13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (2749)

147. mál, rannsókn á kolanámum á Íslandi

Benedikt Sveinsson:

Hæstv. ráðherra fanst mikið ósamræmi í því, að veita fyrst fje til námugraftar, svo að fella tillöguna um námurannsókn, og heimta svo af sjer, að sjá um að rannsaka hversu mikið kunni að vera af kolum í jörðu hjer á landi. Þess ber að gæta, að vísindalega rannsóknin var ekki miðuð við þá kolanámu, sem fje var lánað til að reka, heldur átti að rannsaka aðrar kolanámur fyrir þá peninga, og eru þessi tvö atriði því óskyld. Það, sem olli því, að tillagan var feld, var það, hve fjárhæðin var mikil, 25000 krónur, án þess menn þó vissu hve mikið slík rannsókn myndi kosta.

Þar sem fjárlaganefnd beinir þessu máli nú til stjórnarinnar, án fjárveitingar, þá er hjer auðvitað höfð í huga alt önnur rannsókn heldur en fyrst var í ráði. Það er einungis ætlast til, að stjórnin kynni sjer, hvað kosta mundi að fá erlendan námufræðing, t. d. eitt sumar, og hve mikil og dýr áhöld hann mundi þurfa til rannsóknarinnar. Þetta ætti að vera hægt að gjöra með litlum tilkostnaði. Eins og hæstv. ráðherra benti á, er nú einnig stofnað fjelag, sem ætlar að rannsaka námur hjer á landi, og gæti það ef til vill tekið ómakið af stjórninni og landssjóði.

En með því að hæstv. ráðherra virðist standa ógn nokkur af tillögunni, þá ætla jeg nú að gjöra honum greiða og leyfi mjer því að bera fram svofelda rökstudda dagskrá:

Í trausti þess, að stjórnin leiti upplýsinga um það, ef unt er, hvað kosta muni ítarleg rannsókn á surtarbrandsnámum hjer á landi, og leggi þær fyrir næsta reglulegt Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

(Sigurður Sigurðsson: Dagskráin talar um surtarbrand en ekki kol). Jeg get ekki verið að breyta nafninu, og sje enga ástæðu til að kalla surtarbrandinn »brúnkol« eða öðrum þýskum eða erlendum nöfnum. Þessi kolategund heitir surtarbrandur á vora tungu. Það er gamalt og gott íslenskt orð frá heiðni, og vafalaust til orðið af því, að mönnum hefir þótt kynlegt, að finna þessa svörtu eldibranda niðri í jörðinni og ætlað, að þeir væri leifar eftir Surtarloga.