15.09.1915
Neðri deild: 63. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (2787)

154. mál, Björgvinjargufuskipafélagið

Fyrirspyrjandi (Matthías Ólafsson):

Jeg er þakklátur hæstv. ráðherra fyrir það, að hann hefir tekið þessa fyrirspurn til greina, þótt tíminn væri svo stuttur, sem hann var, fyrir hann til að svara henni. Bendir það á góðan vilja hans, og eins hitt, að hann telur málið þess vert, að um það sje rætt.

Eins og kunnugt er gjörði fyrrverandi ráðherra H. Hafstein samning við Björgvinjargufuskipafjelagið, dags. 24. okt 1913. Vil jeg nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp meginatriði samnings þessa, og eru þau á þessa leið:

l. gr. Gufuskipafjelag Björgvinjar skuldbindur sig með samningi þessum til að halda uppi gufuskipaferðum frá Austur- og Vestur-Noregi um Færeyjar og umhverfis Ísland.

Ferðir árlega skulu vera 19, með 14 daga millibili, mánuðina apríl til október, að báðum meðtöldum, og mánaðarlega frá byrjun nóvember til marsloka, samkvæmt hjálagðri áætlun, undirritaðri fyrir hönd gufuskipafjelags Björgvinjar af Kr. Lehmkuhl, dags. 2. ágúst 1913, með þessum breytingum:

Á þriðju og fjórðu vetrarferð (í janúar- og febrúarmánuðum) verður sú breyting, að skipin, eftir viðkomu sína á Ísafirði, halda áfram norður og austur um landið, með viðkomum í janúarmánuði á Steingrímsfirði, Akureyri, Húsavík, Vopnafirði og Eskifirði.

Í sumarferðunum, B. 4, B. 6, B. 8 og B. 10, frá Reykjavík til Noregs, skulu viðkomur vera á Seyðisfirði í stað Fáskrúðsfjarðar.

Í öllum sumarferðunum norður um land skal Hólmavík í Steingrímsfirði vera viðkomustaður, þó með því skilyrði, að vitalýsing sje nægileg.

Í vetrarferðunum frá Noregi til Íslands skal koma við á Seyðisfirði á undan Eskifirði,

Í sumarferðunum B. 6 og A. 9, skal Djúpivogur verða viðkomustaður í staðinn fyrir Fáskrúðsfjörð.

Í sumarferðunum A. 3, B. 8 og A. 9 skal viðkomustaður vera Reyðarfjörður fyrir Eskifjörð.

Í sumarferðunum B. 6 og A. 9, skal koma við í Þórshöfn í stað Vopnafjarðar.

Í sumarferðunum A. 5 og A. 9, frá Noregi til Íslands, skal Seyðisfirði bætt við á áætlun sem viðkomustað.

2. gr. Skipin skulu fylgja áætlun, eftir því sem þeim er frekast unt. Stærð þeirra og ferðhraði, skal vera ámóta eins og »Flóru«.

3. gr. Skipin skulu hafa nægilegt farmrúm, og á 1. farrými hæfilega mörg herbergi fyrir farþega, og að auki haganlegt 3. farrými. Þau skulu ávalt vera í gildu standi, með næga og góða skipshöfn. Allar skemdir á skipunum, skal þegar í stað lagfæra. Far- og farmgjöld skulu vera þau sömu, sem nú eru. Ef breyta þarf einstöku gjöldum, áskilur fjelagið sjer að mega gjöra það, og enn fremur áskilur það sjer hætilega aukaborgun fyrir vörur og farþega til og frá norskum viðkomustöðum, fyrir norðan Björgvin og sunnan Stavanger.

4. gr. Ef farartálmi verður af sjótjóni eða á annan hátt, skulu jafngóð skip, svo fljótt sem unt er, taka upp ferðirnar. Ef nothæf skip fást eigi, og ferð fellur niður, ber að draga frá þóknuninni það, sem henni svarar.

Þó skal enginn frádráttur fyrir byrjaða ferð.

Hjer sleppi jeg úr nokkrum greinum, sem snerta póstflutninginn, en svo kemur:

8. gr. Fjelagið skal bera skaða þann og útgjöld (t. a. m. ef aukaferðir þarf að gjöra með póstflutning), sem hið opinbera verður fyrir vegna atvika, sem stjórn fjelagsins, skipstjórar, skipverjar eða aðrir í fjelagsins þjónustu, hafa orðið valdandi, annað hvort af ásettu ráði eða varúðarleysi, sem þeim verður gefin sök á, þó ekki fram yfir það, sem skipsverð eða farmgjöld hrökkva til.

9. gr. Fyrir ferðir þessar skal fjelagið, sem þóknun fyrir póstflutninginn, fá greiddar árlega úr landssjóði 30,000 kr., er útborgist mánaðarlega.

10. gr. Sje samningur þessi rofinn af fjelagsins hálfu, hefir stjórnarráðið rjett til að slíta honum þegar í stað. Sje að eins um lítilvæg brot að ræða, getur stjórnarráðið ákveðið að fjelagið skuli greiða hæfilegar bætur.

11. gr. Fjelagið ber ekki ábyrgð, samkvæmt samningi þessum, þó að ferðir stöðvist eða þeim seinki, vegna þess, að skipshöfnin eða fólk það, sem annast fermingu eða affermingu, gjörir alment verkfall.

Fjelagið skal ekki heldur svara fyrir stöðvun eða seinkun skipa, sem stafa af kolaverkfalli eða útflutningsbanni í Englandi, nema fjelagið hafi sýnt vanrækslu í því, að útbúa sig með venjulegar birgðir.

