16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2221 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

99. mál, kornvöruforði

Flutningsm. (Sigurður Eggerz):

Jeg hafði ekki búist við því, að þurfa að tala meira í þessu máli.

Hæstv. ráðherra virtist vera mjög særður af ummælum mínum, og taka þau nærri sjer, því auðheyrt var, að ræða hans kom frá instu hjartarótum, svo viðkvæm var hún í hans eigin garð. En jeg á — jeg verð að halda því fast fram — erfitt með að sjá, að ítarlegar, margvíslegar rannsóknir þurfi að gjöra, áður en tillaga þessi er samþykt. Jeg sje ekki, að hjer þurfi að gjöra neinar rannsóknir, aðrar en þær, að sjálfsagt er, að stjórnin leiti fyrir sjer um það, hvar heppilegast sje fyrir hana að festa kaup á vörunni. Og þótt gott sje að grenslast um í hverjum hrepp og kauptúni á landinu, hve mikið þurfi þar af korni, þá þarf ekki að gjöra það á undan þessum kornkaupum, því við vitum allir hjer í háttv. deild, að sá kornforði, sem nú er til í landinu, er alt of lítill, til þess að nægilegur sje, og markaður þess vegna nógur alstaðar á landinu. Þeir, sem veifa þessari rannsóknarkreddu, eru því ekki aðrir en þeir, sem vilja sneygja sjer undan, að gjöra nokkuð verulegt í málinu.

Jeg get ekki sjeð annað en að dagskrá sú, er háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) kom fram með, beri vott um væran og góðan svefn hjá meiri hlutanum, sje hún borin fram í hans nafni, og er víst spurs mál, hvort hann fer ekki að hrjóta bráðlega.

Hæstv. ráðherra sagði, að við, sem fylgdum þessari þingsályktunartillögu, hefðum ekkert gjört til þess, að flýta fyrir þessu máli. En jeg hygg þó, að þessi tillaga mín hafi orðið til þess, að háttv. Ed. hraðaði málinu sem mest, og afgreiddi það svo fljótt, sem hún gjörði, og sömuleiðis hygg jeg, að þakka megi tillögu minni það, að svo virðist, sem háttv. Nd. ætli að hraða málinu sem mest, og vinda bráðan bug að því, að kjósa velferðarnefnd. Jeg hefi þess vegna fulla ástæðu til þess, að vera ánægður með það, að tillagan skuli hafa orðið til þess, að koma þessu tilleiðar.

Hæstv. ráðherra var að vola yfir einhverjum títuprjónastingjum til síu, eins og reyndar svo oft áður. Þetta er algjörður misskilningur hjá hæstv. ráðh. (Ráðherra: Jeg mintist aldrei á títuprjónastingi). Það eina, sem vakti fyrir okkur, var það, að við álitum það skyldu okkar, að skiljast ekki svo við þetta mál, að ekkert væri gjört, og alt væri látið reka á reiðanum. Enda væri leitt fyrir þingmenn, er kjósendur þeirra spyrja þá um, hvað gjört hafi verið í þessu máli, að þurfa að svara á þá leið, að þingið hafi ekkert gjört, en þeir ali þá von í brjósti, að stjórnin ef til vill mætti gjöra eitthvað. Slíkt væri ófyrirgefanlegur aumingjaháttur, að skilja svo við málið.

Jeg skal og lýsa yfir því, út af því, er hæstv. ráðherra sagði um það efni, að þetta myndi flokksmál hjá mjer, að jeg bar tillöguna fram, án þess að flokkurinn vissi nokkuð um það. En annað mál er það, að jeg hygg flokkinn svo skipaðann, að hann muni sýna sjálfstæði sitt í þessu máli, sem öðrum, og greiða tillögunni atkvæði sitt. Og þá vona jeg, að bændaflokkurinn finni sig ekki síður knúðan til þess, að greiða atkvæði með tillögunni, enda sýna það og þau nöfn, er standa undir henni, því einn af flutningsmönnunum er einn af aðalmönnum bændaflokksins.

Hæstv. ráðherra kvað þetta mál vera eingöngu adminiatrativt, en jeg verð að álíta, að ákvörðunin um að kaupa vörurnar sje mál er snerti löggjöfina, eftir eðli sínu. Annað mál, þótt fela verði stjórninni ákvarðanir um slík mál, er ekki næst til þingsins. Það eru innkaupin sjálf sem eru eingöngu administrativt starf, enda viljum við fela það stjórninni, eins og tillagan ber með sjer, svo það er síst ástæða til þess að segja, að tillagan feli í sjer nokkurt vantraust til stjórnarinnar. Jeg get ekki verið samþykkur hæstv. ráðherra í því, að ekki sje meiri þörf á að gjöra innkaupin nú en í fyrra. Fyrst og fremst bar ófriðinn í fyrra svo seint að, að langt var liðið á þingtímann, og því erfitt til umsvifa fyrir þingið, og málið nýtt, og svo er það fullkomlega rjett, sem háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) tók fram í ræðu sinni, að þótt menn hafi ef til vill verið óvarkárir í fyrra, þá sje það engin ástæða til þess, að vera óvarkár í ár, heldur fremur hið gagnstæða.

Mjer dettur í hug maður, sem átti stóran barnahóp. Hann hafði í 10 ár látið brunn standa opinn í landareign sinni. Nágranni hans kom að máli við hann eitt sinn og kvað þetta óvarlegt, vegna barnanna. Maðurinn svaraði, að alt hefði nú farið vel í 10 ár, og hann sæi því enga ástæðu til að leggja í þenna kostnað. En hvað skeður? Jú, á 11. árinu dettur eitt barnið ofan í brunninn og druknað þar. Hefði nú bóndinn farið að ráðum nágranna síns, og byrgt brunninn, þá hefði þetta slys aldrei komið fyrir. Þess vegna finst mjer sú ástæða hæstv. ráðh. heldur veigalítil að rjett sje að »sluxa« í ár, fyrst »sluxað« var í fyrra. (Ráðherra: Jeg talaði aldrei um, að »sluxað« hefði verið í fyrra). Jeg er þakklátur háttv. 1. þm. Rang. (E. J.), fyrir hans hlýju orð í garð till. Það er alveg rjett hjá honum, að ½ miljón er ekki mikil upphæð, og síst skyldi jeg verða til þess, að draga úr því, að meira fje yrði veitt til þessarar ráðstöfunar, ef hið háa Alþingi sæi sjer það fært, en jeg vil þó benda hv. deild á, að fyrir þessa fjárhæð er þó hægt að kaupa 1/6 af allri þeirri kornvöru, er fluttist til landsins árið 1913. Og það er áreiðanlegt, að þegar þetta bætist við þann forða, sem kaupmenn hafa nú þegar, og sem þeim ef til vill kann að takast að útvega framvegis, þá er þetta þó svo góð trygging, að jeg álít, að landinu ætti að vera borgið ef ekkert sjerstaklega ófyrirsjáanlegt kemur fyrir.