15.09.1915
Neðri deild: 63. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

153. mál, fossar

Fyrirspyrjandi (Sveinn Björnsson):

Jeg hlýt að biðja afsökunar á því, hversu seint þessi fyrirspurn kemur fram, og get því þakkað hæstv. ráðherra, að hann hefir samt sjeð sjer fært að svara henni.

Það er nú svo, eins og kunnugt er, að við eigum mikla fjársjóðu í landinu, þar sem fossarnir eru. En þeir hafa verið óhreyfðir hingað til, enda er það fyrst nú, að menn yfirleitt eru farnir að nota þetta afl, þessi »hvítu kol«, svo að ráði sje. Þetta hefir orðið til þess, að útlendingar tóku að festa augu á fossunum okkar, og mjer hefir borist til eyrna, að þeir hafi nú þegar náð tökum á bestu og stærstu fossunum í Þingeyjarsýslu, og það sama er mjer sagt um fossa á Suðurlandi.

Ef útlendingar ná hjer í fossa, geta þeir gjört það í ýmiskonar tilgangi. Þeir geta bæði notað þá til ýmiskonar stórvirkja og ýmislegra verklegra framkvæmda; líka gætu þeir notað þá til að fyrirbyggja, að þeir verði notaðir í samkepni, við aðra fossa í heiminum, sem þeir eru að notfæra sjer á einhvern annan hátt. Þannig mun því vera farið með Goðafoss. Hann á fjelag í Noregi og Englandi, sem hefir keypt hann til þess, að ekki væri hægt að nota hann til samkepni við fossa í Noregi. Að minsta kosti er það víst, að þótt útlendingar hafi náð tökum á fossum hjer á landi, þá er enn ekki farið að gjöra neitt með neinum þeirra.

Nú tel jeg það óheppilegt, ef útlendingar ná tökum á öllum fossum hjer á landi, sem einhvers virði eru, áður en við röknum við, hvort þess verður nú langt eða skamt að bíða, ekki síst ef þeir eru látnir ónotaðir. Jeg tel það illa farið, er við síðar sæjum, að við þyrftum að nota einn eða fleiri fossa, nota þá sem aflstöð til einhverra mikilla framfara og gagns, að við þá yrðum að kaupa þessa eign okkar aftur háu verði af útlendingum, svo háu verði, að ekki borgaði sig að nota þá.

Það var mikið talað um þetta mál 1907, og þá voru fossalögin samin, til þess að takmarka eignarrjett útlendinga hjer á fossum. En það er um þessi lög eins og svo mörg önnur, að þau hafa verið miklu fremur á pappírnum.

Síðan hefir ekki um þetta mál verið rætt opinberlega, og á meðan hefir það skeð, sem skeð hefir, að mikill hluti fossa okkar Íslendinga hefir komist á útlendar hendur.

Annars eru þessi fossamál þannig vaxin, að þau þurfi mikinn tíma til íhugunar. Þær þjóðir, er eiga fossa, t. d. Norðmenn, hafa látið sjer ant um að tryggja sjer eign á fossunum. Þeim þykir of seint að gjöra það, er til þeirra nauðsynlegu framkvæmda kemur, er fossana má nota til.

Árið 1907 kom til mála að selja Gullfoss í Hvítá í Árnessýslu í erlendar hendur. En þá var þó landinu boðið að fá fossinn á leigu fyrir 300 kr. á ári. Um þetta munu hafa verið gjörðir samningar.

Um daginn rak jeg mig á það í landsreikningunum, undir »óvissar tekjur« fyrir 1912, að þar stóð »endurgreidd leiga fyrir Gullfoss«, að upphæð 1500 kr. Jeg hefi síðan frjett, að landsstjórnin hafi afsalað sjer rjettinum á fossinum og þetta hafi verið endurgreiðsla á leigunni, 300 kr. á ári í 5 ár.

Jeg veit ekki um sönnur á þessu, en út af þessu vildi jeg þó spyrja hæstv. ráðherra, hvort rjettinum hafi verið afsalað. Ef svo er, hefir þá landsstjórnin jafnframt áskilið landssjóði endurkaupsrjett á þessum rjettindum, eða á annan hátt trygt landinu umráð yfir fossinum?

Þetta var viðvíkjandi Gullfossi.

Hitt var viðvíkjandi svokölluðum Sogsfossum.

Mjer er kunnugt um það, að landssjóður á hlutdeild í 3 fossum í Soginu, sem er á milli Þingvallavatnsins og Hvítár, ekki langt frá því, er Sogið rennur í ána. Þessir fossar eru að sögn sjerstaklega vel fallnir til að verða aflstöð, bæði af því, að fyrir aftan þá er allmikið stöðuvatn, er getur »regulerað«, og auk þess eru þarna 3 fossar, er hægt væri að sameina og leiða þá í eitt fall.

Ef menn færu einhverntíma að nota fossa hjer á landi, og jeg hefi þá trú, að þess verði ekki lengi að bíða, þá liggur þarna aflstöð, sem hlýtur að geta haft ómetanlega mikla þýðingu fyrir alt Suðurlandsundirlendið. Jeg vil benda á það, ef að járnbraut yrði lögð um þenna hluta landsins og lestin yrði knúð með rafmagni, þá væri þarna sjálfsögð aflstöð í því skyni. Einnig mætti nota þá sem aflstöð til ýmislegra verklegra framkvæmda bæði í Rangárvalla- og Árnessýslu og sömuleiðis í Reykjavík. Það mætti einnig orða það, að nota þá til að ná áburði úr loftinu, sem víða er farið að tíðkast, og væri þetta mjög hentugur staður í því skyni. Það væri ekki eins dæmi þó að landssjóður tæki fossana að sjer og seldu síðan rafmagnið. Það hafa Svíar gjört með »Trollhätten« og selja rafmagn, sem unnið er úr honum, jafnvel öðrum þjóðum, t. d. til Kaupmannahafnar, og það reynst með arðvænlegri fyrirtækjum, er landið hefir tekið í sínar hendur.

Jeg skal ekki fjölyrða þetta meira. En mig langar til að vita hversu mikið landssjóður á í þessum Sogsfossum og hvort afhent hafa verið rjettindi landssjóðs til fossanna. Það er sökum þess, að jeg geng þess ekki duldur, að ef vjer Íslendingar viljum hrynda einhverjum verklegum framkvæmdum, sem um munar, áleiðis, og nota til þess rafmagn, eru þessir fossar lang best fallnir sem aflstöð í því skyni.