytjendur, sem bera ábyrgð á því gagnvart landsmönnum, að ekkert hefir verið gjört. Jeg vil ekki bera þá ábyrgð. Hæstv. ráðherra sagði, að nú væri alt miklu rólegra en áður, og getur það verið rjett að sumu leyti. En ekki má samt gjöra of mikið úr því. Hafi verið hætta á ferðum í fyrra, þá er hún engu síður fyrir hendi nú, nema fremur sje. Yfir stríðinu er engin ró; það harðnar stöðugt, og öll þau úrræði, sem þjóðirnar beita, eru svo hörð, að engum mun hafa dottið þau í hug í byrjun ófriðarins. Við höfðum ekki á seinasta þingi hugmynd um alla þá farartálma, sem yrðu á leið kaupfara okkar. Okkur dreymdi ekki um tundurdufl á alþjóðasiglingaleiðum, og að saklausum skipum yrði sökt af ófriðarþjóðunum. En reynslan hefir sýnt okkur þetta alt. Skilyrðin eru alt af að harðna; nú seinast er komin fyrirskipun um það, að skip okkar verði að koma við í einhverri enskri höfn, ef þau vilja ekki eiga það á hættu, að verða skotin niður. Ef þingið væri ekki svona gagntekið og svæft af þessari miklu ró, þá gætu menn ekki litið rólegir á þetta og sagt, að ástandið væri ekki eins ískyggilegt og í fyrra. Enn fremur ber þess að gæta, að í fyrra vorum við svo ókunnugir því, hverjar leiðir væri heppilegast að fara, til þess að afla okkur matvöru, en síðan höfum við fengið reynslu í þessu efni, og nú liggur ekki annað fyrir en að ákveða, hvort við eigum að kaupa matvöruna nú eða ekki.

Hæstv. ráðherra sagði, að nú yrði bráðlega kosin velferðarnefnd, og þess vegna væri ekki ástæða til þess, að þingið færi að gjöra slíkar ályktanir. Jeg er alls ekki að vantreysta væntanlegri velferðarnefnd, en sjálfs er höndin hollust, og gjöri þingið sjálft ekkert, sem dugir, þá eru ekki líkindi til þess, að 5 manna nefnd, kosin af því, gjöri það fremur.

Enn fremur sagði hæstv. ráðherra, að æskilegt væri, að sams konar tillaga yrði borin fram í háttv. Ed., og það því fremur, sem ætlast væri til þess, að varið yrði ½ miljón kr. til þessara kaupa. En jeg fæ ekki skilið það, ef þessi deild samþykti till., og ef það, sem hún fer fram á, er jafnframt leyft með heimildarlögum, að nokkur stjórn geti verið hrædd við að gjöra ráðstöfunina með þetta á bak við sig, heimildarlög, samþykt af öllu þinginu og áskorun frá þeirri deild, er mestu á að ráða um fjármál landsins. Það er óverjandi skeytingarleysi af háttv. þm., að gjöra ekkert annað en halda langar ræður og segja svo við stjórnina: »Gjörðu það, sem þjer sýnist«.

Mjer skildist það á hæstv. ráðherra, að hann liti svo á, að jeg bæri fram þessa tillögu vegna þess, að jeg hefði sjerstaka tilhneigingu til þess að sýna honum vantraust. Jeg tók það fram í fyrri ræðu minni, að jeg líti svo á, að þessu máli væri svo varið, að það ætti að vera fyrir utan vígvöll stjórnmálanna. Mjer hefir ekkert vantraust dottið í hug með flutningi tillögunnar, enda færði jeg ljós rök fyrir því, hversu nauðsynlegt það væri, að útvega landinu nógar vörur. Mig furðar satt að segja á því, að stjórnin skuli ekki vera þakklát fyrir það að fá slíka áskorun frá þinginu. Hún hefir nóga ábyrgð samt. Jeg segi fyrir mig, að jeg mundi í sporum hæstv. ráðherra vera mjög glaður yfir því, að hafa ákveðinn þingviljann að baki mjer. Og það má hv. deild vita, að samþykki hún ekki till., þá getur hún ekki kastað steini á stjórnina, þótt hún vanræki eitthvað í þessu efni.

Jeg mintist á háttv. Ed. áðan. Jeg skal bæta því við, að svo framarlega sem þessi tillaga verður samþykt hjer í deildinni, þá verður sams konar tillaga borin fram í háttv. Ed.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Það verða mjer mikil vonbrigði, ef háttv. deild samþykkir ekki jafn sjálfsagða tillögu og þá, er hjer liggur fyrir. En fari svo, þá er ekki nema eðlilegt, að menn hæðist að fuglafriðunarlögunum, og telji þau sem tákn um alvöru þingsins í stærstu velferðarmálum þjóðarinnar.