12.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (2769)

143. mál, útibú frá Landsbankanum á Austurlandi

Ráðherra:

Jeg býst ekki við, að eyða löngum tíma til að svara fyrirspurn háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.). Hann flutti í fyrra þingsályktunartillögu um það, að stofnað yrði útibú frá Landsbankanum á Austfjörðum. Var stjórninni heimilað 1912, að setja útibú þetta hvar sem væri á Austfjörðum, en samkvæmt bankalögunum 18. sept. 1885, átti það að vera á Seyðisfirði. Í tilefni af þessari þingsályktunartillögu skrifaði svo landsstjórnin stjórn Landsbankans, til að leita álits hennar, áður en frekar yrði gjört í málinu. Þetta er það, sem landsstjórnin hefir gjört í þessu máli, og hún gat ekkert annað gjört.

Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp svar bankastjórnarinnar við þess brjefi stjórnarráðsins.

Landsbanki Íslands.

Reykjavík, 20. febr. 1915.

Vjer höfum meðtekið bjef hins háa stjórnarráðs, dags. 26. jan. þ. á., svo og þingsályktanir beggja þingdeilda, þar sem skorað er á landsstjórnina, að hlutast til um, að stofnsett verði útibú frá Landsbankanum á Austurlandi, og æskir hið háa stjórnarráð umsagnar vorrar og tillagna um málið.

Vjer leyfum oss því að láta það álit vort í ljós, að vjer teljum það hið mesta óráð, að Landsbankinn stofni fyrst um sinn fleiri útibú en þau tvö, er hann hefir, þar sem hann hefir svo nauðalítið veltufjármagn.

Eins og kunnugt er, er veltufje bankans nú:

1. Landssjóðsseðlarnir kr. 750,000

2. Framlag landssjóðs — 100,000

Samtals kr. 650,000

Auk þess hefir hann lánsfje kr. 1,900,000.00, sem hann að vísu á ekki sjálfur að endurgreiða, en hann verður þó að svara 4½% vöxtum af láninu, meðan það stendur eða nokkur hluti þess. Alt annað veltufje er lánsfje, er taka má fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Á hinn bóginn hefir hann orðið að leggja útibúunum til hið allra nauðsynlegasta veltufje, og nam það hinn 31. des. árin 1910–1913, sem hjer segir:

Á Akureyri Á Ísafirði

1910 : 550,625.00 587,801.00

1911: 402,604.00 611,125.00

1912: 427,959.00 439,491.00

1913: 371,275.00 452,151.00

Þegar það er athugað, að útibúin hafa jafnan minst fje með höndum um nýár, en talsvert meira á öðrum árstímum, þrátt fyrir það, að bankinn heldur í við þau, svo sem framast þykir gjörlegt, sjest, að þau komast ekki af með minna en fulla ½ miljón hvert. Upphæðin, er bæði útibúin þurfa á að halda, til að fullnægja viðskiftaþörfinni, fer því langt fram úr hinu eiginlega veltafje bankans.

Auk þessa eru aðrar kvaðir á bankanum, sem lama starfsþrek hans, svo sem það, að hann verður að láta standa stórtje í verðbrjefum, sem sett eru að veði fyrir veðdeildinni. Sú upphæð nemur nú 750,000 kr., eða sem svarar nálega öllum varasjóðinum. Enn fremur er bankanum lögð á herðar sú kvöð, sem virðist fremur ástæðulítil, að hafa 20% af sparisjóðsinnstæðunni liggjandi í verðbrjefum, og nemur þetta nú um 660,000 kr. Vjer vonum því, að háttvirt stjórnarráð, er það athugar hag bankans, sjái, að eigi sjeu tiltök, að láta hann setja þriðja útibúið á stofn, nema bankanum bætist viðbótarveltufje til þess, er ekki mætti vera endurkræft.

Fylgiskjölin endursendast hjer með.

Virðingarfylst

Landsbanki Íslands.

Björn Sigurðsson. Björn Kristjánsson.

Til

Stjórnarráðs Íslands.

Eins og jeg sagði áðan, þá hefir landsstjórnin ekki gjört annað í málinu, og hún gat ekki heldur vel gjört neitt annað. Bankastjórnin telur það hið mesta óráð, að stofna útibúið, meðan bankinn hefir ekki meira óafturkræft veltufje. Bankinn hefir, eins og tekið er fram í brjefi hans, 750,000 kr. í seðlum, og auk þess það fje, sem landsstjórnin tók að láni handa honum, og skoðast má sem rekstursfje, úr því að landssjóður leggur honum til 100,000 kr. á ári í 20 ár, samkvæmt lögum nr. 50 1913, nema hvað bankinn greiðir vextina. Bankinn hefir því 23/4 miljón króna sem veltufje. En nú lítur bankastjórnin svo á, að það sje oflítið, til þess að hægt sje að setja þriðja útibúið á stofn. Áður en það sje framkvæmanlegt, þurfi að auka veltufje bankans. Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) mun gefa nánari upplýsingar, ef þörf krefur.

Jeg býst ekki við, að háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) muni þykja mitt svar uppörfandi, en jeg hefi ekki meira um þetta mál að segja.