04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Steingrímur Jónsson:

Jeg hefi komið fram með tvær brtt. við þennan kafla fjárlaganna, sem jeg vildi minnast á með örfáum orðum.

Um fyrri brtt. er lítið að segja. Hún er prentuð á þgskj. 754, og er við 14. gr. B. IX. 2. og gengur út á það, að bæta aflan við liðinn um húsmæðrakenslu Jónínu Sigurðardóttur því skilyrði fyrir fjárveitingunni, að 400 kr. framlag komi annarsstaðar að. Þetta hafði fallið úr af vangá í háttv. Nd., og leyfi jeg mjer að taka það upp.

Hin brtt. er við 14. gr. B. XII. 2. og gengur út á að veittar verði 10,000 kr. síðara árið til að reisa barnaskóla utan kaupstaða. Í frumv. stjórnarinnar, sem lagt var fyrir þingið, var ætlast til að veittar yrðu 15,000 kr. hvort árið í þessu skyni, en það var felt í neðri deild.

Síðan fræðslulögin urðu til, hefir ávalt verið litið svo á, sem landssjóður væri skyldugur til að kosta skólabyggingarnar á móti hreppunum, enda hefir ávalt síðan verið veitt fje til þess í fjárlögunum.

Mjer þótti ummæli hæstv. ráðherra um barnafræðsluna harla undarleg. Jeg gat ekki skilið hann öðru vísi en svo, að hann kendi barnaskólunum um alt mentunarleysi þjóðarinnar, eða öllu heldur barnaskóla Reykjavíkur. Jeg hygg, að hæstv. ráðherra sje ókunnugt um, hve örðugt er að halda uppi heimakenslu í sjóþorpunum. En jeg þekki nokkuð til þess, og jeg veit líka hvernig ástandið var áður en fræðslulögin gengu í gildi. Þau gengu í gildi 1907, en jeg er dálítið eldri. Allar kröfur manna til barnafræðslu eru nú stórbreyttar frá því sem var, meðan lögin frá 1880 giltu. Þá fór kenslan mestmegnis fram í heimahúsum, undir eftirliti prestanna. Þá voru sama sem engin kauptún; í raun og veru ekkert, nema Reykjavík með 2400 íbúa. Nú eru 33% af öllum íbúum landsins búsettir í kauptúnum, og ástandið á heimilunum er stórbreytt og ómögulegt að koma við sama fyrirkomulagi og áður. Þetta olli breytingunni, sem komst á 1907. Allir, sem verulegan áhuga höfðu á fræðslumálum, vildu vinna að því, að þau lög kæmust í framkvæmd, og það jafnvel þótt þeir gætu eitthvað að þeim fundið, sem vitanlega er vel hægt, því gallar eru talsverðir á lögunum. En nú verður ekki móti því mælt, að með þessum lögum hefir landið bundið sjer skyldu á herðar, sem það verður að gegna. (Ráðh.: Svo er engu síður með símalögin.) Rjett er það að vísu, en símalögin skipa ekki fyrir um það, sem gjöra eigi á hverju ári. En ef fjárveitingarvaldið kippir nú að sjer hendinni alt í einu, þá er verulega illa farið. Það eru mýmörg fræðsluhjeruð, þar sem nauðsynlega þarf að byggja, því gamla fyrirkomulagið, að kenna í baðstofum, er alveg óviðunandi. En jeg held, að þetta, sem jeg hefi stungið upp á, sje sú allra minsta fjárupphæð, sem komist verður af með. Fræðslumálastjórinn sagði við mig í dag, að 8000 kr. væri það allra minsta, sem komið gæti til mála, en kvaðst mundu sætta sig við það.

Jeg legg þá þessa brtt. fram í þeirri von, að háttv. deild taki henni eins vel og hún er sanngjörn.

Það er nú búið að minnast á helstu brtt. nefndarinnar við þennan kafla, en þó langar mig til að segja örfá orð um nokkrar þeirra.

Háttv. þm. Gullbr.- og Kjósarsýslu (K-D.) hefir minst á 27. brtt. á þgskj. 687, um að fella burtu launaviðbótina til dócents Sig. Sivertsen. Jeg er honum sammála um það, að þetta sje ekki rjettlátt. Það stendur nokku öðruvísi á fyrir honum en öðrum dócentum við Háskólann; hann getur miklu minna unnið sjer inn aukreitis en hinir dócentarnir, en hefir alveg jafn mikið að gjöra og prófessorarnir við guðfræðisdeild Háskólans. Þetta yrði nokkurs konar dýrtíðaruppbót fyrir hann, sem sanngjarnt er að háttv. deild taki til greina.

