05.08.1915
Efri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

23. mál, sérstakar dómþinghár

Steingr. Jónsson :

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með breytingartillögu á þingskjali 207. Það stendur svoleiðis á því, að fyrir 20 árum var hinum gamla . Helgastaðahreppi í Þingeyjarsýslu skift í 2 hreppsfjelög, Reykdæla- og Aðaldælahrepp. Var þá svo ákveðið, eins og venja er til, þegar hreppum er skift, að dómþingháin skyldi vera óskift, þ. e. að allir skyldi sækja þing í Reykdælahrepp. Þetta hefir verið látið haldast, en þó var af fyrirrennara mínum, Benedikt Sveinssyni, tekin upp sú venja, að halda manntalsþing í ytri hreppnum líka.

Úr því nú er komið fram frumvarp um að fjölga dómþinghám í Eyjafjarðarsýslu, álít jeg heppilegt, að þessu yrði breytt um leið í Þingeyjarsýslu. Þessi breyting getur ekki verið til baga fyrir neinn. Það er til hagræðis fyrir sýslumanninn, þar sem annar þingstaðurinn, sá í Aðaldælahreppi, verður nær skrifstofu hans en verið hefir. Hinn verður óbreyttur. Jeg vona því, að deildin viðurkenni, að breytingartillaga þessi sje rjettmæt, og leyfi henni að ganga fram.