13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2239 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

147. mál, rannsókn á kolanámum á Íslandi

Framsm. (Pjetur Jónsson):

Hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) hefir tekið af mjer ómakið að mestu í þessari umræðu. Það er ekki svo undarlegt, þó að hæstv. ráðherra sje orðinn óþolinmóður yfir öllum þessum áskorunum á stjórnina, en hart er það, að það skyldi einmitt lenda á þessari tillögu, að þolinmæðin brast.

Ástæður fjárlaganefndarinnar til þess, að bera fram þessa tillögu, er í stuttu máli þessi, eins og áður hefir raunar verið tekið fram, að fjárlaganefndin gat ekki fallist á, að veita fje til rækilegrar námurannsóknar á meðan engin vitneskja var um það, hvað fullkomin rannsókn kostaði. En hún var málinu hlynnt, og þess vegna vill hún fela stjórninni, að útvega þessa vitneskju.

Hæstv. ráðherra hefir ekki gætt þess, þegar hann talaði, að þessi tillaga er framlögð af fjárlaganefndinni áður 3. umr. fjárl. í þessari deild fór fram, og í engu ósamræmi við tillögu nefndarinnar. Hún var á móti því, að veita Guðm. E. Guðmundssyni lán til kolagraftar,og er það enn. En þótt nú þingið veiti lánsheimildina til Guðm. E. Guðmundssonar, þarf það ekki að teljast í ósamræmi við þessa tillögu í rauninni. Þótt krukkað verði í eitt fjall, veitir víst ekki af því, að ítarleg rannsókn komist á yfir höfuð fyrir því, ef hún kostar ekki því meira, og eftir því á stjórnin að komast. Skil jeg ekki í öðru en að námufjelagið muni hjálpa stjórninni til að koma þessari eftirgrenslan í verk.