Það hefir verið minst svo rækilega á námsstyrkinn við Mentaskólann, að litlu ætti þar að vera við að bæta. En ekki get jeg verið á sama máli og hæstv. ráðherra, að ekki sje æskilegt að reyna að draga bestu krafta æskumannanna að Mentaskólanum. Það er algjörlega rangt að líta á skólann sem embættismannamaskinu eina; hann er áreiðanlega besti vegurinn, sem hjer er kostur á, til að gera eitthvað úr þeim mönnum, sem hneigðir er til náms eða lista. Minst hefir verið á, að taka upp, skólagjald, og getur vel verið að jeg yrði því meðmæltur, ef því yrði þá varið til þess að styrkja fátæka menn til náms; skólagjaldið kæmi þá í stað námsstyrksins, sem nú er veittur í fjárlögunum. En það yrði þá að byrja á að taka skólagjald, áður en styrknum er svift í burtu. Þetta, sem jeg hefi sagt um Mentaskólann, gildir vitanlega að mestu leyti einnig um gagnfræðaskólann á Akureyri, og skil jeg ekki, hvers vegna nefndin fer miklu harðar með hann. Aftur á móti lít jeg svo á, að hún hafi farið rjett að með búnaðarskólana, að auka þar verklegu kensluna og fella þá burtu námsstyrkinn. Nefndin mælir með styrk til kvöldskóla í Reykjavík. Ekki verður sagt að þetta

bendi sjerstaklega í sparnaðaráttina, og fullnóg virðist vera af skólunum í Reykjavík.

Jeg verð að taka undir með háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) með það, sem hann sagði um Björn Jakobsson. Mjer þætti mjög illt, ef þessi styrkur yrði feldur, því mjög líklegt er að gagn verði af ferð hans. Maðurinn er mjög efnilegur.

Jeg verð að vera sammála hæstv. ráðherra um það, er hann sagði um styrkinn til skálda og listamanna. Ef meira yrði af honum sniðið, þá væri það beinlínis hlægilegt, því við liggur, að þá væri engu að skifta. Minna en það, sem nú er í frv., má það ekki vera.

Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) mintist dálítið á 54. breytingartillögu nefndarinnar, um að fella burtu styrkinn til Einars Hjaltested. Jeg hefi sjeð brjef viðvíkjandi þessum unga manni og vitnisburð frá New-York og Kaupmannahöfn. Þar er talað um að í þessum manni muni búa frábært listamannsefni, og sænskur söngfræðingur í. New-York hefir enn fremur um hann ritað, telur engan vafa á því, að ef hann fái að læra og þurfi ekki að fara að vinna fyrir sjer með söng sínum nú þegar, muni hann geta orðið Caruso Norðurlanda. Pilturinn getur reyndar þegar farið að vinna fyrir sjer, en þá einungis á kostnað raddarinnar, þannig, að hann verði aldrei það, sem hann annars gæti orðið. Faðir hans. hefir kostað hann mikið, og að jeg hygg yfir efni fram, og mun nú ekki vera fær um mikið meira.

Af öllum þessum ástæðum finst mjer rjett vera, að veita þennan styrk, svo pilturinn geti uppfylt þá innilegu ósk sína, að komast til Ítalíu til að nema þar. Við. hefðum þá gjört tilraun til þess, að fá þennan gimstein fægðan. Vel getur svo farið, að tilraunin mishepnist, en hún getur líka hepnast, og þá er ekki til einskis unnið.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að. 56. brtt. nefndarinnar, um að fella burtu, styrkinn til Ágústs Bjarnasonar. Styrk þennan biður hann um, til þess að geta lokið við hið mikla ritverk sitt „Yfirlit yfir sögu mannsandans“ Jeg held að óhætt sje að fullyrða að bækur þessa höfundar sjeu mjög vinsælar og hafi gert mikið gagn. Og ekki þætti mjer það ólíklegt, ef þessi fjárveiting væri borin undir allan almenning, að miklu fleiri yrðu þeir, sem henni yrðu hlyntir, minsta kosti þeirra manna, er eitthvað vilja vita. Sú andleg fæða, sem í þessum bókum er boðin, er líka miklu betri en margt annað, sem styrkt er.

Jeg hlýt að telja það rangt að fella burtu styrk til jarðabóta handa búnaðarfjelögunum, ekki af því, að jeg telji, að bændur dragi um þetta, heldur af því, að þessi styrkur til búnaðarfjelaganna hefir verið til þess, að halda þeim saman, og á búnaðarfjelögunum eru aftur bygð búnðarsamböndin og Ræktunarfjelagið og svo aftur á þeim, má segja, Búnaðarfjelag Íslands. Hjer er því hreyft við hyrningarsteini í búnaðarmálabyggingu landsins, og það er, að minni hyggju, talsverður háski. Jeg hygg, að áður en ný skip- un væri gerð um þessi mál, væri rjett að vita, hvað Búnaðarfjelag Íslands vill og getur gjört, til að efla framfarir, en að gjöra þetta nú, án þess að vita neitt um það, og alveg upp úr þurru og þvert ofan í fyrirmæli alþingis 1909 og 1913, um skilyrði til styrksins, safnþrór o. fl., það finst mjer ekki vera forsvaranleg fjárhagspólitík.

Nefndin vill veita 5000 krónur til að leita að vatni í Vestmannaeyjum með vatnsborum, en jeg hefði kunnað betur við, að við fengjum upplýsingar um, hvort líkur væru til þess að þetta kæmi að nokkru gagni. Jeg skil það, að það sje afarþýðingarmikið fyrir eyjarskeggja, að reynt sje að ná þar vatni, en það er óneitanlega betra að fá að vita um líkur fyrir því, að fjárveitingin komi að notum.

