13.08.1915
Efri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

45. mál, ráðstafanir út af Norðurálfu-ófriðnum

Framsögumaður (Karl Einarsson):

Nefndin hefir athugað frumvarp þetta, og komist að þeirri niðurstöðu, að þýðingarlaust væri að fara fram á neinar verulegar breytingar á því, þótt það sje engan veginn svo vel úr garði gjört, sem við hefði mátt búast. Allri nefndinni kom saman um, að breyta þyrfti 2. málsgrein 3. gr. í frumvarpinu, ef það ákvæði, sem í henni felst, ætti að geta komið að nokkru haldi, og leggur því nefndin til, að brtt. á þgskj. 295 verði samþyktar. Það þarf ekki að taka það fram, að nefndin leggur ríka áherslu á, að stjórnin grípi aldrei til þess óyndisúrræðis að leggja á útflutningsbann, nema brýnustu nauðsyn beri til. Um útflutningsbann það, sem nefndin legur til að gjört verði á mör og tólg, er það að segja, að margir álíta það þýðingarmikið, því að hjer er að ræða um ódýrt feitmeti sem auðvelt er að bæta svo, að það verði gott viðbit. — Brtt. á þgskj. 305 leiðrjettir að eins prentvillu, sem slæðst hefir inn í frv.

Loks skal jeg geta þess, til skýringar því, sem stendur í nefndarálitinu um það, hversu lengi háttv. Nd. hefir legið á frv. þessu, að mjer er kunnugt um, að strax í þingbyrjun fór deildin að yfirvega þetta mál, eins og sjálfsagt var. Annars leggur nefndin mikla áherslu á það, að málinu verði flýtt sem mest má verða.