07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

22. mál, loftskeytastöð í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Jeg vildi að eins leyfa mjer að gjöra örstutta athugasemd. Þegar jeg var í Höfn, átti jeg tal við samgöngumálaráðherrann danska um þráðlausa stöð á Færeyjum. Hafði komið til tals milli fyrirrennara míns og danskra stjórnarvalda, að Íslendingar reistu stöð á Færeyjum í sambandi við Dani, en þeir þurfa þar þráðlausar stöðvar vegna smásambands milli tveggja eyja, þar sem »kabel« verður illa komið við, vegna straums. Ráðherrann tjáði mjer, að rekstur stóru stöðvarinnar yrði of dýr, vegna hins stutta sambands innan Færeyja. Jeg tók fram, að jeg, eftir atvikum, gjörði enga kröfu til samvinnu um stöð á Færeyjum, enda hygg jeg að sú skoðun sje hjer ráðandi, að lítið sje varið í þráðlaust samband við Færeyjar.

Að því er snertir byggingu stöðvar hjer, sem næði til útlanda, þá átti jeg tal við fróða menn um það atriði, er jeg var í Kaupmannahöfn, og var litið svo á, að öll vandkvæði væru á því, að reisa þá stöð að minsta kosti þá, enda var stríðið þá í byrjun. Bæði var álitið að kostnaðaraukinn við stöðina, vegna stríðsins, yrði afarmikill og fleiri ástæður komu til greina. Jeg gat því að svo stöddu máli ekki gjört frekara í málinu, en hefði jeg verið áfram, mundi jeg hafa tekið málið til yfirvegunar af nýju, undir breyttum kringumstæðum.