07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

22. mál, loftskeytastöð í Reykjavík

Pjetur Jónsson:

Jeg stend upp vegna þess, að jeg vildi geta glöggvað mig sem best á upplýsingum þeim, er hæstv. ráðherra hefir gefið í þessu máli. Mjer skilst, sem telja megi víst, að loftskeytastöð, sem dragi til Ameríku, myndi kosta hátt upp í miljón króna, eða því sem næst. Hún myndi því verða okkur ofvaxin, og miklu stærri en hugsað var, og getur því ekki komið til greina. Enn fremur skildist mjer, að örðugleikar myndu vera á því, að fá stöð, sem dragi til Björgvinjar, þar sem til þess þyrfti sjerstaka samninga við Stóra Norræna. Eins skildist mjer líka, að tilboðin sem til mála hefðu komið um slíka samninga, hefðu ekki þótt aðgengileg. Sje þetta ekki rjett skilið hjá mjer, þá vildi jeg mælast til þess, að jeg yrði leiðrjettur, því að þetta mál er of mikils vert, til þess að þar megi komast að nokkur misskilningur. (Ráðherra: Þetta er rjett skilið). Mjer virðist þá samkvæmt þessu ekki vera annað eftir en að sætta sig við, að koma upp stöð, sem hafi einungis samband við nálæg skip, (Ráðherra: 250 km. stöð), en þá er spurningin, hvort Alþingi hefir nokkurn tíma viljað sætta sig við stöð, er ekki dragi lengra. Jeg felst á það með fyrirspyrjanda (S. B.), að þörf sje á slíkri stöð, og jeg mun því vera fylgjandi því, að henni verði komið upp, þó að jeg á þingi 1912 áliti heppilegra, að komið yrði upp stöð, sem næði til Björgvinjar eða til Noregs.