30.08.1915
Efri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

72. mál, kirkjugarður í Reykjavík

Kristinn Daníelsson:

Jeg hefi komið fram með dálitla brtt. á þgskj. 651, er fer fram á, að hálfa legkaupið sje miðað við tveggja ára börn í stað fimm. Jeg tek það fram, að jeg gjöri þetta ekki að neinn kappsmáli og tel það í sjálfu sjer ekki skipta máli, en vildi koma með það sem bending fyrir deildina, svo ákveðið verði hið sama aldurstakmark og áður. Jeg hygg að hv. nefnd hafi ekki verið fullljóst á hverju þetta ákvæði muni hafa verið bygt fyrr á tímum. Ástæðan hygg jeg hafi verið sú, að barn yngra en tveggja ára væri ekki gjört ráð fyrir að þyrfti sjerstakt rúm, en siðurinn einatt sá, að stinga barnsstokk, sem það er kaltað, í gröf með fullorðnum manni. En þegar barnið er orðið fimmára, verður að ætla því sjerstakt grafrúm. Jeg hef viljað að eins leiða athygli að þessu. Annars má auðvitað ákveða hvert aldurstakmark sem vill.