15.09.1915
Neðri deild: 63. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

154. mál, Björgvinjargufuskipafélagið

Sigurður Eggerz:

Jeg man ekki, að í minni ráðherratíð kæmi fram nokkrar umkvartanir yfir atriðum þeim, sem háttv. þm. Húnv. (G. H.) mintist á, en vitaskuld er erfitt að muna nákvæmlega um öll slík smámál, þegar svo langt er liðið um. Úr því jeg er staðinn upp, þá skal jeg taka það fram, að jeg vissi ekki að fjelagið hækkaði farmgjöld, fyrr en jeg kom heim úr utanför minni í vetur. En strax og jeg varð þess áskynja, skrifaði stjórnarráðið fjelaginu það brjef, sem hæstv. ráðherra gat um, en þar er kvartað yfir hækkuninni og landinu geymdur sinn rjettur. En svar upp á þetta brjef var ókomið, er jeg ljet af stjórninni. Á ferð minni í Bergen í vetur kvartaði jeg yfir óreglu þeirri, sem þá var orðin á ferðum fjelagsins, en þá var ófriðnum gefin sök á óreglunni. Síðan hefir með símskeytum og á annan hátt verið kvartað yfir óreglunni á ferðunum. Hafði jeg hugsað mjer, ef jeg hefði farið í vor á konungsfund, að eiga þá tal við fjelagið og leitast við að koma betra skipulagi á málið. Að sjálfsögðu er það rjett hjá hæstv. ráðherra, að erfitt er við fjelagið að eiga, en jeg er líka að öllu leyti á sama máli, sem háttv. fyrirspyrjandi (M. O.) um það, að ferðir Björgvinjarfjelagsins hafi gefist mjög illa, og væri mjög æskilegt, ef hægt væri að koma rjettmætum sökum fram í málinu.