04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (2918)

30. mál, vörutollaframlenging

Björn Kristjánsson:

Það er afar leiðinlegt, hversu oft er reynt að breyta slíkum lögum sem þessum. Eins og menn muna, komst þetta ákvæði inn í vörutollslögin 1913 fyrir harðfylgi hv. þm. Dal. (B. J.); strigi og segldúkur voru sett í 2. flokk. Jeg færði rök fyrir því á þinginu 1914, að þetta væri brot á grundvelli laganna. Það liggur í því, sem háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) tók ekki fram, að það er önnur fragt á striga og segldúki en venjulegum vefnaðarvörum, 2 kr. fyrir 100 pd. af striga, en 3 kr. 50 a. fyrir aðrar vefnaðarvörur. Þess vegna er það, að kaupmenn freistuðust til að búa um með segldúk og striga t. d. »molskinn«, ljereft og stumpasirs, til þess að spara sjer flutningsgjald, og enn meiri yrði freistingin, ef þeir líka gætu sparað toll við það. Þannig yrði hægt að fara í kringum lögin, ef annar tolltaxti er látinn gilda um segldúk og striga en þessar vörur, sem jeg nefndi, og þær því gefnar upp sem strigi á tollskránum. Af því að lægri fragt er á striga og »Hessian«, er hætta á þessu, og eftir að jeg upplýsti þetta á þingi 1914, fjellust menn á þetta og urðu einróma á sama máli.

Viðvíkjandi því, er háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) hjelt fram, að í hvert sinn, sem umbúðir kæmu hingað endursendar, væru þær tollaðar, þá er það rangt, að jeg hygg. Umbúðir eru ótollaðar, eftir því sem mig minnir, svo ef það kemur fyrir, að tollur er lagður á þær, þá er það viðkomandi mönnum sjálfum að kenna, ef þeir greiða toll af þeim. Í lögunum stendur skýrt og ótvírætt, að toll skuli að eins greiða í fyrsta skifti af þeim, en ekki oftar. Sje þetta þó einhverjum misskilningi undirorpið, þá þyrfti að eins að breyta því, en ekki öðru, því að nýjan striga verður að tolla á sama hátt og aðra vefnaðarvöru. Jeg get því verið með slíkri breytingu.

Jeg efast ekki um, að háttv. deild muni halda fast við skoðun sína á þessu frá þinginu 1914. Jeg held líka, að menn munaði ekki mikið um þetta, því að »Hessian« er mjög ljett í vigt, borið saman við aðrar vefnaðarvörur.

En hitt er alveg rjett, að æskilegt væri að breyta lögunum þannig, að brúkaðar umbúðir væru tollfrjálsar, ef mig rangminnir, að þær sjeu það. Mætti þá laga það við 3. umr.