03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

46. mál, sveitarstjórnarlög

Framsm. (Þorleifur Jónsson):

Jeg þarf ekki að hafa langa framsögu, því að frumv. er ekki í raun og veru margbrotið. Það fer að eins fram á þá breytingu á sveitarstjórnarlögunum, að kosningar í sýslunefndir og hreppsnefndir fari fram með leynd, ef hreppsnefndir eða okkur hluti kjósenda krefst þess.

Það má nú ef til vill segja, að ekki muni mikil þörf á því, að hafa þessar kosningar leynilegar, þar sem ekki mun hafa hingað til átt sjer stað kapp í þessum kosningum. En nefndin bjóst þó við, að einhverstaðar hafi nauðsyn þessa ákvæðis gjört vart við sig, fyrst farið var að bera þetta frumv. fram í háttv. Ed. Og sá tími getur komið, að betra sje, að menn eigi kost á að hafa þessar kosningar leynilegar, líkt og kosningar til Alþingis og bæjarstjórna:

Meiri hluti nefndarinnar leggur því til, að frumvarpið nái fram að ganga, þó með þeirri breytingu við 1. gr., að 3/10 kjósenda þurfi til þess, að geta óskað leynilegrar ksningar, í, stað 1/10 sem stendur í frumvarpinu. Meiri hl. nefndarinnar þótti oflítið brot af kjósendum til tekið í frumv. Ed., og leit svo á að ekki mætti takmarkið vera minna en nálægt 1/3, enda þá líka fengin trygging fyrir því að um einhver þau mál sje að ræða, sem orðið geti eða sjeu veruleg kappsmál.

Það er nú sennilegt, að mál þetta sje ekki mjög áríðandi, en meiri hluti nefndarinnar leit svo á, að frv. væri að minsta kosti meinlaust. Að vísu er það athugavert, að dálítinn kostnað geta þessar kosningar haft í för með sjer fyrir hreppssjóðina, en þar sem ekki mundi til. þeirra koma, nema í knýjandi nauðsyn, þá ætti sá kostnaður að verða greiddur með góðum vilja.

Aðrar greinir frumvarpsins eru líkar því, sem er í lögum um kosningar til Alþingis.

Jeg hefi þá ekki ástæðu til þess, að fara lengra út í málið, en legg það á vald háttv. deildar.