07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2256 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

22. mál, loftskeytastöð í Reykjavík

Ráðherra:

Háttv. þm. Dal. (B. J) má vera kunnugt um það, hvað ritsímanefndin hefir meint með þessari áskorun sinni í fyrra. En þar sem nefndin, meiri eða nokkur hluti hennar, skoraði skilyrðislaust á stjórnina, að láta reisa slíka stöð, þá skyldi maður ætla, að tilgangurinn hefði verið sá, að stjórnin kæmi þessu í framkvæmd, gjörsamlega án tillits til þess, á hverjum kostnaði landið myndi eiga von. Sennilega hefir þó nefndin reyndar hugsað sjer, að stjórnin ljeti gjöra þetta, án þess að stöðin yrði alt of tilfinnanlega þungur ómagi, en þá verð jeg líka að segja, að nefndin hefir farið nokkuð ljett yfir spurninguna. Það er alt af hægurinn hjá, að skora í sífellu á stjórnina, að framkvæma hitt og þetta, án þess að hafa athugað, hvort það muni vera framkvæmanlegt, eins og mjer virðist ritsímalaganefndin hafi leitt hjá sjer að athuga í fyrra.