07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (2754)

22. mál, loftskeytastöð í Reykjavík

Fyrirspyrjandi (Sveinn Björnsson):

Í 6. gr. laga frá 22. okt. 1912 um ritsíma- og talsíma, er heimild handa landsstjórninni til að reisa loftskeytastöð í Reykjavík, er hafi nægilegan kraft til sambanda við útlönd, eftir nánari ákvörðun landsstjórnarinnar, og í samræmi við gildandi samninga. Þegar þingið samþykti þessi lög, þá var það ætlun þess, að tekið yrði ½ milj. kr. lán, bæði til símalagninga og svo til þessarar loftskeytastöðvar. Eftir því, sem mjer er best kunnugt, var svo þetta lán tekið árið 1913, og hafa síðan fyrir það verið lagðir ýmsir nýir símar, en við loftskeytastöðvamálinu hefir ekki verið hreyft.

Á þinginu í fyrra var kosin nefnd hjer í Nd. í símamálin, og spurðist hún fyrir hjá stjórninni um það, hvað stöðinni liði. Þessu svaraði stjórnin með brjefi, dags. 24. júlí 1914, er prentað var svo sem fylgiskjal með nefndaráliti símanefndarinnar á þgskj. 396. Þar eru greindar ýmsar ástæður til þess, að málið hafi dregist. Reynt hafði verið að fá dönsku stjórnina til þess, að láta gjöra fyrirhugaða loftskeytastöð í Færeyjum svo kraftgóða, að hún gæti haft samband við þessa stöð, en úr því hefði svo ekkert orðið. Enn fremur stóð þar svo, ef jeg mætti lesa með leyfi hæstv. forseta:

»Landssímastjórninni er það ljóst, að nú er kominn tími til að setja upp þráðlausa stöð til viðskifta við skip á sjó, og mun hún hið fyrsta stinga upp á því við landsstjórnina, að hvort sem Færeyjastöðin verður bygð um leið eða ekki, þá verði á árinu 1915 sett upp þráðlaus stöð nálægt Reykjavík«.

Eftir að þetta brjef kom til nefndarinnar, varð það að ráði hjá meiri hl. hennar, að skora á stjórnina, að láta reisa hjer sem fyrst Marconi-skeytastöð, sem dragi að minsta kosti 1400 kílóm. Þrátt fyrir þessa beinu áskorun er ekki farið til þess enn þá, og jeg veit ekki til þess, að neinar ráðstafanir sjeu enn gjörðar til þess, að fá það gjört á þessu ári. Þetta er því undarlegra, sem þetta mál er miklu meira vert en flest annað, sem þetta lánsfje hefir verið látið ganga til, því að samband hjeðan við skip umhverfis landið hefir jafnvel nú þegar um mörg ár verið nauðsynlegt, og þörfin fyrir það eykst ár frá ári, eftir því sem flotinn okkar vex, og það ætti að geta orðið að ómetanlegu gagni. Í því augnabliki, sem loftskeytastöð væri komin upp hjer í Reykjavík, þá myndu allir íslensku togararnir þegar fá sjer loftskeytatæki. Kostnaðurinn er ekki svo mikill við þetta heldur, ekki nema 6 þús. mörk, eða 10 þús. frankar, eftir upplýsingum landsímastjóra. Fyrir utan þetta er og á það að líta, að nú er það víðast hvar um hinn mentaða heim orðin tíska, að bæði vöruflutningaskip og þó einkum farþegaskip hafi þessi tæki, og t. d. hafa bæði skipin, sem Eimskipafjelag Íslands þegar hefir látið smíða, verið búin út með þeim, og hefir sú ráðstöfun hvarvetna þótt góð og heppileg, þótt hún hafi haft töluverðan kostnað í för með sjer. Enn fremur hefir Sameinaða gufuskipafjelagið danska nýtt skip á prjónunum, sem bráðum fer að sigla hingað, og líka hefir loftskeytatæki, og bæði það fjelag og önnur, sem hingað sigla, myndu þegar leggja öllum skipum sínum þau til, um leið og loftskeytastöð yrði reist hjer. Jeg skal ekki fara út í það, að lýsa því, hve þýðingarmikið þetta væri, ekki einungis þegar hætta væri á ferðum, heldur og þar fyrir utan, auk þægindanna.

Jeg álít nú þetta mjög miður farið, að þessi dráttur hefir orðið á framkvæmd málsins, því að það hefði mátt gjöra ráð fyrir því, að þegar bæði lágu fyrir skýlaus orð landsímastjórnarinnar um það, að stöðina ætti að reisa, og eins áskorun símanefndar til stjórnarinnar um að gjöra það, að þá hefði það verið gjört svo tímanlega á árinu, að stöðin hefði verið komin í starfrækslu, þegar skip Eimskipafjelags Íslands tóku að sigla hingað.

Jeg skal að eins drepa á það, að fyrir utan gagnið, sem hefðist af sambandinu við skipin, þá getur þráðlaust skeytasamband komið til vara í stað símasambandsins, ef það bilar. Ef dýrleiki eða annað hindrar það, að reisa nú þegar svo stóra stöð, sem ráð hefir verið gjört fyrir, þá má það þó með engu móti dragast, að reisa þessa sjálfsögðu stöð til gagns hjer við landið, og mætti þá stækka hana síðar, eftir því sem landssímastjóri hefir upplýst.

Af þessum ástæðum hefi jeg leyft mjer, að gjöra þessa fyrirspurn, og vænti nú, að háttv. deild fái frá hæstv. ráðherra upplýsingar um það, í fyrsta lagi, hvers vegna þessu máli hefir verið frestað svo, þrátt fyrir tvímælalaus loforð landssímastjórnar og áskorun símanefndar í fyrra, og í öðru lagi um það, hverjar ráðstafanir hæstv. stjórn hefir nú gjört, til þess að flýta fyrir málinu.