13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

147. mál, rannsókn á kolanámum á Íslandi

Ráðherra:

Eins og kunnugt er, var hjer í deildinni á dögunum lagt til að veita tilteknum manni 12 þús. króna lán úr viðlagasjóði, til að vinna kol. Nú liggur hjer fyrir tillaga um að rannsaka kolanámur. Mjer þykir þetta horfa skringilega við. Jeg vil nú spyrja: Ætlar þingið að láta rannsaka þær námur, sem ætlast er til, að veitt verði lán til að vinna? Ef svo er, þá er hjer að ræða um contra dictio. Í öðru lagi: Hver getur verið tilgangur deildarinnar, er hún fyrst neitar um fje til námurannsókna, en skömmu síðar ber fram þingsályktunartillögu um námu rannsóknir? Ætlast þingið til þess, að stjórnin gjöri þessa rannsókn með tvær hendur tómar? Það má geta því nærri, að námufræðingur fæst ekki fyrir ekki neitt. Þetta er einhver sá skrítnasti krabbagangur, sem jeg veit dæmi til, að þingið hafi tekið. Jeg tel, að miklu skynsamlegra hefði verið, að samþykkja fjárveitingu í fjárlögunum til kolarannsókna.

Annars er orðið svo mikið af þingsályktunartillögum og rökstuddum dagskrám, að það væri að bera í bakkafullan lækinn, að bæta nú enn við, og tæplega hægt að búast við því, að stjórnin, þótt öll væri af vilja gjörð, geti sinnt þeim öllum á að eins tveggja ára tíma.

Í fróðleiks skyni skal jeg telja upp þær rökstuddar dagskrár, sem samþyktar hafa verið nú á þinginu og skora á stjórnina:

1. Að endurbæta peningamál landsins, sjerstaklega Landsbankans.

2. Leita álits sóknarnefnda um legkaup.

3. Afla söluboðs á Þorlákshöfn.

4. Að athuga stimpilgjald.

5. Hvorki meira nje minna en gjöra tillögur um öll skatta- og tollamál landsins.

Af þingsályktunartillögum frá þessu þingi morar. Þessar hafa verið samþyktar, og ætlast hefir verið til að stjórnin ynni ákveðin verk:

1. Um verkmannamálið.

2. Um húsmannamálið.

3. Um eignarrjett útlendinga á fasteignum.

4. Um rannsókn hafnarstaða á landinu.

5. Um Flóaáveituna.

6. — endurskoðun vegalaganna.

7. — þegnskylduvinnuna.

8. — Sauðárkrókshöfn.

9. — strandferðir,

10. Um mæli og vog, er líklegt að verði samþykt í háttv. Ed., þar sem hún er á döfinni.

11. Um forðagætslu, að leita álits sýslunefnda og hreppsnefnda þar um, og væntanlega að semja ný lög um þau efni.

Ýmislegt er og eftir af dagskrám og þingsályktunartillögum frá þinginu 1914, sem ekki hefir enn verið sint, svo sem

1. Um bjargráðasjóðinn.

2. Um fækkun sýslumannsembætta, sem þó að nokkru mun heyra undir launanefndina.

3. Um að semja lög um hlutafjelög, og að endurskoða einn örðugasta kaflann í hegningarlögunum, um fjársvik.

4. Um grasbýli.

5. Um opinber reikningsskil og gjaldheimtu, sem nú er að nokkru leyti fullnægt, þótt enn sje það erfiðasta eftir, þ. e. tolleftirlitið.

Hjer á ofan bætist nú enn þessi tillaga. Þingið ætlast víst til þess, að stjórnin geti gjört alt þetta, ella mundi það tæplega hafa samþykt tillögurnar. Jeg skal taka það fram, að jeg hefi ekki neitt sjerstakt á móti þessari þingsáltill., en jeg tel ósanngjarnt, áð fella niður fjárveitingu um rannsóknirnar, en koma síðan með þingsályktunartillögu um þær. Jeg skal og geta þess, að útlit er til þess, að fjelag, sem nýstofnað er, taki að sjer þetta hlutverk, rannsóknirnar.

Það mun vera rjett hjá háttv. þingm. Dal. (B. J.), að allir jarðfræðingar eru sammála um það, að hjer finnist ekki kol, önnur en surtarbrandskol. Og þegar svo er, þá er óþarft að veita fje til rannsókna, heldur ætti þá að veita fje til að vinna námurnar, en það getur ekki verið verk stjórnarinnar.