25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

117. mál, lífsábyrgðarfélag

Frsm. (Sveinn Björnsson):

Mjer skildist af umr. hjá hverjum einasta manni, er talaði hjer í dag um innl. brunabótafjelag, að hjer væri um merkilegt mál að ræða, og það væri lífsnauðsyn, að koma slíkum stofnunum, sem ábyrgðarfjelögum, á innlendar hendur. Það hljóti að hafa stórvægilega fjárhagsþýðingu fyrir þetta land.

Næði þessi stefna fram að ganga, skapaði það kaupendur að innlendum verðbrjefum, sem við nú getum ekki selt. Í öðrum löndum eru sams konar fjelög bestu kaupendur verðbrjefa, og er þess vegna meiri ástæða fyrir okkur að hrynda þessu máli sem fyrst áleiðis, þar sem af því stafar aukin peningavelta og aukin menning. Því nú eru menn alment farnir að sjá það, hversu mikil nauðsyn er á því og hvílík siðferðisskylda það er fyrir menn, að tryggja líf sitt, til þess að þeir geti sjálfir sjeð sjer farborða, er árin færast yfir þá, svo að þeir sjeu ekki öðrum til byrði.

Jeg hefði helst kosið, að þetta þing stigi það mikla skref, að fela stjórninni þetta mál til að undirbúa það fyrir næsta þing og leggja þá fram frv. til laga, er miðaði að því, að gjöra innlendar sem flestar tegundir ábyrgðarstarfsemi.

Þegar þetta var rætt í nefnd þeirri, sem tillagan er komin frá, þá var mönnum það ljóst, að brýn nauðsyn væri á því, að koma brunabótatryggingum í annað horf, koma þeim á innlendar hendur. En hins vegar óaði sumum nefndarmönnum við því, að stíga undir eins svo stórt skref, að taka fyrir hvers konar ábyrgðarfjelög. Þess vegna er hjer ekki annað tekið fyrir en lífsábyrgðarfjelög og slysaábyrgðarfjelög, ef fært þykir. Fer því tillagan fram á, að stjórnin undirbúi og leggi fyrir næsta þing lög um stofnun landslífsábyrgðarfjelags.

Það er alkunnugt, að við lífsábyrgð eru einna einfaldastir útreikningar allra ábyrgðarfjelaga. Það er hægt að reikna það út í hverju landi, hvernig haga þarf iðgjöldunum, svo nákvæmlega, að áhættan verði engin til þess að gjöra. En til þess að gjöra úr garði slíka útreikninga hjer og tillögur, þá álítur nefndin að þurfi talsvert ítarlegar rannsóknir á dánarprósentu manna á öllum aldri og heilbrigðisástandi þjóðarinnar öllu o. fl., o. fl. Þess vegna þýðir ekki að óska þessa, nema þá sje jafnframt heimilað stjórninni fje í þessu skyni. Þess vegna leggur nefndin það til, að stjórninni skuli vera heimilt, að verja til þessa alt að 5 þús. kr., til rannsókna og undirbúnings, og ef þingið felst á þetta, þá gjörir hún ráð fyrir að fjeð verði veitt í fjárlögunum. Það er eina rjetta leiðin, sem fara á, þegar gjört er ráð fyrir að stjórnin þurfi að nota fje út af þingsályktunartill., enda hefir hún verið tekin upp hjer í háttv. deild, út af einni þingsályktunartill., sem hjer var samþykt fyrir nokkru um Flóaáveituna.

Jeg vona nú, að háttv. þingdeild sjái hvílíkt nauðsynjamál þetta er og veiti því greiðan gang gegnum þingið. Nefndin hefir, eins og jeg tók fram áðan; ekki viljað fara lengra en þetta, en sjálfur segi jeg það fyrir mig, að þótt meira fje ætti að verja til þessa, þá hefði jeg ekki á móti því.