Þóknun fyrir ferðir þær, sem burt falla af þessum ástæðum, greiðist þó eigi, hvernig sem ástæðunum að öðru leyti hefir verið varið.

Ef ágreiningur verður um samning þenna, svo og um það hvort stjórnarráð Íslands hafi heimild til að rjúfa hann af ástæðum þeim, sem tilteknar eru í þessari grein, skal skera úr samkvæmt þeim gjörðarákvæðum, sem tekin eru fram í samningi fjelagsins við atvinnuráðuneytið norska um sömu skipaferðir, þó að sjálfsögðu þannig, að samningsaðiljar hjer verða stjórnarráð Íslands og fjelagið.

12. gr. Samningur þessi gildir í 2 ár, frá 1. apríl 1914 að telja.

Það skal tekið fram, að enda þótt fjelagið hafi ekki sjeð sjer fært, að taka fyllilega til greina óskir stjórnarráðs Íslands, um að komið verði við á Borðeyri, Blönduósi eða Skagaströnd, í stað Hólmavíkur, í nokkrum ferðum, hefir það samt lofað, að láta skipstjóra sína rannsaka, hvort breyting þessi sje framkvæmanleg. Ef fjelagið að því búnu álítur óhætt að skifta þannig til, verður það gjört, og skal athugasemd um þetta sett í ferðaáætlun skipanna.

Fjelagið geymir sjer rjett til að sleppa viðkomum í Færeyjum að meira eða minna leyti.

Samningur þessi gengur í gildi þegar sams konar samningur milli fjelagsins og hinnar norsku stjórnar hefir hlotið samþykki Stórþingsins. Þetta er þá samningur sá, sem nú er í gildi milli stjórnarinnar og þessa fjelags, og það er nú á hvers manns vitorði, að í ágúst í fyrra hækkaði fjelagið farmgjöld um 25% alt í einu, og það án þess, að ráðfæra sig nokkuð um það við landsstjórnina, eða tjá nokkrar ástæður fyrir því. Jeg veit nú ekki um það, hvort nokkrir af þeim einstaklingum, sem fyrir þessum búsifjum hafa orðið, hafa kært yfir þeim til stjórnarinnar, en væntanlega mun hæstv. ráðh. gefa oss upplýsingar um það. Jeg veit, að menn hafa orðið að borga þetta hækkaða gjald af því, að þeir hafa verið neyddir til þess, en þeir hefðu átt að bera sig upp við stjórnina samt sem áður.

Það sjá nú allir á samningnum, að í honum stendur hvergi, að fjelagið megi gjöra annað eins og þetta. Að vísu stendur í 3. gr., að það megi breyta »einstöku gjöldum« og heimta aukaþóknun fyrir vöru- og farþegaflutning til og frá norskum höfnum fyrir norðan Björgvin og sunnan Stavanger, en því fer svo fjarri, að fjelagið hafi látið sjer nægja með þetta, að það hefir hækkað öll gjöld, og það jafnvel stórum á milli hafna hjer við land.

Auk þess eru skip fjelagsins oft hörmulega langt á eftir áætlun, og það ekki af völdum náttúrunnar, heldur fjelagsins sjálfs. Enginn fæst um það, þótt skipum seinki, þegar ís hindrar þau, en þegar það stafar af tómu kæruleysi, þá má það ekki vera óátalið. Það er hart, þegar gjörðir eru formlegir samningar, að þeirra skuli þá ekki gæta, fremur en þeir væri ekki til. Að jeg nú ekki tali um meðferðina á farþegum á þessum skipum. Jeg skal rjett til dæmis geta þess, að jeg var á ferð með einu þeirra í vor, þar sem var slíkt háfermi af timbri úti fyrir salshurðinni, að ekki varð komist út, nema með því, að smeygja sjer á rönd með mestu gætni. Ef menn hugsa sjer nú, að svona skip lendi í ís og ótti grípi farþegana, þá sjá menn best hver óhæfa það er, að ekki komist út nema einn í einu öðru megin af farrýminu, ekki síst þegar þess er nú gætt um leið, að þau hafa að jafnaði flutt 2/3 fleiri farþega en þau höfðu leyfi til. Það er þeim nú reyndar nokkur vorkun, því að fólkið treðst á skipin, en fyrir því er ekki hægt að verja aðbúnaðinn.

Jeg ætla mjer nú ekki að halda langa tölu. Tilgangur minn með fyrirspurninni er sá, að jeg vil vita hvort þeir, sem fyrir þessum ójöfnuði hafa orðið, hafa kært yfir honum, og þá hvort stjórnarráðið hefir af þeim ástæðum dregið af styrknum til fjelagsins, eða krafist af því skaðabóta samkvæmt samningnum. Yfirleitt hver gangskör hafi verið gjörð að því, að koma því til leiðar, að samningurinn verði betur haldinn af hálfu fjelagsins en hingað til hefir raun á orðið.

Eitt er það, að fjelagið lofar í 12. gr., að láta rannsaka, hvort ekki sje fært, að hafa viðkomustaði á Borðeyri, Blönduósi eða Skagaströnd, og haga sjer þar eftir, ef svo reynist. Jeg veit ekki hvort nokkuð hefir verið gjört í þessu, en helst hygg jeg, að skip fjelagsins komi aldrei á þessar hafnir.

Þá er enn sagt, að fjelagið hafi sýnt staka ógætni í því, að senda hingað sprengiefni, dynamit, með farþegaskipum. Það er auðvitað alveg óleyfilegt, og mundi hvergi þolað annarsstaðar; en það er altalað, að mikið af þessu hættulega efni hafi komið hingað til Reykjavíkur með Björgvinjarskipi, sem flutti farþega.