Þá er næsti liður í brtt, fjárlaganefndarinnar, um að veita 25 þúsund krónur til kolarannsókna. Þeirri tillögu get jeg ekki verið með. Jeg tel það mjög vafasamt og engar líkur vera leiddar að því, að við getum náð kolum með þeim tækjum og þeirri kunnáttu, er við höfum. Og svo er jeg ekki viss um, að þessar 25 þúsund krónur dugi til þess að rannsóknin komi að verulegum notum, og jeg held að þetta verði aldrei gjört, nema með ríkri og öflugri fjelagsstofnun. Og jeg tel það hart, ef Alþingi fer að kasta 25000 krónum til kolarannsókna, alveg svona út í bláinn, að hægt er að segja, en neitar um 18000 krónur til að rannsaka járnbraut austur.

Þá ber nefndin fram tillögu um, að framlagið til brimbrjótsins í Bolungarvík sje bundin því skilyrði, að 1/3 kostnaðarins verði lagður fram annarsstaðar að. Jeg tel það rjett, að landsjóður kosti ekki mannvirki þetta að öllu leyti, en jeg tel tillagið oflítið. Jeg tel að það megi ekki minna vera en helmingur eða jafnvel meira. Jeg áskil mjer því að koma með breytingartillögu um þetta til þriðju umræðu, en veit hins vegar ekki hvort jeg gjöri það eða ekki.

Fjárlaganefndin leggur enn fremur til, að 9. liður 21. greinar, um lán til Húsavíkur, falli niður. Nefndinni hefir þar, satt að segja, tekist að finna hið eina, er snertir Þingeyjarsýslu í fjárlögunum, því styrkurinn til dragferju á Bergstaðahyl er svo lítilfjörlegur, að jeg tel hann ekki. En án gamans, — jeg get vel skilið, hvað nefndinni hefir gengið til, að hafa ekki margar lánsheimildir í fjárlögunum nú. En ástandið er nú svo hjer í landi, að ýmsum þjóðþrifafyrirtækjum er eigi unt að koma í framkvæmd, nema með láni. Jeg hafði nú hugsað mjer, að þegar að landssjóður veitti Landsbankanum 100000 króna styrk í 20 ár, þá mundi bankinn geta veitt Húsavíkurhreppi lán til þessa þarfa fyrirtækis. En jeg hefi reynt þetta. Jeg get að vísu fengið þar veðdeildarlán, því trygginguna, ábyrgð Húsavíkurhr., telja þeir góða. Svo ekki vantar tiltrúna. En jeg fæ þetta lán útborgað í veðdeildarbrjefum, en Landsbankinn vill ekki kaupa brjefin; jeg hefi svo farið í Íslandsbanka og spurt þar að því; hvort þeir vildu kaupa brjefin, en þar er líka svarið: Nei. En jeg á eftir enn eina leið, það skal játað, og það er að vita, hvort Landsbankinn vill svo ekki veita hreppnum lán út á veðdeildarbrjefin. En þá fer lánið að verða æðidýrt — ofdýrt, þó hjer sje um nauðsynlegt framfaramál að ræða fyrir Húsvíkinga.

Það er rjett, að það er lítið fje fyrir hendi, en þess ber að gæta, að það borgast allt af inn upphæðir til viðlagasjóðs, (afborganir lána), og þær nema talsvert miklu, um 200 þúsund krónum á fjárhagstímabilinu, eða upp undir 100 þúsund krónur á ári. Jeg sje ekki ástæðu til þess, að þetta fje sje gjört að eyðslueyri og eytt til árlegra gjalda. Og þá er ekki nema tvent fyrir hendi, annaðhvort að geyma það sem peningaforða, eða að lána það til þarfra fyrirtækja, og það tel jeg hollara til þjóðþrifa. Og fjárlaganefndin hefir samþykt fjögur lán til einstakra manna; þau geta orkað tvímælis, en hafa þó öll eitthvað til síns ágætis. En sje rjett að veita þessi lán þar sem þörfin er minni, þá er rjett að veita Húsavíkurhrepp þetta tiltölulega litla, en þarfa lán. Sama er að segja um Skeiðaáveituna, en þar standa þó efnaðri að.

Með 83. breytingartillögunni greiði jeg atkvæði með ánægju. Jeg tel það rjett, að Gefjun fái þennan frest, og tel að með því móti verði meiri trygging fyrir því, að landssjóður fái fje sitt.

Um brtt. háttv. þm. Barð. (H. K.) vil jeg taka það fram, að jeg gæti verið með henni, ef jeg hjeldi, að það yrði til nokkurs gagna fyrir manninn, en jeg held það yrði þvert á móti. Jeg held það yrði til þess, að steypa honum í enn meiri skuldir og fara með efni hans. Þetta er hjartans sannfæring mín, og jeg tel þetta verra, en þó landssjóður tapaði nokkru á láninu. (Hákon Kristófersson: Það má hann sjálfum sjer um kenna). Það er rjett, en það er ekki betra fyrir það.